Home / Fréttir / Merkel og Hollande lögðu hart að Pútín vegna Aleppó

Merkel og Hollande lögðu hart að Pútín vegna Aleppó

Frá fundinum í Berlín 19. október 2016.
Frá fundinum í Berlín 19. október 2016.

 

Angela Merkel Þýskalandskanslari sagði við upphaf fundar leiðtogaráðs ESB í Brussel fimmtudaginn 20. október að þrýsta ætti á Vladimír Pútín Rússlandsforseta og krefjast varanlegs vopnahlés í Sýrlandi. „Ég vona að við getum sem leiðtogaráð Evrópu sagt skýrt að það sem gerist í Aleppó með stuðningi Rússa sé með öllu ómannúðlegt,“ sagði kanslarinn þegar hún kom til fundarins í Brussel.

Að mati kanslarans skiptir mestu að veita almennum borgurum aðstoð. Yrði fólkinu hjálpað kæmi í ljós að það ætti að stærstum hluta enga samleið með hryðjuverkahópum, til þess þyrfti hins vegar frið og endalok hernaðarátaka.

Á kvöldfundi leiðtogaráðsins ætlaði Merkel að segja frá fundi sem hún og François Hollande Frakklandsforseti áttu með Pútín í Berlín að kvöldi miðvikudags 19. október. Á blaðamannafundi í Berlín eftir fundinn með Pútín lögðu Merkel og Hollande hart að Pútin að tryggja viðvarandi vopnahlé í Aleppó. „Höfuðmarkiðið á að tengjast því að unnt sé að veita fólki hjálp,“ sagði Merkel að fundinum loknum að kvöldi miðvikudagsins.

Hollande vék að stríðsglæpum í máli sínu á blaðamannafundinum með Merkel og sagði að það væri „alls ekki nóg“ að Rússar hefðu lýst einhliða yfir vilja til að gera hlé á bardögum. Það væri aðeins unnt að veita fólki aðstoð yrði um langt vopnahlé að ræða. Bæði Merkel og Hollande sögðu að það væri á valdi Rússa og stjórnar Sýrlands að tryggja slíkt vopnahlé.

Áður hafði Pútín sagt að hann væri hlynntur lengra vopnahlé í Sýrlandi enda yrðu engin sérstök skilyrði tengd því. Hann sagði í Berlín að þá yrðu allar vopnaðar sveitir í Aleppó að halda að sér höndum. Pútín vildi að Bandaríkjamenn legðu meira af mörkum til að halda aftur af andstæðingum Sýrlandsforseta. Við Merkel og Hollande lagði hann til að hafist yrði handa við smíði nýrrar stjórnarskrár fyrir Sýrland og undirbúning kosninga í landinu.

Merkel gagnrýndi að ráðist væri á almenna borgara undir því yfirskyni að tekist væri á við hryðjuverkamenn. Þá var sagt að með mjög „hörðum orðum“ hefði Pútín verið gerð grein fyrir því að ekki væri unnt að sætta sig við framgöngu rússneska hersins í Sýrlandi.

Hollande sagði að íbúðabyggð í írösku borginni Mosul yrði ekki „teppalögð“ með sprengjum í átökunum sem hafin eru til að ná borginni úr höndum Daesh (Ríki íslams). Skiljanlegt væri að í Aleppó yrðu menn að greina á milli hófsamra hópa og öfgahópa á borð við Al-Nusra, þeir væru hins vegar fámennir í Aleppó. Ekki yrði unnt að ræða um pólitíska framtíð Sýrlands nema í skjóli viðvarandi vopnahlés þar sem unnt yrði að veita almennum borgurum nauðsynlega hjálp og aðstoð.

Á fundinum í Berlín var einnig rætt um deiluna vegna Úkraínu. Pútín mun hafa sagt að ÖSE gæti látið meira að sér kveða í umdeilda Donbass-héraðinu án þess að lýsa því nánar.

Merkel hefur boðað nýtt friðarátak undir merkjum Minsk-samkomulagsins og hefjist það nú í nóvember í austurhluta Úkraínu. Merkel segist skilja þá afstöðu stjórnvalda í Kænugarði að ekki sé unnt að hefja pólitískar umbætur fyrr en öryggi í austurhéruðum Úkraínu hafi verið tryggt.

Það verður verkefni utanríkisráðherra Þýskalands, Frakklands, Rússlands og Úkraínu að vinna að framkvæmd þessa átaks og skilgreina nánar inntak þess.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …