Home / Fréttir / Merkel óánægð með afstöðu Trumps til loftslagsmála

Merkel óánægð með afstöðu Trumps til loftslagsmála

Donald Trump og Angela Merkel í Taormina.
Donald Trump og Angela Merkel í Taormina.

Angela Merkel Þýskalandskanslari segir að umræður á G7-leiðtogafundinum í Taormina á Sikiley laugardaginn 27. maí um loftslagsmál hafi verið „mjög ófullnægjandi“ vegna afstöðu Donalds Trumps Bandaríkjaforseta sem ætlar að íhuga fram í næstu viku hvort hann virði áfram Parísar-samkomulagið um loftslagsmál eða ákveði að Bandaríkjamenn segi sig frá því.

Allir hinir sex leiðtogarnir staðfestu hollustu ríkisstjórna sinna við samkomulagið frá París. Merkel sagði alls óvíst hvað Bandaríkjastjórn mundi gera. Hún sagði ekki unnt að gera neinar málamiðlanir varðandi loftslagssamkomulagið frá París. Það væri ekki unnt að líkja því við neitt annað samkomulag heldur væri það lykilþáttur við mótun hnattvæðingar samtímans.

Í kosningabaráttunni í fyrra hét Trump því að vinna að breytingum á Parísar-samkomulaginu og hótaði að segja sig ella frá því. Eftir að hann varð forseti hefur hann hægt og sígandi afnumið ýmsar reglur sem settar hafa verið í anda samkomulagsins enda komi þær sér illa fyrir bandarísk orkufyrirtæki.

Forstöðumaður bandaríska efnahagsráðsins, Gary Cohn, náinn ráðgjafi Trumps sagði í tengslum við fundinn á Sikiley að viðhorf Trumps til málsins væru að mótast hann hefði viljað fræðast á G7-fundinum og átta sig betur á málinu. H.R McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi Trumps, sagði í þessu máli tæki Trump ákvörðun með hagsmuni bandarísku þjóðarinnar að leiðarljósi.

Þegar rætt var um viðskiptamál samþykktu Bandaríkjamenn að í lokaályktun fundarins yrði lýst andstöðu við verndarstefnu. Fréttaskýrendur að með því hefði náðst verulegur árangur því að Trump hafi áður boðað verndarstefnu í anda sigursæls kosningaslagorðs síns: Bandaríkin fyrst.

Merkel lýsti niðurstöðu fundarins á þann hátt að saman myndu ríkin vinn að því að tryggja frjálsa markaði og berjast gegn verndarstefnu en þau myndu einnig tryggja að af hörku yrði snúist gegn ósanngjörnum viðskiptaháttum.

Leiðtogar frá Túnis, Kenya, Eþíópíu, Níger og Nígeríu tóku þátt í fundi G7-leiðtoganna laugardaginn 27. maí. Ítölum, gestgjöfum leiðtoganna, var kappsmál að ríkustu þjóðir heims lýstu vilja til að styðja Afríkuríki efnahagslega til að fækka tilraunum ungs fólks frá þeim til að hefja hættuför til Evrópu. Hugmyndir Ítala í þessu efni komust í raun aldrei á dagskrá fundanna í Taormina.

Fyrir brottförina frá Sikiley og heimferðina til Bandaríkjanna sagði Trump að fyrsta utanlandsferð sín sem forseta hefði „sannarlega verið söguleg vika fyrir land okkar“. Hann hefði „aldrei verið jafn vongóður um að þjóðir með ólík trúarbrögð geti sameinast um eitt markmið“ í baráttunni við hryðjuverkamenn.

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …