Home / Fréttir / Merkel í stórvanda vegna CSU – Ítalir og Frakkar sættast

Merkel í stórvanda vegna CSU – Ítalir og Frakkar sættast

Horst Seehofer og Angela Merkel.
Horst Seehofer og Angela Merkel.

Angela Merkel Þýskalandskanslari er sögð glíma við mesta pólitíska vanda sem að henni hefur steðjað síðan hún leiddi flokk sinn, Kristilega demókrataflokkinn (CDU) til stjórnarforystu með systurflokkinn í Bæjarlandi, Kristilega sósíalflokkinn (CSU) sér við hlið árið 2005. Ágreiningur er milli Merkel og Horsts Seehofers, leiðtoga CSU og innanríkisráðherra Þýskalands, um stefnuna í útlendingamálum.

Kjarni ágreiningsins snýst um að Seehofer vill að öllum sem sækja um hæli í Þýskalandi verði vísað úr landi hafi þeir áður verið skráðir í öðru Schengen-ríki. Seehofer vill með öðrum orðum fara að ákvæðum reglugerðarinnar sem kennd er við Dublin og snýst um afgreiðslu hælisumsókna innan Schengen-svæðisins.

Merkel vill að enga einhliða breytingu á afgreiðslu þessara mála í Þýskalandi og þess skuli beðið að hún ræði málið á fundi leiðtogaráðs ESB 28. og 29. júní meðal annars með það í huga að virkja betur FRONTEX, landamærastofnun Schengen-svæðisins, í þágu Þýskalands.

Efnt var til funda um málið í æðstu stjórnum CDU og CSU fimmtudaginn 14. júní. Ekkert samkomulag var í sjónmáli eftir fundina og Seehofer gaf til kynna að ef til vill tæki hann einhliða ákvörðun um að nýju reglurnar tækju gildi mánudaginn 18. júní. Brjóti hann gegn vilja Merkel verður hún að gera upp við sig hvort hún grípur fram fyrir hendur hans og tapi stuðningi CSU eða breyti um stefnu.

Alexander Dobrindt, þingflokksformaður CSU í Berlín, þar sem kosið verður til heimaþings í haust sagði að flokkurinn stæði 100% að baki Horst Seehofer og stefnu hans. Það væri vilji CSU að stefnu Þýskalands í útlendingamálum yrði gjörbylt. Hann sagði að CSU vildi að sjálfsögðu að málið yrði rætt á vettvangi ESB en flokkurinn teldi að grípa yrði strax til aðgerða í Þýskalandi. Ekki væri unnt að finna að því að Þjóðverjar gerðu þær ráðstafanir á þessari stundu sem lög heimila þeim.

Paul Ziemiak, formaður ungliðahreyfingar CDU, sagði að flokkurinn stæði fast við bakið á Merkel. Hann sagðist vona að samkomulag næðist milli flokkanna í byrjun næstu viku.

Seehofer hittir forystusveit CSU í München mánudaginn 18. júní og. er búist við að á fundinum tilkynni hann framkvæmd hertra reglna við þýsku landamærin.

Þýska fréttastofan Deutsche Welle segir að vissulega sé þetta ágreiningur um stefnumál en að baki búi átök um hver eigi að ráða ferðinni fyrir hönd kristilegu flokkanna í Þýskalandi, mið-hægri flokka landsins.

Seehofer, sem er formaður CSU, og Markus Söder, forsætisráðherra í Bæjarlandi, hafa í huga kosningarnar til þings Bæjarlands í október og skoðun þeirra er að hert stefna í útlendingamálum sé forsenda þess að flokkurinn haldi hreinum meirihluta í kosningunum. Þeir tala einnig fyrir hönd margra innan CDU sem eru ósammála stefnunni sem Merkel mótaði í útlendingamálum árið 2015 þegar hundruð þúsunda farand- og flóttafólks streymdi til Þýskalands í boði hennar.

 

Frakkar og Ítalir stilla saman strengi

 

Giueseppe Conte, forsætisráðherra Ítalíu, og Emmanuel Macron, forseti Frakklands, hittust í París föstudaginn 15. júní til að stilla saman strengi stjórna sinna í útlendingamálum eftir að ný ítölsk ríkisstjórn með mjög harða útlendingastefnu settist að völdum

Niðurstaða viðræðna Conte og Macrons var að styðja stefnu sem miðar að því að ESB komi á fót miðstöðvum fyrir hælisleitendur í löndum sem eru brottfararstaður margra sem leita til Evrópu.

Macron leggur til að reist verði hælis-miðstöðvar í brottfararlöndum til Evrópu þ. á m. Líbíu. Hann segir að margir sem reyni að fara til Evrópu eigi þess „engan kost að fá hæli í Evrópu“ en týni lífi við tilraunina eða verði að búa mánuðum saman við erfiðar aðstæður á meðan þeir bíða þess eins að verða sendir heim að nýju. Það mætti komast hjá þessum vandræðum með því að afgreiða umsóknirnar í heimalandi hælisleitendanna.

Conte samþykkti hugmynd Macrons og hvatti til þess að núverandi kerfi yrði endurbætt á margan hátt. Hann sagði Ítala „mjög andvíga“ þeim hugmyndum sem væru á kreiki um breytingar á Dublin-reglunum. Þeir mundu leggja fram „róttækar breytingatillögur“ Það yrði að endurskoða regluna um skyldur þess lands þar sem hælisleitandi skráði sig fyrst. „Þegar einhver stígur á land á Ítalíu stígur hann á land í Evrópu,“ sagði hann.

 

Viðfgangsefni leiðtogaráðs ESB

 

Eins og segir hér að ofan vill Angela Merkel að Horst Seehofer fresti öllum aðgerðum við þýsku landamærin þar til eftir fund leiðtogaráðs ESB 28. og 29. júní. Föstudaginn 15. júní tók Emmanuel Macron  afstöðu með Merkel í deilu hennar við Seehofer. Macron sagði lönd bundinn af því að fara þá leið sem ríkisoddvitar þeirra mótuðu. „Það er einnig leiðtogi ríkisstjórnar í Þýskalandi,“ sagði forsetinn.

Horst Seehofer vill að Dublin-reglunni um afgreiðsluskyldu fyrsta skráningarlands hælisleitanda sé fylgt en nýja ríkisstjórnin á Ítalíu leggst gegn því. Til að árétta þetta sjónarmið hefur Matteo Salvani, innanríkisráðherra Ítalíu, meðal annars neitað björgunarskipinu Aquarius að koma með fólk í hafsnauð til Ítalíu. Loks samþykkti ný ríkisstjórn Spánar að skipið fengi að leggja að landi í spænskri höfn með rúmlega 629 skipreka einstaklinga, einkum frá Afríku.

_102040854_migrant_ship_with_spain_640_v3-nc
Á kortinu sést hvaða leið skipið Aquarius hefur farið. Það er nú á leið til Valencia á Spáni.

Eftir að Salvani hafnaði Aquarius gagnrýndi Emmanuel Macron ákvörðun hans harðlega. Hann sakaði Ítala um „kaldlyndi“ og „ábyrgðarleysi“ með því að hafna skipinu og farþegum þess.

Ítalir svöruðu með því að saka Frakka um „hræsni“. Þrengt væri að ítölskum efnahag og samaðilar Ítala að ESB yrðu að leggja meira af mörkum til að létta undir með þeim.

Óvildin magnaðist svo mjög milli Ítala og Frakka áður en fundurinn var haldinn föstudaginn 15. júni að franski sendiherrann í Róm var kallaður í ítalska utanríkisráðuneytið til að taka við mótmælum og fundi efnahagsráðherra ríkjanna var aflýst.

Þegar Macron hringdi í Conte að kvöldi miðvikudags 13. júní og sagðist ekki hafa ætlað að móðga Ítali lægði öldurnar í samskiptum stjórnvalda ríkjanna.

Aquarius er nú á leið til Valencia á Spáni. Þess er vænst að skipið verði þar sunnudaginn 17. júní. Miðvikudaginn 13. júní leyfðu Ítalir skipi með rúmlega 900 farand- og flóttafólki að leggja að bryggju á Sikiley.

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …