Home / Fréttir / Merkel í Auschwitz: „Ég fyllist djúpri skömm“

Merkel í Auschwitz: „Ég fyllist djúpri skömm“

 

Angela Merkel gengur með forsætisráðherra Póllands og fulltrúum gyðinga inn í Auschwitz.
Angela Merkel gengur með forsætisráðherra Póllands og fulltrúum gyðinga inn í Auschwitz.

Angela Merkel Þýskalandskanslari fór i fyrstu opinberu heimsókn sína til Auschwitz-Birkenau í Póllandi föstudaginn 6. desember, 14 árum eftir að hún tók við kanslaraembættinu. Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands, var í för með Merkel ásamt fyrrverandi föngum og fulltrúum ýmissa samtaka gyðinga.

Í ræðu sem Angela Merkel flutti í Birkenau-dauðabúðunumn sagði hún hrylling gyðingaofsóknanna (Holocaust) „óskiljanlegan“. Hún lagði áherslu á þá staðreynd að illmennin hefðu verið þýsk og að Þjóðverjum væri skylt að viðurkenna ábyrgð gagnvart fórnarlömbunum.

„Ég fyllist djúpri skömm andspænis glæpaverkunum sem Þjóðverjar unnu hér,“ sagði kanslarinn, það væri „óaðskiljanlegur hluti“ sjálfsmyndar Þjóðverja að muna og viðurkenna ábyrgð sína á glæpunum.

Það væri skylda Þjóðverja „að vernda líf gyðinga“ og „gyðingahatur ólíðandi“.

Hún gekk einnig að vegg dauðans í þeim hluta búðanna sem kenndur er við Auschwitz. Þar skutu SS-menn þúsundir manna til bana, að meirihluta voru þeir pólskir pólitískir fangar. Aftökustaðurinn er mikilvægur pólskur minningarreitur.

Með heimsókninni var þess minnst að 10 ár eru liðin frá því að Auschwitz-Birkenau stofnunin tók formlega til starfa. Merkel tilkynnti að Þjóðverjar mundu gefa stofnuninni 60 milljónir evra.

Í nóvember 1977 varð Helmut Schmidt Þýskalandskanslari fyrstur háttsettra þýskra stjórnmálamanna til að heimsækja þessar alræmdu fanga- og aftökubúðir nazista. Hann hlaut járnkrossinn fyrir framgöngu sína í þýska hernum í síðari heimsstyrjöldinni.

Í upphafi ræðu sinnar sagði Schmidt: „Hér á þessum stað ber mönnum að virða þögnina. Þó er ég þess viss að Þýskalandskanslari getur ekki staðið hér þegjandi.“ Frá þeim degi sem fyrstu fangarnir voru vistaðir í Auschwitz árið 1940 til þess dags sem sovéski herinn náði fangabúðunum á sitt vald árið 1945 drápu þýskir nazistar meira en 1,1 milljón manna þar.

Árið 1989, 12 árum eftir heimsókn Schmidts, fór Helmut Kohl Þýskalandskanslari til Auschwitz. Þá var Berlínarmúrinn nýfallinn. Í gestabók minningarsafnsins minntist Kohl „ólýsanlegra þjáninga“ fjölda fólks „af völdum Þjóðverja“. Hann nefndi gyðinga sérstaklega til sögunnar sem Schmidt gerði ekki.

Vegna alls sem gerðist í Þýskalandi þessa nóvemberdaga 1989 hafði Kohl of stutta viðdvöl í Auschwitz til að flytja þar ræðu en við komuna aftur til Þýskalands sagði hann að menn yrðu að reyna það sjálfir að fara á staðinn því að orð fengju því ekki lýst sem þar gerðist. Nefndi hann sérstaklega brautarpallinn við Auschwitz-Birkenau þar sem hermenn nazista „völdu“ hvort fólk í lestinni ætti að fá að lifa eða færi í dauðabúðirnar.

Kohl sagði:

„Maður nokkur sagði mér að hann hefði staðið á pallinum og horft á eiginkonu sína og móður sína í síðasta sinn. Það er mikill munur á því að ræða svona hluti fræðilega og að standa við hlið einhvers sem hefur reynt þá sjálfur. Á slíkum stað dirfist maður ekki að segja eitt orð.“

Kohl fór aftur til Auschwitz í júlí 1995. Þá hafði hann nýlega dvalist einn mánuð í Jerúsalem. Við hliðina á pólska utanríkisráðherranum Wladyslaw Bartoszewski lagði hann blómsveig við alþjóðlega minnismerkið í Birkenau.

Frá september 1940 til apríl 1941 var Bartoszewski fangi í Auschwitz. Hann andaðist árið 2015 en hafði áður lagt sig fram um að koma Auschwitz-Birkenau stofnuninni á fót.

 

Heimild: DW

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …