Home / Fréttir / Merkel hvetur til sátta – AfD krefst afsagnar Merkel – SPD vill Seehofer á brott

Merkel hvetur til sátta – AfD krefst afsagnar Merkel – SPD vill Seehofer á brott

 

Angela Merkel í þýska þinginu,
Angela Merkel í þýska þinginu,

Angela Merkel Þýskalandskanslari tók þátt í umræðum í neðri deild þýska þingsins, Bundestag. miðvikudaginn 4. júlí í fyrsta sinn frá því að hún setti niður deilu sína við Horst Seehofer, innanríkisráðherra og leiðtoga Kristilega sósíalflokksins (CSU) í Bæjaralandi. Lagði hún áherslu á að innan ríkisstjórnarinnar yrðu menn samstiga en fréttaskýrendur segja einkennilega spennu ríkja milli stjórnarflokkanna og á þinginu almennt.

Fjárlagafrumvarpið fyrir næsta ár var til umræðu en í ræðu sinni leitaðist Merkel að sanna þingheimi að hún hefði alla stjórnarþræðina í hendi sér. Hún fagnaði samkomulaginu um útlendingamál sem náðist í leiðtogaráði ESB í síðustu viku og sagði að með því hefði tekist að sætta ólík sjónarmið og ólíka hagsmuni þjóða.

„Lausn okkar á ágreiningi í útlendingamálum ræður hvort Evrópusambandið verður við lýði þegar fram líða stundir,“ sagði Merkel.

Hún sagðist hafa lagt áherslu á nauðsyn þess að vernda ytri landamæri Evrópu betur og koma á samstarfi við Afríkuþjóðir til að berjast gegn ólögmætum ferðum aðkomumanna. „Vandinn vegna flótta- og farandfólks er alþjóðlegur og krefst alþjóðlegra lausna,“ sagði Merkel.

Í ræðu sinni minntist Merkel varla á ríkisfjármálin heldur nýtti tíma sinn að mestu til að ræða útlendingamálin almennt og sérstaklega um það hvernig taka eigi á málum þeirra útlendinga sem fara ólöglega frá einu Evrópulandi til annars í leit að betri lífskjörum eða til að auka líkur á að þeim verði einhvers staðar veitt hæli.

Ágreiningur vegna þessa hefur verið milli Merkel og Seehofers innanríkisráðherra. Vill ráðherrann loka á komu þessa fólks til Þýskalands og hafna afgreiðslu á umsóknum þeirra í Þýskalandi.

„Það geta ekki verið flóttamennirnir sjálfir sem ákveða hvar umsóknir þeirra eru afgreiddar,“ sagði Merkel og vísaði til samnings við Grikki sem heimilar Þjóðverjum að senda hælisleitendur aftur til Grikklands. „Það verður að koma betra skikki á alla þætti útlendingamála.“

Með þessum orðum kom kanslarinn til móts við sjónarmið Seehofers. Merkel sagði að hún og innanríkisráðherrann mundu ræða við stjórnvöld annarra ESB-ríkja með það fyrir augum að ná svipuðum samningum við þau og við Grikki.

Í ræðu sinni minnti Merkel einnig á að útgjöld í heiminum til hermála minnkuðu og sömu sögu væri að segja um minnkandi sjúkdóma. Hvoru tveggja sýndi að bæta mætti hag mannkyns almennt með alþjóðlegri samvinnu. Þá lét hún ekki hjá líða að minna á góðan efnahag Þýskalands, sterka stöðu ríkissjóðs og lítið atvinnuleysi.

AfD krefst afsagnar

Alice Weidel, þingflokksformaður Alternative für Deutschland (AfD), sem varð þriðji stærsti flokkurinn á þingi í kosningunum í september 2017 og þar með stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn, var ómyrk í máli um Merkel áður en kanslarinn flutti ræðu sína.

Weidel sagði að samkomulagið um útlendingamálin í ríkisstjórninni væri „Phyrrusar-sigur“, það er einskis virði og spáði framhaldi á vandræðum á stjórnarheimilinu. Deilan væri ekki annað en einkenni þess hve stjórnin væri misheppnuð á öllum sviðum.

„Hve lengi ætlið þér að halda þessu sjónarspili áfram, Frau Merkel? Yður hefur hvarvetna mistekist. Þér hafið engu áorkað,“ sagði Weidel og hvatti Merkel til að segja af sér: „Þér hafið sundrað Þýsklandi og þér hafið sundrað Evrópu. Vinsamlega biðjist lausnar.“

Reiði innan SPD

Þeir meðal jafnaðarmanna (SPD) sem ekki vilja láta nafns síns getið segja í samtali við Die Welt að flokkur þeirra geti ekki við það unað að sitja áfram í stjórn með Horst Seehofer. Þeir segja að hann verði „látinn finna fyrir því“ og unnið verði að brottför hans úr ríkisstjórninni.

Forysta SPD og ráðherrar hafa ekki enn lagt blessun sína yfir samkomulagið milli Merkel og Seehofers. Andrea Nahles, formaður SPD, segir að stjórnin hafi farið vel af stað en undanfarnar vikur hafi hún „hikstað“. Hún sagðist vona að tekið yrði til við að sinna öðru en útlendingamálunum.

Nahles skaut nokkrum skotum á Seehofer, ríkisstjórnin þyrfti ekki á neinum „meistaraáætlunum“ að halda en Seehofer hefur kallað stefnu sína í útlendingamálum, sem hvergi hefur birst, „meistaraáætlun“. Hún sagði einnig að sáttmálinn að baki stjórnarsamstarfinu væri í skjalinu sem fulltrúar CDU/CSU og SPD hefðu undirritað í mars en ekki í einhverjum sameiginlegum texta CDU og CSU.

Forystumenn SPD og CDU/CSU hittast fimmtudaginn 5. júlí í þeim tilgangi að leysa úr ágreiningi sín á milli og sigla stjórnarsamstarfinu á lygnan sjó.

 

 

Skoða einnig

Tortryggni í garð Moskvuvaldsins vex í gömlu Sovétlýðveldunum

Stuðningur við forsystusveit Rússlands hefur hrapað í nágrannalöndum landsins. Íbúar landanna eru tortryggnir í garð …