
Kristilegir demókratar (CDU) í Þýskalandi, flokkur Angelu Merkel kanslara, fengu slæma útreið í kosningum til þings sambandslandsins Mecklenburg-Vorpommern sunnudaginn 4. september. Þeir urðu í þriðja sæti á eftir jafnaðarmönnum (SPD) og Alternative für Deutschland (AfD), Öðrum kosti fyrir Þýskaland, flokki sem berst fyrir hörku í útlendingamálum og gegn múslimum.
AfD fékk 20.8% atkvæða en CDU 19% í stað 23% áður. SPD hélt forystu sinni í sambandslandinu með 30% atkvæða í stað 35% árið 2011. Ný-nazistar (NPD) náðu ekki 5% fylgi í Mecklenburg-Pommern að þessu sinni, fengu 3,5% atkvæða. Í kosningunum árið 2011 fengu þeir fimm þingmenn með 6% atkvæða. Ný-nazistar stóðust ekki sókn AfD inn í raðir þeirra. Það sama gerðist á árinu 2014 þegar þingmenn NPD hurfu af sambandslandsþinginu í Saxlandi, þá fengu ný-nazistar 4,9% í stað 5,6% árið 2009 og töpuðu átta þingmönnum en AfD vann góðan sigur.
Kosningabaráttan snerist mest um útlendingamál og ákvörðun Merkel fyrir réttu áru um að opna Þýskaland fyrir hælisleitendum, flótta- og farandfólki.
„Þetta er löðrungur fyrir Merkel – ekki aðeins í Berlín heldur einnig í heimabyggð hennar,“ sagði Frauke Petry, annar formanna AfD. „Kjósendur lýstu afdráttarlausri andstöðu gegn hörmulegri stefnu Merkel í útlendingamálum. Þetta sýnir henni í tvo heimana.“
Leif-Erik Holm, efsti maður á lista AfD í Mecklenburg-Vorpommern, sagði þegar úrslitin lágu fyrir: „Þetta eru söguleg úrslit í Mecklenburg-Vorpommern. Hér í dag erum við kannski vitni að upphafi endaloka á kanslaratíð Angelu Merkel.“
AfD var stofnaður sem flokkur árið 2013. Í sambandslandinu Sachsen-Anhalt fékk flokkurinn 23% atkvæða í mars 2016 og á nú kjörna fulltrúa í níu af 16 sambandslöndum Þýskalands. Flokkurinn einbeitir sér nú að kosningum til þings Berlínar eftir tvær vikur.
AfD hefur einkum vegnað vel í austurhluta Þýskalands þar sem velmegun er almennt minni en í vesturhlutanum og einnig meiri gagnrýni á útlendingastefnu Merkel. Í Mecklenburg-Vorpommern hafa stjórnvöld til dæmis ekki tekið við meira en um 25.000 hælisleitendum af þeirri milljón manna sem kom til Þýskalands í fyrra.
Enginn flokkur vil stofna til samstarfs við AfD og því er talið víst að þingmenn SPD og CDU myndi meirihlutastjórn í Mecklenburg-Vorpommern.
Kosið verður til þýska sambandsþingsins á næsta ári. Vinsældir Merkel hafa minnkað úr 67% fyrir ári í 45% núna.
Kannanir sýna að AfD mundi fá 12% atkvæða yrði nú kosið til sambandsþingsins.
Peter Tauber, framkvæmdastjóri CDU, sagði úrslitin sýna víðtæka „óánægju og andúð“ á útlendingastefnu Merkel.
Sigmar Gabriel, leiðtogi SPD, sagði að helstu stjórnmálaflokkarnir yrðu að líta í eigin barm og spyrja hvernig þeir gætu komið í veg fyrir að fólk kysi AfD. „Lykillinn felst í að við verðum að veita meira öryggi, ekki aðeins á heimilum eða gegn glæpum og hryðjuverkum heldur einnig félagslegt öryggi.“
Viðbrögð bræðraflokks CDU, kristilegra sósíalista (CSU) í Bæjarlandi, voru hörð við úrslitunum í Mecklenburg-Vorpommern. Martin Söder, fjármálaráðherra Bæjarlands, sagði að þau ættu að opna augu Merkel svo að hún áttaði sig á neikvæðum afleiðingum útlendingastefnunnar. Það væri ekki lengur unnt að hunsa skoðanir almennings í þessu máli, stjórnvöld í Berlín yrðu að breyta um stefnu.
Flokkar í Frakklandi, Austurríki og Hollandi sem fylgja harðri stefnu í útlendingamálum fagna góðum árangri AfD. Marine Le Pen, leiðtogi Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi, sagði á FB-síðu sinni sunnudaginn 4. september þegar úrslitin voru ljós: „Það það sem þótti ógerlegt í gær er gerlegt núna: föðurlandsvinirnir í AfD hafa veitt flokki Merkel ráðningu. Innilegar heillaóskir mínar!“
Heimild: EUobserver, Le Figaro