
Angela Merkel hefur fengið nægt fylgi til að leiða ríkisstjórn Þýskalands fjórða kjörtímabilið í röð. Það verður hins vegar erfitt fyrir hana að mynda meirihluta að baki sér og stjórn sinni á þingi í ljósi úrslita þingkosninganna sunnudaginn 24. september.
Eftir að talningu lauk í 299 kjördæmum landsins nam samanlagt fylgi Kristilegra demókrata (CDU), flokks Merkel, og systurflokks hans í Bæjarlandi, CSU, 33% atkvæða.
Jafnaðarmenn (SPD) undir forystu Martins Schulz urðu í öðru sæti með aðeins 20,5% atkvæða. Græningjar og Vinstrisinnar héldu fylgi sínu frá 2013 með 8,9% og 9,2% atkvæða.
Þeir sem fögnuðu sigri í kosningunum voru Frjálsi demókratar (FDP) og Alternativ für Deutschland (AfD). FDP féll undir 5% þröskuldinn 2013 en flokkurinn fékk nú 10,7%. AfD fékk 12,6% og í fyrsta sinn í meira en hálfa öld á flokkur hægra megin við kristilega menn á þýska sambandsþinginu.
Kristilegir eiga áfram flesta þingmenn en fylgið meðal kjósenda hefur minnkað verulega frá 2013 þegar flokkurinn fékk 41,5%.
Merkel getur áfram myndað meirihlutastjórn með Jafnaðarmönnum sem segjast vilja fara í stjórnarandstöðu. Hún getur einnig myndað meirihluta með FDP og Græningjum. Hún segist ætla að kanna allar leiðir til meirihlutastjórnar. Hún segist „sannfærð“ um að ný stjórn verði til í Þýskalandi fyrir jól.
SPD er elsti starfandi flokkur Þýskalands. Hann hefur ekki fengið minna fylgi frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Martin Schulz, kanslaraefni flokksins, sagði úrslitin „bitur“ fyrir flokkinn.
Þegar flokksleiðtogar sátu í sjónvarpssal að kvöldi kjördags lét Schulz ekki hjá líða að vega að Angelu Merkel og sagði hana „tapa mestu“ í kosningunum. „Stjórn stóru flokkanna hefur verið felld,“ sagði Schulz og að flokkur sinn yrði ekki áfram í ríkisstjórn með kristilegum heldur mundi hann leiða stjórnarandstöðuna. „Þessi ríkisstjórn nýtur ekki fylgis, og þér, kanslari, tapið mestu.,“ sagði hann.
SPD sagði að flokkurinn mundi gera könnun meðal kjósenda til að átta sig á hvar flokkurinn hefði helst brugðist þeim. Flokkurinn tapaði rúmlega 5% stigum frá kosningunum árið 2013.
Angela Merkel sagði að ummæli Schulz væru „sorgleg“ og minnti á að flokkur sinn væri „augljóslega sterkasti flokkurinn“.
Merkel segist ekki vilja leiða minnihlutastjórn sem leiðir til þess að CDU/CSU verða að mynda ríkisstjórn með FDP og Græningjum. Fyrstu þriggja stoða ríkisstjórnina síðan snemma á sjötta áratugnum.
Kjósendahópur FDP og Græningja er svipaður þegar litið er til góðrar menntunar og góðra tekna en flokkana greinir á um afstöðuna í efnahags- og umhverfismálum. Þá er sú skoðun rík meðal Græningja að hlutverk flokksins sé að veita aðhald utan ríkisstjórna, einkum séu mið-hægriflokkar við völd.
Klofningur innan AfD
AfD verður nú þriðji stærsti flokkurinn á þýska sambandsþinginu. Bundestag. Flokkur hægra megin við kristilega hefur ekki átt menn á þingi í meira en hálfa öld.
Kosningakerfið í Þýskalandi er blandað, einmenningskjördæmi og listakosning. Þrír þingmenn AfD hlutu einmenningskjör, allir í Saxlandi, fyrrv. Austur-Þýskalandi. Aðrir voru kjörnir af lista. Meðal þeirra sem sigraði í kjördæmi sínu er Frauke Petry, forystukonu AfD, þótt hún leiddi ekki kosningabaráttu flokksins. Alexander Gauland og Alice Weidel höfðu forystu fyrir flokkinn í kosningabaráttunni og náðu þau bæði kjöri í hlutfallskosningu á listum.
AfD fékk 95 þingmenn, einkum frá austurhluta Þýskalands. Á blaðamannafundi í Berlín mánudaginn 25. september sagði Frauke Petry sig óvænt frá þingflokknum og yfirgaf fundinn. Sagðist hafa ákveðið eftir langa umhugsun að ganga ekki í þingflokkinn. Petry hefur átt hvað mestan þátt í að gera AfD að því stjórnmálaafli sem flokkurinn er.
Hún fæddist í Dresden í Austur-Þýskalandi árið 1975, ólst upp í Brandenburg en fluttist til Berkamen í vesturhluta Þýskalands eftir fall múrsins árið 1989. Hún var afburða lyfjafræðinemandi í Reading í Englandi undir lok tíunda áratugarins. Hún lauk doktorsprófi frá háskólanum í Göttingen og giftist séra Sven Petry, eignuðust þau fjögur börn.
Í stjórnmálum hallaði Petry sér að CDU en varð fráhverf flokknum og tók þátt í að stofna AfD árið 2013. Leiddi hún flokkinn til sigurs í sambandslandskosningum í Saxlandi árið 2014. Hún tók síðan forystu innan flokksins árið 2015 þegar hún snerist af þunga gegn stefnu Angelu Merkel í útlendingamálum.
Hún var harðorð í málflutningi sínum og sagði í janúar 2016 að þýska landamæralögreglan ætti að grípa til vopna á landamærum Þýskalands og Austurríkis væri það nauðsynlegt til að hefta straum farand- og flóttafólks.
Petry gekk illa að sætta ólíkar fylkingar innan AfD sem tókust á um hvort fylgja ætti raunsærri stefnu eða halda fast í hugmyndafræðina. Hún varð fyrir mikilli ágjöf innan flokksins í ársbyrjun 2017 þegar hún neitaði að styðja tvo brottrekna flokksmenn vegna ummæla sem þeir létu falla um gyðingaofsóknir nasista á fundi í janúar 2017.
Á flokksþingi vorið 2017 neyddist hún til að draga sig í hlé sem leiðtogi flokksins í kosningabaráttunni. Þá valdi flokkurinn þjóðernissinnan Alexander Gauland og hagfræðinginn Alice Weidel til að leiða flokkinn vegna kosninganna sem fram fóru sunnudaginn 24. september.
Petry á sæti á þingi Saxlands. Hún og flokksfélagi hennar, Carsten Hütter, sæta ákæru frá saksóknara Saxlands fyrir meinsæri í tengslum við framboð og fjármál AfD í kosningunum í Saxlandi árið 2014. Það er talið til marks um hve lítils álits Petry nýtur nú innan AfD að enginn þingmaður flokksins snerist henni til varnar í nefnd á þingi Saxlands þegar lagt var til að svipta hana þinghelgi vegna ákærunnar.
Forystumenn AfD hafa sakað Petry um að fæla hófsama kjósendur frá flokknum. Í kosningabaráttunni núna lýsti Petry opinberlega vanþóknun á þeim orðum Gaulands að Þjóðverjar ættu að vera stoltir af framgöngu hermanna sinna í heimsstyrjöldunum. Hún fann einnig að orðum Gaulands þegar hann sagði eftir að úrslitin lágu fyrir að AfD mundi „hundelta“ nýja ríkisstjórn á vettvangi þingsins.