
Niðurstöður skoðanakönnunar á vegum Forsa í Þýskalandi sem birt var þriðjudaginn 4. október sýna að 75% Þjóðverja styðja að mynduð verði samsteypustjórn undir forystu Angelu Merkel kanslara (CDU/CSU) með Frjálsum demókrata (FDP) og Græningjum.
Þeir sem vilja þessa stjórn helst eru kjósendur Græningja (84%) og þar næst FDP (84%). Stuðningurinn er minnstur meðal kjósenda CDU/CSU (58%).
Aðeins 26% Þjóðverja vilja að samsteypustjórn stóru flokkanna, CDU/CSU og Jafnaðarmanna (SPD), haldi áfram.
Angela Merkel leiðir nú starfsstjórn í Þýskalandi. Eftir kosningarnar bjó hún þjóðina undir að ný stjórn yrði ekki mynduð fyrr en um jól. Stjórnarmyndunarviðræður hafa ekki hafist enn opinberlega vegna þess að kristilegu flokkarnir, CDU og CSU, hafa ekki enn sameinast um samningsmarkmið, einkum vegna ólíkrar stefnu í útlendingamálum.
Martin Schulz, kanslaraefni SPD, sem fékk slæma útreið í kosningunum 24. september tilkynnti flokksmönnum í bréfi föstudaginn 29. september að hann ætlaði ekki að draga sig í hlé sem leiðtogi flokksins. Hann bæri ábyrgð á tapi flokksins en ætlaði að vinna að því að flokkurinn næði „nýjum styrk“. Hann sagði að skýring á kosningaósigrinum væri meðal annars hve seint hann hefði verið tilnefndur sem kanslaraefni. Það var ekki gert fyrr en undir lok janúar 2017. Schulz sagði að vegna þessa hefði flokkurinn haft „of nauman tíma til að búa sig undir kosningabaráttuna“.
Hann sagði að frá því að SPD tapaði í kosningunum árið 2005 hefði flokkurinn alltaf gert sömu mistökin. Það hefði ekki enn verið gert upp innan flokksins hvers vegna hann tapaði á þeim tíma. Flokknum hefði ekki tekist að endurskipuleggja innviði sína eða endurnýja stefnu sína á viðunandi hátt. Hugur sinn stæði til þess að leiða SPD að nýju í þingkosningunum árið 2021.