Rússar eru sannfærðir um að markmið Vesturlanda sé að „niðurlægja og veikja“ Rússland en þeir vilja að rússnesk stjórnvöld „fylgi óbreyttri stefnu þrátt fyrir refsiaðgerðir“. Þetta kemur fram í könnun sem Levada Center gerði og birt er í viðskiptablaðinu Kommersant segir í frétt TASS mánudaginn 29. júní.
Alls sögðu 66% svarenda að markmiðið með vestrænum refsiaðgerðum væri að „veikja og niðurlægja Rússland“. Hins vegar taldi 21% að fyrir ráðamönnum á Vesturlöndum vekti „að brjóta á bak aftur stjórnmálalega og landfræðilega breytingu á valdahlutföllum sem varð við sameiningu Krímskaga og Rússlands“. Aðeins 5% töldu að aðrar þjóðir hefðu gripið til refsiaðgerða gegn Rússum til að „stöðva stríð, eyðileggingu og mannfall í austurhluta Úkraínu“.
Þegar spurt var gegn hverjum vestrænar refsiaðgerðir beindust sögðu 46% að þær beindust að „stórum hópi íbúa Rússlands“. Þá sögðu 29% að þær beindust gegn þröngum hópi fólks sem bæri „ábyrgð á stefnu Rússa gegn Úkraínu“. Loks sögðu 19% að vestrænir leiðtogar beindu ekki refsiaðgerðunum gegn neinum sérstökum.
Í svörum við spurningum um viðbrögð af hálfu Rússa töldu 70% að halda ætti sömu stefnu „þrátt fyrir refsiaðgerðir“ en aðeins 20% vildu að leitað yrði samkomulags til að „losna undan aðgerðunum“.
Í svari við spurningum um afstöðu til annarra ríkja kom fram að 42% vilja fyrst og fremst „efla efnahagsleg og hernaðarleg tengsl við ríki í Mið-Austurlöndum, Kína og Indland“. Alls sögðust 37% eindfaldlega vilja líta framhjá Vesturlöndum og láta þau sigla sinn sjó. Að því er varðar útgjöld til hermála vilja 16% að þau verði aukin, 7% vilja hafna greiðslu erlendra skulda og 10% vilja að leitað sé samkomulags.
Rússar vilja ekki að hróflað sé við innlimun Krímskaga í Rússland: 53% „styðja heilshughar“ innlimunina, 37% eru „frekar hlynnt“ henni.
Alls voru 800 spurðir.