Home / Fréttir / Meirihluti Rússa segir markmið Vesturlanda að „niðurlægja og veikja“ land sitt

Meirihluti Rússa segir markmið Vesturlanda að „niðurlægja og veikja“ land sitt

Rússland

Rússar eru sannfærðir um að markmið Vesturlanda sé að „niðurlægja og veikja“ Rússland en þeir vilja að rússnesk stjórnvöld „fylgi óbreyttri stefnu þrátt fyrir refsiaðgerðir“. Þetta kemur fram í könnun sem Levada Center gerði og birt er í viðskiptablaðinu Kommersant segir í frétt TASS mánudaginn 29. júní.

Alls sögðu 66% svarenda að markmiðið með vestrænum refsiaðgerðum væri að „veikja og niðurlægja Rússland“. Hins vegar taldi 21% að fyrir ráðamönnum á Vesturlöndum vekti „að brjóta á bak aftur stjórnmálalega og landfræðilega breytingu á valdahlutföllum sem varð við sameiningu Krímskaga og Rússlands“. Aðeins 5% töldu að aðrar þjóðir hefðu gripið til refsiaðgerða gegn Rússum til að „stöðva stríð, eyðileggingu og mannfall í austurhluta Úkraínu“.

Þegar spurt var gegn hverjum vestrænar refsiaðgerðir beindust sögðu 46% að þær beindust að „stórum hópi íbúa Rússlands“. Þá sögðu 29% að þær beindust gegn þröngum hópi fólks sem bæri „ábyrgð á stefnu Rússa gegn Úkraínu“. Loks sögðu 19% að vestrænir leiðtogar beindu ekki refsiaðgerðunum gegn neinum sérstökum.

Í svörum við spurningum um viðbrögð af hálfu Rússa töldu 70% að halda ætti sömu stefnu „þrátt fyrir refsiaðgerðir“ en aðeins 20% vildu að leitað yrði samkomulags til að „losna undan aðgerðunum“.

Í svari við spurningum um afstöðu til annarra ríkja kom fram að 42% vilja fyrst og fremst „efla efnahagsleg og hernaðarleg tengsl við ríki í Mið-Austurlöndum, Kína og Indland“. Alls sögðust 37% eindfaldlega vilja líta framhjá Vesturlöndum og láta þau sigla sinn sjó. Að því er varðar útgjöld til hermála vilja 16% að þau verði aukin, 7% vilja hafna greiðslu erlendra skulda og 10% vilja að leitað sé samkomulags.

Rússar vilja ekki að hróflað sé við innlimun Krímskaga í Rússland: 53% „styðja heilshughar“ innlimunina, 37% eru „frekar hlynnt“ henni.

Alls voru 800 spurðir.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …