Home / Fréttir / Meirihluti fyrir NATO-aðild á sænska þinginu – forsætisráðherrann sögð hlynnt aðild

Meirihluti fyrir NATO-aðild á sænska þinginu – forsætisráðherrann sögð hlynnt aðild

Magdalena Andersson í sænskri flughertsöð.

Magdalena Andersson, forsætisráðherra Svíþjóðar, hefur gert upp hug sinn og vill að Svíar sæki um aðild að NATO. Ríkisstjórn hennar er sögð ætla að leggja fram aðildarumsókn til afgreiðslu á ríkisoddvitafundi NATO í Madrid í lok júní 2022.

Dálkahöfundur Svenska Dagbladet fullyrðir þetta í grein miðvikudaginn 13. apríl. Þann dag hittir sænski forsætisráðherrann Sönnu Marin, forsætisráðherra Finna, í Stokkhólmi til viðræðna um nýja skýrslu finnsku ríkisstjórnarinnar um öryggismál.

Þá skýrir sænska Aftonbladet frá því að sænski Jafnaðarmannaflokkurinn hafi boðað til flokksstjórnarfundar 24. maí þar sem tekin verði afstaða til NATO-aðildar.

Blaðið segir að með fundinum ljúki sex vikna umræðum innan Jafnaðarmannaflokksins og á þremur opnum fundum flokksins, síðasti opni fundurinn verður 23. maí í Stokkhólmi.

Heimildarmaður blaðsins segir að sýna verði málefninu og umræðum um það þá virðingu sem það krefst. Innan flokksins séu enn margir sem mótuðu skoðun sína á NATO í tíð Olofs Palme sem var flokksleiðtogi og forsætisráðherra. Hann var gagnrýninn á NATO og lagði rækt við hlutleysi Svía og stöðu þeirra utan hernaðarbandalaga. Svíar eru ekki lengur hlutlausir. Þeir hafa til þessa staðið utan NATO en skipulagt varnir sínar í nánu samstarfi við bandalagið, Bandaríkjamenn og Finna.

Mánudaginn 11. apríl hófust formlegar innri flokksumræður jafnaðarmanna um stöðu sænskra öryggismála. Í fréttatilkynningu af því tilefni sagði að markmiðið væri að ræða sænsk öryggismál „til hlítar“ og hvetja flokksmenn til að „auka þekkingu sína“ á málaflokknum. Þá er tekið fram í tilkynningunni að lokaákvörðun í málinu verði í höndum flokksstjórnarinnar.

Mánudaginn 13. apríl veittu flokksmenn Svíþjóðardemókrata formanni sínum, Jimmie Åkesson umboð til að vinna að NATO-aðild. Þar með er tryggður meirihluti fyrir aðild á sænska þinginu.

Jafnaðarmenn eru þó þeirrar skoðunar að 75% þingmanna verði að samþykkja aðild að NATO en þar með gætu þeir hindrað samþykkt hennar á þingi.

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …