Home / Fréttir / Meira en 300.000 rússneskir hermenn í Úkraínu – gífurlegt mannfall

Meira en 300.000 rússneskir hermenn í Úkraínu – gífurlegt mannfall

Rússneskir hermenn

Nú er talið að mörg hundruð þúsund rússneskir hermenn séu í Úkraínu. Aldrei síðan í annarri heimsstyrjöldinni hafa Rússar gripið til svipaðra stríðsaðgerða  að mati herfræðinga. Líkur á stórsókn þeirra gegn her Úkraínumanna aukast dag frá degi.

Mannfallið í liði Rússa er mikið. Föstudaginn 17. febrúar hafði The Times í London eftir heimildarmönnum innan NATO að þar væri það mat leyniþjónustumanna að það kostaði Rússa líf 2.000 hermanna að sækja fram um 91 metra (100 yard) á vígvellinum.

Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði miðvikudaginn 15. febrúar að rússnesku hermennirnir væru illa þjálfaðir og vopn þeirra væru léleg. Þess vegna væri mannfall mikið og yrði líklega áfram.

Ben Wallace, varnarmálaráðherra Breta, telur að um 97% af öllum herafla Rússa sé nú í Úkraínu. Sagði hann þetta í viðtali við BBC miðvikudaginn 15. febrúar. Stuðningur Breta við Úkraínu gegn Rússum yki í raun öryggi Breta sjálfra.

„Séu 97% af rússneska hernum bundin í Úkraínu – með öllu því gífurlega sliti sem því fylgir og eftir að sóknaraflið hefur hugsanlega minnkað um allt að 40% – og séu næstum tveir þriðju hlutar skriðdreka þeirra ónýtir eða úr umferð hefur það bein áhrif á öryggi Evrópu,“ sagði breski varnarmálaráðherrann.

Fyrir um það bil tveimur vikum sagði Kyrylo Budanov, yfirmaður njósnastofnunar hers Úkraínu, í samtali við The Washington Post að um það bil 326 þúsund rússneskir hermenn berðust þá í Úkraínu.

Miðvikudaginn 15. febrúar sagði Josep Borrell, utanríkismálastjóri ESB, í ræðu á ESB-þinginu að ástandið í Úkraínu vekti „gífurlegar áhyggjur“:

„Rússneska gagnsóknin er hafin, enn í litlum mæli þó. Meira en 360 þúsund rússneskir hermenn eru á landsvæði Úkraínu. Í fyrsta sinn er svo komið að Úkraína hefur ekki yfirhöndina þegar litið er til fjölda hermanna,“ sagði Borrell.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, sagði mánudaginn 13. febrúar að Rússar mundu senda „þúsundir og aftur þúsundir“ hermanna á vígvöllinn.

„Rússar reyna að láta magnið koma í stað skorts á gæðum herafla þeirra. Þjálfun þeirra og búnaður nær ekki sama stigi og hjá Úkraínuher. Þeir ráða hins vegar yfir meiri mannafla. Rússar geta sent menn til vígvallarins og þeir láta ekki mikið mannfall aftra sér,“ sagði framkvæmdastjóri NATO.

Í desember 2022 kynnti rússneska stjórnin áform um að í her landsins yrðu 1,15 milljónir manna, síðar var talan hækkuð í 1,5 milljónir.

Hershöfðinginn Mark Milley, herráðsformaður Bandaríkjanna, sagði við The Financial Times  fimmtudaginn 16. febrúar að hvorki Rússar né Úkraínumenn mundu ná þeim markmiðum sem þeir hefðu sett sér með hernaði sínum. Stríðinu mundi því ljúka við samningaborðið.

„Það verður næstum ógjörningur fyrir Rússa að ná pólitísku markmiði sínu með herafli. Það er ósennilegt að þeir yfirbugi Úkraínumenn. Það verður ekki,“ segir herráðsformaðurinn.

Á hinn bóginn sé „mjög, mjög erfitt fyrir Úkraínumenn að koma öllum Rússum á brott frá öllum svæðum Úkraínu í ár,“ segir hann.

„Það er ekki unnt að segja að það geti ekki gerst en það er gífurlega erfitt. Í raun gerist það ekki nema rússneski heraflinn hrynji,“ segir hershöfðinginn.

Í samtalinu segir hann jafnframt að bandaríska varnarmálaráðuneytið kanni nú bandarískar vopnabirgðir og Bandaríkjamenn kunni að neyðast til að auka hernaðarútgjöld sín vegna þess hve hratt gangi á skotfærabirgðir í Úkraínu.

Fimmtudaginn 16. febrúar spáði rússneski málaliðaforinginn, Jevgenij Prigozjin, sem heldur úti Wagner-málaliðahernum, að í mars eða apríl næðu Rússar bænum Bakhmut í Donetsk héraði í austurhluta Úkraínu á sitt vald en um hann hefur verið barist vikum saman.

Föstudaginn 17. febrúar fór Prigozjin hamförum í rússneskum fjölmiðlum og sagðist verða að grípa til eigin ráða til að verða sér úti um skotfæri fyrir málaliða sína. Hann mundi fara á svig við lög og reglur til að bjarga varnar- og skotfæralausum mönnum sínum. Birti hann myndskeið sem sýndi fjölda fallinna hermanna og ömurlegar aðstæður Wagner-málaliða á vígvellinum.

Í frásögn fjölmiðla sagði að Prigozjin talað nú mildilegar um yfirstjórn rússneska hersins en oft áður. Við blasti hins vegar ágreininur og keppni milli málaliðahersins og rússneska heraflans.

Niels Bo Poulsen sem stjórnar hernaðarfræðistofnun Forsvarsakademiet, háskóla danska hersins, telur að svigrúm Rússa til athafna þrengist mjög eftir að hafa sent svo stóran hluta landhers síns til Úkraínu.

„Í þessu felst líka að Rússar hafa, líklega í síðasta sinn um tíma, kastað teningunum og veðja nú á einhvern ávinning. Hvort sem hann skilar sér eða ekki, sem er líklegra, þá hafa Rússar til langs tíma ekki mikið svigrúm að auki,“ segir Niels Bo Poulsen við danska TV2.

Jacob Kaarsbo, sérfræðingur hjá hugveitunni Europa, telur að hernaðarstefna Rússa nú sé að nýta sér að Rússland sé fjölmennara en Úkraína. Í því felist að mörgum mannslífum verði fórnað:

„Svona stríðsaðgerðir höfum við ekki séð síðan í annarri heimsstyrjöldinni. Við þetta eykst að sjálfsögðu þrýstingur á Úkraínu. Þetta dugar þó ekki Rússum til sigurs í stríðinu. Með þessu kann stríðið að lengjast og skaðinn að verða meiri í Úkraínu en það verða engin skyndileg þáttaskil með því að brotist sé í gegnum varnarlínuna,“ segir Kaarsbo við TV2 í Danmörku

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …