Home / Fréttir / Medvedev segir „ragnarök nálgast“

Medvedev segir „ragnarök nálgast“

Dmitríj Medvedev og Vladimir Pútín.

Dmitríj Medvedev, fyrrv. forseti og forsætisráðherra Rússlands, núv. varaformaður rússneska öryggisráðsins, sagði á X (áður Twitter) þriðjudaginn 29. ágúst að Rússar hefðu rétt til að hefja stríð við NATO.

Þá sagði Medvedev:

„Úkraínskir glæpamenn hafa tilkynnt að hver einasta árás þeirra gegn sérhverju rússnesku skotmarki „til dæmis á Krím“ sé með samþykki NATO.

Sé þetta satt – og það er engin ástæða til að efast um það – þá er þetta bein löggilt sönnun þess að vestrið eigi aðild að stríðinu gegn Rússlandi. Þetta er skýrt tilefni til stríðsaðgerða (casus belli) og fyrir Rússa er þetta tækifæri til að nýta sér réttinn til hernaðar (jus ad bellum) gegn hverju einstöku NATO-landi.“

Medvedev hefur undanfarin misseri hvað eftir annað tekið til máls á samfélagsmiðlum og birt þar ögrandi eldræður um Úkraínustríðið og vestræna bandamenn Úkraínumanna.

Í boðskap sínum 29. ágúst sagði hann „ragnarök nálgast“ með vísun til Biblíunnar, meðal annars Opinberunarbókar Nýja testamentisins (9:6), þar sem segir: „Á þeim dögum munu mennirnir leita dauðans og ekki finna hann. Menn munu þrá að deyja en dauðinn mun forðast þá.“

Hann vitnaði einnig til alræmdra ummæla Níkíta Krútsjóvs, leiðtoga Sovétríkjanna, sem á að hafa sagt við vestræna sendiherra árið 1956: „Hvort sem ykkur líkar það betur eða verr, er sagan okkur hliðholl. Við munum grafa ykkur.“

Þegar orðin féllu var þeim mjög illa tekið af sendiherrunum. Nútíma þýðendur telja hins vegar líklegt að túlkar hafi ekki þýtt ummæli Krútsjóvs rétt.

Hótanir Medvedevs hafa ekki vegið þungt til þessa og margir hafa gert gys að þeim í athugasemdum á samfélagsmiðlum.

Hann hélt því fram í maí að Eistland, Lettland og Litháen væru hlutar Rússlands og NATO hefði „tímabundið hernumið“ Pólland með 10.000 manna herliði þar.

Þegar Medvedev var forseti Rússlands 2008 til 2012 og forsætisráðherra 2012 til 2020 var hann talinn góður viðmælandi vestrænna ráðamanna en eftir að Úkraínustríðið hófst er hann öfgafyllsti orðhákur Kremlverja gegn Vesturlöndum.

 

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …