Home / Fréttir / MDE tekur fyrir mannréttindabrot vegna loftslagsbreytinga

MDE tekur fyrir mannréttindabrot vegna loftslagsbreytinga

Eldri konur í Sviss tóku vernd mannréttinda vegna aðgerðaleysis í loftslagsmálum í sínar hendur.

Fyrstu málaferlin fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu (MDE) vegna umhverfis- og loftslagsmála hefjast miðvikudaginn 29. mars gegn Frakklandi og Sviss. Ríki hafa ekki áður verið sótt til saka fyrir dómstólnum vegna ásakana um að stjórnir þeirra hafi ekki gripið til aðgerða vegna loftslagsbreytinga.

Málið gegn Sviss er reist á kvörtun samtaka eldri borgara, Loftslagsklúbbi eldri borgara, sem stofnuð voru til að standa að kvörtuninni til MDE að frumkvæði KlimaSeniorinnen Schweiz – Eldriloftlagskvenna Sviss – . Í samtökunum eru um 2.000 manns sem hafa áhyggjur af áhrifum loftslagsbreytinga á heilsu sína, meðalaldur félagsmanna er 73 ár.

Í kvörtuninni til MDE eru svissnesk yfirvöld sökuð um að bregðast skyldum sínum á ýmsum sviðum loftslagsmála og þar með brjóti þau gegn þeirri frumskyldu ríkisvaldsins að vernda líf og heimili borgara sinna. Um 50 félagar samtakanna fóru til Strassborgar til að fylgjast með málflutningnum.

Fulltrúi samtakanna, Anne Mahrer (64 ára) sagði við AFP­-fréttastofuna að allar skýrslur undanfarinna 20 ára um loftslagsmál sýndu að allir „yrðu fyrir áhrifum“ og þau væru meiri á eldra fólk en aðra, einkum eldri konur vegna hjarta- og öndunarfærasjúkdóma. Til þessa hefðu svissnesk yfirvöld skellt skollaeyrum við öllum óskum samtakanna að sögn Mahrer.

Mannréttindadómstóllinn telur eigin tilvist ógnað af aðgerðarleysi í loftslagsmálum.

Damien Careme, fyrrverandi bæjarstjóri í Grande-Synthe, útborg Dunkirk í Norður-Frakklandi, höfðar málið gegn Frakklandi þar sem stjórnvöld þar hafi ekki staðið við skuldbindingar sínar í loftslagsmálum til að gæta lífs og heilsu.

Sem bæjarstjóri fór Careme með mál sitt fyrir franskan dómstól fyrir hönd bæjarfélags síns en einnig sjálfs síns með þeim rökum að hætta á flóðum ykist vegna loftslagsbreytinga og þar með steðjaði hætta að heimili hans.

Æðsti stjórnsýsludómstóll Frakklands dæmdi bæjarfélaginu í vil í máli gegn frönsku stjórninni árið 2021 en vísaði máli bæjarstjórans frá og þess vegna leitar hann nú til MDE.

„Gífurlega mikið er í húfi,“ segir Corinne Lepage, fyrrverandi umhverfisráðherra Frakklands og einn lögmanna Caremes í málinu.

Hún sagði við AFP að viðurkenndi MDE að vanræksla í loftslagsmálum bryti gegn rétti einstaklings til að lifa og eiga eðlilegt fjölskyldulíf væri um fordæmi fyrir öll 46 aðildarríki Evrópuráðsins að ræða og hugsanlega heiminn allan.

Fyrir réttarhöldin í dag gaf MDE út yfirlýsingu um að ekki væri fjallað um réttinn til heilsusamlegs umhverfis í mannréttindasáttmála Evrópu, réttarheimild dómstólsins. Hins vegar hefði verið ákveðið að taka þessi mál til meðferðar þar sem tilvist sjálfs mannréttindasáttmálans kynni að verða ógnað með aðför að umhverfinu eða af umhverfisvá.

MDE hefur ekki enn ákveðið dagsetningu fyrir mál sem höfðað er af ungum Portúgölum sem halda því fram að aðgerðarleysi fjölda ríkja í loftslagsmálum stuðli að hitabylgjum í Portúgal sem hafi áhrif á mannréttindi þeirra.

 

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …