Home / Fréttir / May tryggir sér stuðning ríkisstjórnarinnar í Brexit-málinu

May tryggir sér stuðning ríkisstjórnarinnar í Brexit-málinu

 

Breska ríkisstjórnin kom saman til 12 tíma fundar á Chequers, sveitasetri forsætisráðherrann utan við London.
Breska ríkisstjórnin kom saman til 12 tíma fundar á Chequers, sveitasetri forsætisráðherrann utan við London.

 

Breska ríkisstjórnin kom saman til 12 tíma fundar á Chequers, sveitasetri forsætisráðherrans utan við London, föstudaginn 6. júlí og samþykkti „heildarafstöðu“ um samning Breta utan ESB.

Theresa May, forsætisráðherra Breta, segir að sér hafi tekist að fá stuðning við áætlun um frjálsa verslun við ESB með iðnaðar- landbúnaðarvörur.

Á vefsíðunni Telegraph segir að í afstöðunni felist að um aldur og ævi verði Bretar tengdir lögum og reglum ESB. Ákvæði samþykktarinnar eru þess eðlis að ekki verði þörf á neinni tollvörslu við landamæri Írska lýðveldisins og Norður-Írlands.

Blaðið segir að svo virðist sem í niðurstöðunni felist umtalsverður sigur fyrir ESB-aðildarsinna þar sem hún tryggi að Bretar verði nátengdir tollasamstarfi ESB-ríkjanna og innri markaðnum.

Að kvöldi föstudagsins 6. júlí var gefin út þriggja bls. yfirlýsing sem Telegraph segir að líkist texta sem lekið var til fjölmiðla fimmtudaginn 5. júlí og íhaldsþingmenn andstæðir ESB sögðu að væri „ekki brexit“.

May sagði að ríkisstjórnin hefði „komið sér saman um heildarafstöðu í frekari viðræðum við ESB“. Eitt er fyrir forsætisráðherrann að tryggja samþykki samráðherra sinna annað að fá samþykki þingflokksins. Stuðningsmenn May óttast að hafni hægri armur Íhaldsflokksins niðurstöðu ríkisstjórnarinnar kunni bráðlega að verða flutt vantraust á hana.

Forsætisráðherrann flytur ræðu á þingflokksfundi íhaldsmanna  að kvöldi mánudags 9. júlí til að afla sér stuðnings meðal þeirra.

Texti niðustöðu ríkisstjórnarinnar ber fyrirsögnina: Brexit-samningur okkar fyrir Bretland. Þar er að finna þessar lykilkröfur gagnvart ESB:

Fríverslunarsamningur milli Bretlands og ESB með „sameiginlegum reglum“ um iðnaðar- og landbúnaðarvörur.

Umsamdar tollareglur sem leyfa Bretum að setja eigin tolla og gera viðskiptasamninga.

Skilyrði um að breska þingið samþykki öll ný lög og reglur, engar ákvarðanir í Brussel verði að lögum á Bretlandi án samþykktar breska þingsins.

Frjáls för verði úr sögunni og einnig greiðslur Breta á „stórfé“ í sjóði ESB. Lögsaga ESB-dómstólsins nái ekki lengur til Bretlands.

Í fjölmiðlum var sagt að forsætisráðuneytið hefði óskað eftir því að leigubílar yrðu til taks við Chequers til að aka þeim ráðherrum sem sættu sig ekki við tillögu May á brott því að andstaða yrði til þess að viðkomandi yrði leystur frá embætti og nýr skipaður ráðherra í staðinn.

Þegar ráðherrarnir settust að sameiginlegum kvöldverði hafði enginn þeirra sagt af sér. Að ósk May snæddi David Cameron, fyrrv. forsætisráðherra, kvöldverð með Boris Johnson utanríkisráðherra fimmtudaginn 5. júli og hvatti hann til að segja ekki af sér.

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …