Home / Fréttir / May frestar Brexit-atkvæðagreiðslu – vill breyta írska varnaglaákvæðinu

May frestar Brexit-atkvæðagreiðslu – vill breyta írska varnaglaákvæðinu

Theresa May kynnir breska þinginu frestun Brexit-atkvæðagreiðslu.
Theresa May kynnir breska þinginu frestun Brexit-atkvæðagreiðslu.

Theresa May, forsætisráðherra Breta, tilkynnti neðri deild breska þingsins síðdegis mánudaginn 10. desember að hún hefði ákveðið að fresta atkvæðagreiðslu um Brexit-tillögu hennar þriðjudaginn 11. desember vegna „víðtækra og djúpstæðra efasemda“ um írska varnaglaákvæðið í tillögunni.

May sagði í þinginu að þrátt fyrir „víðtækan stuðning við mörg lykilatriði“ við samkomulag hennar við ESB væri andstaðan við varnaglaákvæðið í aðskilnaðarsamkomulaginu þess eðlis að yrði „gengið til atkvæðagreiðslu á morgun mundi samkomulaginu verða hafnað af umtalsverðum meirihluta“.

May efndi til símafundar með ríkisstjórn sinni að morgni mánudags 10. desember og sagði ráðherrum að hún ætlaði að halda til funda í Brussel til að ná fram nýju samkomulagi sem fæli í sér „lögbundna tryggingu“ um að varnaglaákvæðið verði ekki varanlegt.

Stefnt var að atkvæðagreiðslu að kvöldi þriðjudags 11. desember. Nú er óljóst hvenær gengið verður til atkvæða um málið.

Að morgni mánudags 10. desember komst ESB-dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að Bretar gætu breytt um afstöðu til Brexit án þess að hafa til þess heimild til frá öðrum ESB-ríkjum. Í þessu felst að Bretar geta einhliða slitið úrsagnarferlinu samkvæmt 50. gr. sáttmála ESB fram til 29. mars 2019. Gerðu Bretar það yrðu þeir áfram aðilar að ESB með sömu kjörum og giltu þegar úrsagnarferlið hófst formlega 29. mars 2017.

Írska varnaglaákvæðið er sett í Brexit-skilnaðarsamkomulagið til að tryggja Norður-Írlandi opin landamæri gagnvart Írska lýðveldinu (innan ESB) og Bretlandi (utan ESB). Nú er varnaglaákvæðið talið binda Breta innan ESB um óákveðinn tíma án uppsagnarákvæða í þágu Breta. Breskir þingmenn vilja að unnt sé að rifta varnaglaákvæðinu án þess að dregin séu landamæri í Írlandshafi milli Norður-Írlands og Bretlands.

 

Skoða einnig

Kjarnorkuknúinn Norðurflotakafbátur í fyrstu ferð sinni um N-Atlantshaf til Kúbu

Fjögur skip úr rússneska Norðurflotanum, þar á meðal há-nútímalegur, vel vopnaður kjarnorkuknúinn kafbátur, verða í …