Home / Fréttir / May ætlar að gera þriðju atlögu að Brexit-niðurstöðu

May ætlar að gera þriðju atlögu að Brexit-niðurstöðu

_106040532_hi052935247

Háttsettir aðstoðarmenn Theresu May segja í einkasamtölum að þeir telji hana „búna að vera“ og hún kunni að neyðast til að birta dagsetningar um afsögn sína ætli hún að fá meirihluta í atkvæðagreiðslu á þingi um efnislega Brexit-tillögu sína.

Þetta segir í breska íhaldsblaðinu The Daily Telegraph laugardaginn 16. mars og er vísað til tveggja heimildarmanna, háttsettra manna í forsætisráðuneytinu í Downing-stræti. Þeir telji að forsætisráðherrann eigi „að falla á eigið sverð“ og tilkynna afsögn sína svo að hún geti tryggt að brottför hennar beri að „með virðuleika“.

Að þeirra skoðun hefur May endanlega „misst traust ESB-gagnrýnenda“ og hún verði að víkja fyrir nýjum leiðtoga Íhaldsflokksins á þingi hans í október.

Fréttin birtist í blaðinu sömu helgi og forsætisráðherrann reynir enn einu sinni að fá ESB-gagnrýnendur í flokki sínum og þingmenn DUP-flokksins í Norður-Írlandi á sitt band fyrir þriðju atkvæðagreiðsluna um efnislega niðurstöðu Brexit-málsins á þingi þriðjudaginn 19. mars.

Fjórir ráðherrar, þeirra á meðal Philip Hammond fjármálaráðherra, sátu nokkurra klukkustunda fund með DUP-þingmönnum föstudaginn 15. mars til að fá þá á sitt band og fullvissa um ágæti írska varnaglans sem á að tryggja að N-Írland verði áfram hluti Bretlands án lokaðra landamæra gagnvart Írska lýðveldinu.

Smátt og smátt hefur stuðningsmönnum við efnislega tillögu May fjölgað meðal þingmanna Íhaldsflokksins. Talið er að það kunni að ráða úrslitum um framgang tillögunnar að lokum, í þriðja sinn. nú aðeins 10 dögum fyrir úrsagnardaginn, 29. mars, að May boði að hún segi af sér fyrir árslok..

„Hún verður að fara með virðingu. Boði hún dag afsagnar sinnar verður hennar minnst sem konunnar sem fékk Brexit samþykkt,“ er haft eftir ráðgjafa hennar.

Neðri deild breska þingsins hafnaði Brexit-tillögu May í vikunni, þingið hafnaði einnig að fara úr ESB án samnings. Þingmenn samþykktu hins vegar tillögu May um að fara þess á leit við ESB að úrsagnardeginum yrði frestað um þrjá mánuði frá 29. mars. Öll 27 aðildarríki ESB þurfa að samþykkja frestunina sem yrði til 30. júní 2019.

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …