Home / Fréttir / Mattis varnarmálaráðherra segir annað um NATO en Trump

Mattis varnarmálaráðherra segir annað um NATO en Trump

James Mattis
James Mattis

James Mattis, nýr varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, ræddi mánudaginn 23. janúar, á fyrsta vinnudegi sínum í embætti, við Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra NATO, í síma og lýsti annarri skoðun en Donald Trump Bandaríkjaforseti á þátttöku Bandaríkjamanna í NATO.

Varnarmálaráðherrann áréttaði mikilvægi aðildarinnar að NATO fyrir Bandaríkin. Hann tók af skarið um að Bandaríkjamenn mundu eins og áður fyrst leita að bandamönnum í Evrópu.

Í þýska vefmiðlinum Welt N24 segir að með þessu hafi hershöfðinginn fyrrverandi (66 ára) enn einu sinni talað á annan veg en Donald Trump.

Yfirlýsing ráðherrans er mikilvæg í ljósi þess að Trump hefur sagt NATO úrelt. Mattis var á sínum tíma yfirmaður einna af herstjórnum NATO.

Jeff Davis, talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins, sagði að með samtali sínu við Stoltenberg hefði Mattis „strax á fyrsta fulla vinnudegi sínum viljað árétta mikilvægi bandalagsins að hans mati“.

Davis sagði að Mattis og Stoltenberg hefðu rætt nauðsyn varðstöðu um sameiginleg gildi og ráðherrann hefði lagt áherslu að þyrftu Bandaríkjamenn að leita að bandamönnum til að verja þessi gildi leituðu þeir alltaf fyrst til Evrópu.

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …