Home / Fréttir / Mattis varkárari gagnvart N-Kóreu en Trump

Mattis varkárari gagnvart N-Kóreu en Trump

 

Donald Trump og Jim Mattis.
Donald Trump og Jim Mattis.

Vegna spennunnar sem skapast hefur eftir ítrekuð eldflaugaskot Norður-Kóreumanna binda menn vonir við að Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, haldi um alla þræði innan bandaríska stjórnkerfisins en ekki komi til þess að Donald Trump Bandaríkjaforseti fari einn og sjálfur að semja um kjarnorkupsrengjur við Kim Jong-un, harðstjóra í Norður-Kóreu.

Frauke Steffens, fréttaritari Frankfurter Allgemeine Zeitung, í New York skrifar um þetta í blaðið fimmtudaginn 31. ágúst og er stuðst við þá frásögn hér.

„Ég held að hann sé byrjaður að virða okkur,“ sagði Donald Trump kampakátur um Kim Jong-un í fyrri viku á fundi með stuðningsmönnum sínum í Phoenix, Arizona. „Ef til vill skilar þetta einhverju jákvæðu að lokum. Fjölmiðlarnir segja ykkur það ekki en það gæti verið. Forsetinn gaf til kynna að hótanir sínar um „eld og brennistein“ gagnvart N-Kóreumönnum hefðu borið árangur.

Nýleg eldflaugaskot N-Kóreumanna (þriðjudaginn 29. ágúst) sýna að forsetinn misskildi stöðuna. Þá skutu þeir eldflaug yfir Japan áður en hún féll til jarðar á hafi úti. Með henni fengu Trump og aðrir skýr skilaboð. Fleiri svipaðar tilraunir hafa verið boðaðar.

Ekki stóð á reiðilegum viðbrögðum. „Viðræður eru ekki svarið,“ sagði Trump á Twitter miðvikudaginn 30. ágúst. Í 25 ár hefðu Bandaríkjamenn reynt samningaviðræður og greitt „þrýstingsgjald“ sagði forsetinn. Til hvers Trump vísaði með því að tala um greiðslur til N-Kóreumanna er óljóst.

Í Twitter-færslu forsetans birtist afstaða hans og þar með að hugsanlega kæmi til átaka við Norður-Kóreumenn. Skömmu síðar hitti Jim Mattis varnarmálaráðherra starfsbróður sinn í Suður-Kóreu, Song Young-moon, í Pentagon, bandaríska varnarmálaráðuneytinu. Eftir fundinn sagði Mattis: „Aldrei er of seint að finna diplómatískar lausnir.“

Í þessum orðum Mattis felst önnur skoðun en sú sem Trump kynnti, Mattis segir enn unnt að ræða við N-Kóreumenn. Margir líta á varnarmálaráðherrann sem öflugt mótvægi við forsetann. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem varnarmálaráðherrann andmælir forsetanum, hann gerði það einnig þegar forsetinn vildi banna transfólk innan Bandaríkjahers.

Í The Washington Post er varnarmálaráðherranum lýst sem talsmanni reglu og rólegheita í ríkisstjórninni. Í því felst ekki að Mattis vilji ekki að hart sé tekið á málum komi til hernaðarlegra lausna. Í stjórnartíð Obama beitti Mattis sér sem hershöfðingi fyrir harðri stefnu gegn aðgerðum Írana í Jemen, Írak og Sýrlandi.

Meðal bandamanna Bandaríkjanna í Japan og Suður-Kóreu er sú skoðun ríkjandi að of mikil óvissa sé um raunverulega stefnu Bandaríkjastjórnar gagnvart N-Kóreu. Mattis á ekki að sinna diplómatísku hliðinni heldur Rex Tillerson utanríkisráðherra. Ráðuneyti hans siglir hins vegar á hálfri ferð meðal annars vegna skorts á ráðningu manna í lykilstöður, til dæmi er enginn bandarískur sendiherra í S-Kóreu.

Margir sérfræðingar óttast að við þessar aðstæður telji Trump sér fært að semja beint við Kim Jong-un þrátt fyrir að hann hafi í hótunum við hann á Twitter og í ræðum. Markmið N-Kóreumanna séu að setja svo mikinn þrýsting á Bandaríkjastjórn að hún taki upp beinar viðræður við þá á norður-kóreskum forsendum. Þeir höfði til þeirrar skoðunar Trumps á sjálfum sér að enginn sé betri dealmaker – samningasmiður – en hann sjálfur og það yrði eitt af meistarastykkjum hans að semja við Kim Jong-un.

Michael Auslin, Asíu-sérfræðingur við Stanford háskóla í Kaliforníu, segir að það yrðu mikil mistök að semja við Kim Jong-un. Hann sé rétt við að ná því takmarki afa síns og föður að eignast kjarnorkuvopn og ráða yfir kjarnorkuveldi. „Hann mun aldrei afsala sér vopnum sínum,“ segir Auslin í tímaritinu Politico. Viðræður við Bandaríkjastjórn verði ekki til að breyta neinu um það. Þær myndu hins vegar grafa undan tengslum Bandaríkjamanna við bandamenn þeirra og styrkja Kínverja.

Auslin segir að Bandaríkjastjórn verði að viðurkenna N-Kóreu sem kjarnorkuveldi og að setja traust sitt á eigin fælingarmátt. Á þann veg sé unnt að gera raunhæfar áætlanir um aðgerðir til að þrengja enn frekar að stjórnvöldum N-Kóreu og minnka sem mest hættuna af vopnaskaki þeirra.

Jim Mattis og Rex Tillerson áréttuðu nýlega stefnu sína í samtali við The Wall Street Journal og lýstu henni sem blöndu af diplómatíu og viðskiptalegum þrýstingi, á þann hátt væri unnt á sannprófaðan hátt að eyða öllum norður-kóreskum kerfum sem nýta mætti í þágu kjarnorkuvopna.

Til að þetta gerist er nauðsynlegt að beita Kínverja meiri þrýstingi að mati sérfræðinga. Norður-Kóreumenn eiga mest undir í viðskiptum við Kínverja.

 

 

 

 

Skoða einnig

Utanríkisráðherra Póllands hvetur til endurhervæðingar í Evrópu

Evrópuþjóðir verða að gera áætlun til langs tíma um endurhervæðingu til að skapa mótvægi við …