Home / Fréttir / Martröð í Stokkhólmi vegna hryðjuverks

Martröð í Stokkhólmi vegna hryðjuverks

Í Drottninggatan í Stokkhólmi eftir hryðjuverkið.
Í Drottninggatan í Stokkhólmi eftir hryðjuverkið.

Sænska lögreglan staðfesti laugardaginn 8. apríl að hún hefði handtekið mann sem hún grunaði um að hafa ekið á flutningabíl inn í helstu göngugötu Stokkhólms, Drottninggatan, síðdegis föstudaginn 7. apríl í þeim tilgangi að granda sem flestum vegfarendum.

Í sænskum fjölmiðlum segir að sá sem handtekinn hafi verið sé 39 ára gamall frá Uzbekistan og yfirlýstur stuðningsmaður Daesh (Ríkis íslams). Hann var handtekinn í Mästra í norðurhluta Stokkhólms og sakaður um að hafa drepið fjóra og sært 15 manns með atferli sem forsætisráðherra Svíþjóðar sagði að hefði verið hryðjuverk.

Stolið var öl-flutningabíl sem lagt hafði verið fyrir framan veitingastað á meðan bílstjórinn fór með öl inn á staðinn. Grímuklæddur maður stal bílnum sagði talsmaður ölgerðarinnar. TT-fréttastofan sagði að ökumaður bílsins hefði reynt að stöðva þjófinn og orðið fyrir sári vegna þess.

Öl-bílnum var að lokum ekið inn í stórverslun.
Öl-bílnum var að lokum ekið inn í stórverslun.

Rekja mátti slóð bílsins eftir blóðugum hjólförum hans. Var honum ekið frá einni hlið til annarrar til að ná til sem flestra sem voru á gangi í götunni. Í sumum fréttum segir að ökumaðurinn hafi sérstaklega lagt sig fram um að aka á börn.

Í Stokkhólmsblaðinu Aftonbladet og sænska ríkissjónvarpinu SVT sagði að lögreglan hefði fundið sprengjuefni í bílnum og myndað 200 metra öryggissvæði umhverfis hann.

Óstaðfestar fréttir eru um að lögregla hafi handtekið annan mann í tengslum við rannsókn ódæðisins. Hann var tekinn í hverfinu Hjulsta í Stokkhólmi.

Öll umferð var stöðvuð um miðhluta Stokkhólms og aðaljárnbrautarstöðina síðdegis föstudaginn 7. apríl. Ferðir jarðlesta borgarinnar voru stöðvaðar og lögregla gaf fyrirmæli um að stjórnarskrifstofum skyldi lokað.

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, efndi til blaðamannafundar og sagði:

„Boðskapur okkar verður ávallt skýr: Þið munið ekki sigra okkur, þið munið ekki stjórna lífi okkar, þið munið aldrei að eilífu sigra.“

Fáni í hálfa stöng á sænska forsætisráðuneytinu.
Fáni í hálfa stöng á sænska forsætisráðuneytinu.

Lögregla sagði að gæsla við sænsku landamærin hefði verið aukin eftir voðaverkið.

Í leiðara Svenska Dagbladet laugardaginn 8. apríl er minnt á að þegar 10. desember 2011 hafi verið unnið hryðjuverk í þessu líflega hverfi í hjarta Stokkhólms þegar Taimour Abdulwahab sprengdi sjálfan sig í loft upp á Bryggargatan við Drottninggatan. Þá hafi hann einn týnt lífi. Þá hafi al-Kaída í Írak verið að baki ódæðinu, nú sé ekki vitað hver standi að baki. Með vísan til þess sem gerst hafi annars staðar í Evrópu megi telja að öfgafullur íslamisti hafi verið á ferð.

Voðaverkið í Stokkhólmi 7. apríl líkist hryðjuverkum í Evrópu á undanförnum mánuðum. Ekið var inn í mannfjölda í Nice í Frakklandi á þjóðhátíðardeginum 14. júlí 2016 og þar týndu 84 lífi. Í Berlín 19. desember 2016 var stórum flutningabíl ekið inn á jólamarkað, 12 féllu og 56 slösuðust. Í London ók hryðjuverkamaður 22. mars á gangandi vegfarendur við breska þinghúsið í Westminster og réðst síðan á fólk með hnífi. Alls féllu 6 og 49 slösuðust. Í janúar 2017 í Austur-Jerúsalem var flutningabíl ekið inn í mannfjölda, 4 féllu og 17 slösuðust.

Í leiðara SvD segir að hryðjuverkið sýni að ekki sé aðeins nauðsynlegt að þjálfa lögreglu og hjúkrunarfólk til að bregðast við ódæði af þessu tagi heldur verði einnig að búa allan almenning undir að til slíkra atburða kunni að koma. Þegar friðsamlegt föstudagssíðdegi breytist í martröð á nokkrum sekúndum skipti fyrstu viðbrögð alls almennings miklu. Að þessu sinni hafi margir Stokkhólmsbúar sýnt mikið hugrekki þegar þeir hafi þotið að vettvang til að bjarga þeim sem voru hjálparþurfi. Þá hafi margir opnað heimili sín fyrir ókunnugum sem urðu strandaglópar þegar miðborginni var lokað fyrir allri umferð. Í Stokkhólmi geti menn verið stoltir af þeim mikla samhug borgarbúa sem birtist á þessari hættustund.

Almennir borgarar veittu slösuðum aðstoð.
Almennir borgarar veittu slösuðum aðstoð.

Í lok leiðarans segir að það styrki Svía í sorg þeirra hve þeim berist hlýjar kveðjur frá öllum löndum heims og þess er sérstaklega getið að á miðnætti eftir hryðjuverkið hafi verið slökkt á ljósum Eiffelturnsins í París til að heiðra minningu þeirra sem létust.

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Tortryggni í garð Moskvuvaldsins vex í gömlu Sovétlýðveldunum

Stuðningur við forsystusveit Rússlands hefur hrapað í nágrannalöndum landsins. Íbúar landanna eru tortryggnir í garð …