
Martin Schulz tilkynnti þriðjudaginn 13. febrúar að hann segði tafarlaust af sér sem leiðtogi þýskra jafnaðarmanna (SPD).
„Með afsögn minni og ákvörðun um að taka ekki setu í ríkisstjórninni vil ég binda enda á umræður um menn í SPD svoa að flokksmenn geti beint allri athygli sinni að stjórnarsáttmálanum.“ sagði Schulz við fréttamenn.
Andrea Nahles, fyrrverandi vinnumálaráðherra og núverandi þingflokksformaður SPD, var tilnefnd einróma af foystusveit flokksins sem leiðtogaefni hans.
Verði Nahles kjörin leiðtogi á flokksþingi í Wiesbaden í apríl verður hún fyrsta konan til að leiða flokkinn í 150 ára sögu hans. Líklegt er talið að Simone Lange, borgarstjóri í Flensborg, bjóði sig einnig fram í leiðtogasætið í SPD.
Olof Scholz, borgarstjóri í Hamborg, sem verður líklega næsti fjármálaráðherra Þýskalands, verður flokksleiðtogi til bráðabirgða til flokksþingsins 22. apríl.
Martin Schulz vildi ekki í stjórn með Angelu Merkel eftir kosningarnar 24. september 2017 en tók síðan þátt í endurnýjun stjórnarsamstarfsins með henni og sagðist loks vilja verða utanríkisráðherra í endurnýjaðri samsteypustjórn kristilegra og jafnaðarmanna. Kúvending Schulz féll illa í kramið innan SPD og hann þótti ekki maður orða sinna auk þess sem Sigmar Gabriel, flokksbróður hans og núverandi utanríkisráðherra, þótti að sér vegið.
Viðbrögð Schulz voru að taka af skarið um að hann yrði ekki ráðherra og síðan tilkynnti hann þriðjudaginn 13. febrúar afsögn sína sem flokksleiðtogi.
Fyrir 2. mars verða 464.000 félagar í SPD að hafa komist að niðurstöðu um hvort flokkurinn eigi að halda áfram stjórnarsamstarfi við kristiega. Póstkostning fer fram um málið innan flokksins um þessar mundir.