Home / Fréttir / Martin Schulz óttast fasisma á Ítalíu – vill nýja evrópska vinstri hreyfingu

Martin Schulz óttast fasisma á Ítalíu – vill nýja evrópska vinstri hreyfingu

Martin Schulz.
Martin Schulz.

Martin Schulz, fyrrverandi forseti ESB-þingsins, var í fyrra kanslaraefni þýskra jafnaðarmanna (SPD). Hann tapaði fyrir Angelu Merkel í þingkosningunum í september 2017. Snemma á þessu ári neyddist hann til að segja af sér flokksformennsku.

Þótt Schulz megi sín nú lítils á þýskum stjórnmálavettvangi birtu þrjú blöð í þremur löndum: Le Figaro, El País og La Repubblica við hann viðtal föstudaginn 6. júlí.

Schulz segir að vegið sé að samstöðu ESB-ríkjanna, að grafið sé undan trausti milli þjóða og sjálfsvirðing þeirra sé fótum troðin af áróðurs- og sundrungaröflum sem náð hafi völdum í einstökum ríkjum. Þetta skapi grundvallarvanda innan ESB.

Þegar Schulz er beðinn um að nefna dæmi máli sínu til stuðnings segir hann:

„Á Ítalíu má sjá áróður uppnámsflokka gegn minnihlutahópum til að ná skammvinnum árangri. Það líkist helst fasisma þegar innanríkisráðherra Ítalíu lýsir yfir vilja til að „skrásetja róma-fólk“. Við lifum á tímum þegar málflutningur stjórnmálamanna einkennist af ruddaskap sem grefur undan allri samstöðu og virðingu í samskiptum. Þetta er til marks um endalok lýðræðisins. Í langan tíma tíðkaðist þetta aðeins á jaðri stjórnmálabaráttunnar. Nú um nokkurt skeið hefur þessi málflutningur hins vegar sett svip sinn á lýðræðislega kjörin þing og ríkisstjórnir. Það er hættulegt.“

Þá er Schulz spurður hvað jafnaðarmannaflokkar geti gert í stöðunni. Hann svarar:

„Við jafnaðarmenn, öfl framfara og mannúðar í Evrópu, verðum að viðurkenna að róttæk hægri öfl, það er að segja valdahyggjumenn, and-lýðræðissinnar og popúlistar hafa skipulagt sig. Það er ósæmilegt að sjá hvernig popúlískar aðferðir hafa verið notaðar til að ofsækja minnihlutahópa á evrópskum stjórnmálavettvangi. Það er ósæmilegt að sjá hvernig helsta friðarframtak í heiminum, sam-evrópska lýðræðishugsjónin, er orðin blóraböggull vegna allra þessara vandræða.

Menn á borð við Matteo Salvini [innanríkisráðherra Ítalíu] vilja eyðileggja Evrópu. Þetta eru sömu mennirnir sem vildu etja einni þjóð gegn annarri í upphafi 20. aldar. Evrópskur andróður og þjóðernisleg endurvakning í stjórnmálum leiðir okkur að hengifluginu. Þessir menn eru óábyrgir. Því miður er einnig ástæða til að hafa áhyggjur af ýmsu sem kemur frá þeim sem skipa sér lengst til vinstri. Í Þýskalandi fylgir popúlistinn Markus Söder forsætisráðherra Bæjaralands þessari stefnu. Hann talar um endalok fjölþjóðahyggjunnar á sama tíma og ekkert er mikilvægara en hún: vilji menn að þjóð okkar dafni til frambúðar ber að leggja meiri rækt við samvinnu en ekki minni.

Salvini, Strache [Austurríki], Kurz [Austurríki], Orban [Ungverjalandi] og allir hinir popúlistarnir eru staðráðnir í að bjóða Evrópusambandinu birginn og þeir vinna saman. Gegn þessum einbeittu mönnum ber ekki að sýna neina linkind. Við þörfnumst hreyfingar gegn þeim, byltingar með sæmdina að leiðarljósi.  Minnumst þess sem heimspekingurinn Edmund Burke sagði: „Þá er illmenni bindast samtökum, verða góðir menn að standa sameinaðir.“ Það er tímabært að taka höndum saman og stofna sannkallaða evrópska vinstri hreyfingu.“

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …