Home / Fréttir / Mark Rutte líklega næsti framkvæmdastjóri NATO

Mark Rutte líklega næsti framkvæmdastjóri NATO

Mark Rutte.

Stjórnir Bandaríkjanna, Bretlands, Frakklands og Þýskalands tilkynntu fimmtudaginn 22. febrúar að þær styddu Mark Rutte (57 ára), fráfarandi forsætisráðherra Hollands, til að taka við embætti framkvæmdastjóra NATO í október á þessu 75 ára afmælisári bandalagsins.

Stuðningur ríkjanna kann að ráða úrslitum um val hans í embættið en allar ríkisstjórnir aðildarlandanna þurfa að samþykkja tillögu um nýjan framkvæmdastjóra. Í fréttum segir að pólska ríkisstjórnin hafi ekki enn kynnt afstöðu sína. Hún vegi þungt vegna legu og vigtar Póllands.

Fyrir utan þessi fjögur stóru aðildarríki er sagt að 16 NATO-ríki önnur hafi lýst stuðningi við Rutte. NATO-ríkin eru núna 31 en búist er við að Svíþjóð bætist í hópinn mánudaginn 26. febrúar með samþykkt ungverska þingsins. Talið er hugsanlegt að stjórnir Tyrklands og Ungverjalands dragi lappirnar við val á framkvæmdastjóranum. Þær vilji fá eitthvað fyrir sinn snúð.

Norðmaðurinn Jens Stoltenberg hefur gegnt stöðu framkvæmdastjóra NATO síðan 2014. Hann hefur tvisvar sinnum búið sig undir starfslok en í báðum tilvikum orðið við tilmælum um gegna embættinu áfram.

Embættismaður í Hvíta húsinu í Washington sagði að húsbóndinn þar, Joe Biden forseti, mælti eindregið með Mark Rutte sem næsta framkvæmdastjóra NATO. Hann hefði djúpan skilning á mikilvægi Atlantshafsbandalagsins, væri þaulreyndur leiðtogi og málsvari. Hæfileikar hans yrðu bandalaginu til mikils gagns á þessum viðsjárverðu tímum.

Mark Rutte er mið-hægri maður og hefur verið forsætisráðherra Hollands síðan 2010, lengur en nokkur annar. Hann tilkynnti fyrir þingkosningar í Hollandi í nóvember 2023 að hann yrði ekki í kjöri til þings. Síðan hefur hann setið sem forsætisráðherra í starfsstjórn þar sem ekki hefur enn tekist að mynda nýja ríkisstjórn í Hollandi.

Þrír Hollendingar hafa gegnt stöðu framkvæmdastjóra NATO til þessa:

Dirk U. Stikker, 1961-1964.

Joseph Luns, 1971-1984.

Jaap de Hoop Scheffer, 2003-2009.

Enginn hefur gegnt stöðunni lengur en Joseph Luns. Jens Stoltenberg er með næst lengstan starfsaldur.

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …