
Vladimir Pútín Rússlandsforseti hitti Marine Le Pen, forsetaframbjóðanda frönsku Þjóðfylkingarinnar, í Moskvu föstudaginn 24. mars. Hann segir hana fulltrúa „hraðvaxandi þáttar“ í evrópskum stjórnmálum.
Litið er á fundinn með Pútín sem uppslátt fyrir Le Pen í kosningabaráttunni í Frakklandi. Pútín sagði hins vegar að ekki vekti fyrir sér að hafa áhrif á frönsku kosningaúrslitin. Vegna skoðana Le Pen er sjaldgæft að erlendir stjórnmálaleiðtogar hitti hana.
Í Bandaríkjamenn rannsaka yfirvöld nú ásakanir um að Rússar hafi að ráðum Pútíns blandað sér í bandarísku forsetakosningarnar til stuðnings Donald Trump.
Eftir fundinn með Le Pen sagði Pútín:
„Auðvitað veit ég að kosningabaráttan í Frakklandi harðnar stöðugt. Við viljum ekki hafa nein áhrif á framvindu hennar en við áskiljum okkur rétt til að ræða við fulltrúa allra stjórnmálahreyfinga í landinu.“
Á meðan Marine Le Pen var í Moskvu hvatti hún til þess að efnahagsþvingunum á Rússa yrði aflétt. Hún sagði þær hafa „öfug áhrif“.
Liður í refsiaðgerðunum gegn Rússum eftir innlimun þeirra á Krímskaga fyrir þremur árum var að banna nokkrum rússneskum áhrifamönnum að ferðast til Vesturlanda.
Fréttastofan Interfax hafði eftir Le Pen að hún teldi það brot á lýðræðislegum réttindum að banna þingmönnum að hittast og ræða saman.
Í ræðu sem hún flutti í neðri deild rússneska þingsins, Dúmunni, hét hún því að vinna að afnámi svarta listans svonefnda þar sem finna má nöfn þeirra sem eru í ferðabanni til Vesturlanda.
Á sínum tíma lýsti Le Pen yfir stuðningi við innlimun Krímskaga í Rússland.
Hún hvatti til samstarfs Rússa og Frakka til að bjarga heiminum frá hnattvæðingunni og bókstafs-íslamisma.
Í Moskvu eru menn sáttir við boðskap Marine Le Pen. Ekki síst þegar hún segir að Krím hafi alltaf verið rússnesk og „Rússar gerðu enga innrás á Krímskaga“. Að hún vill vinna að því innan ESB að afnema viðskiptaþvinganirnar og stuðla að nánu samstarfi við ráðamenn í Moskvu réð því að Pútín ákvað að hitta hana í Moskvu, segir í frétt BBC.
Í fréttinni segir einnig að sjaldgæft sé að Pútín taki á móti erlendum forsetaframbjóðanda. Fréttaritari BBC segist hafa spurt Dmitríj Peskov, talsmann Pútíns, hvort rússneskir bankar eða fjármálastofnanir ætli að fjármagna kosningabaráttu Le Pen. „Ég hef ekki upplýsingar um það,“ svaraði hann.
Wallerend de Saint-Just, gjaldkeri Þjóðfylkingarinnar, segir að heimsókn Le Pen til Moskvu sé ekki tengd fjáröflun.