Home / Fréttir / Marine Le Pen segir úrsögn Breta úr ESB hafa dómínó-áhrif

Marine Le Pen segir úrsögn Breta úr ESB hafa dómínó-áhrif

 

 

Foringjar ENF-flokkanna á fundi í Koblenz
Foringjar ENF-flokkanna á fundi í Koblenz

Flokkar sem taldir eru aðhyllast lýðskrum (populisma) og skipað er lengst til hægri á ESB-þinginu efndu til sameiginlegs fundar í þýsku borginni Koblenz laugardaginn 21. janúar. Ýmsir hópar vinstrisinna efndu til mótmæla vegna þessa í borginni.

Um er að ræða ESB-þingflokkinn sem kallar sig Evrópa þjóða og frelsis á ensku Europe of Nations and Freedom (ENF). Í þingflokknum sitja fulltrúar flokka sem aðhyllast meðal annars róttæka stefnu í útlendingamálum. Má þar nefna Annan kost fyrir Þýskaland (AfD) og Þjóðfylkinguna í Frakklandi. ENF er minnsti þingflokkurinn á ESB-þinginu með 40 þingmenn. Talið er að um 1.000 manns hafi setið fundinn í Koblenz.

Meðal kunnra félaga í þessum flokkum sem eru í Koblenz má nefna Frauke Petry, formann AfD, Marine Le Pen, forsetaframbjóðanda í Frakklandi, Geert Wilders, þingmann frá Hollandi, og Matteo Salvini, leiðtoga Norðurbandalagsins á Ítalíu.

Marine Le Pen flutti ræðu á fundinun, fyrstu opinberu ræðu sína í Þýskalandi. Hún sagði að árið 2016 hefði verið „árið sem Engilsaxar vöknuðu“. Hún taldi að ákvörðun Breta um að yfirgefa ESB mundi hafa „dómínó-áhrif“ innan sambandsins.

„Ég segi ekki að öll lönd segi skilið við evruna… Þeir sem ákveða að gera að verða hafa færi á því,“ sagði Marine Le Pen sem leggur mikla áherslu á andstöðu við ESB í kosningastefnuaskrá sinni.

Geert Wilders fagnaði að Donald Trump væri stiginn inn á vettvang alþjóðastjórnmála og sagði: „Bandaríkin frjáls í gær, Koblenz í dag, ný Evrópa á morgun.“ Vísaði hann með orðum sínum til þess að Trump hefði tekið afdráttarlausa þjóðernislega afstöðu í innsetningarræðu sinni.

Wilders hlaut góðar undirtektir fundarmanna þegar hann hvatti til þess að Petry yrði næsti Þýskalandskanslari. Angela Merkel mælist ekki vel fyrir í þessum hópum vegna stefnu sinnar í útlendingamálum. Þeir saka hana um að hafa valdið Evrópu stórskaða með því að opna landamæri Þýskalands fyrir farand- og flóttafólki á árinu 2015.

Þýskir fréttaskýrendur segja að eins og mál standi núna sé borin von að Wilders verði að ósk sinni eftir þýsku sambandsþingskosningarnar 24. september 2017. Miðvikudaginn 18. janúar var birt niðurstaða í könnun sem sýndi að AfD nyti stuðnings aðeins 11% kjósenda, kristilegir CDU/CSU fá 38% og jafnaðarmenn SPD 21%.

Um 3.000 manns efndu til mótmæla í Koblenz vegna ENF-fundarins. Meðal mótmælenda var Sigmar Gabriel, leiðtogi þýskra jafnaðarmanna og vara-kanslari Þýskalands, Simone Peter, annar formanna þýskra græningja, og Jean Asselborn, utanríkisráðherra Lúxemborgar.

 

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …