
Marine Le Pen, forsetaframbjóðandi Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi, kynnti stefnu sína í utanríkismálum á fundi með fulltrúum erlendra ríkja og fjölmiðla í París fimmtudaginn 23. febrúar. Hún mælti eindregið gegn yfirþjóðlegu fjölþjóðavaldi og bar lof á Donald Trump og stjórn hans í Bandaríkjunum. Þá taldi hún nauðsynlegt að móta nýja stefnu í samskiptum við Rússa, Sýrlendinga og Afríkuþjóðir auk þess að skerpa menningarlega sérstöðu og sjálfstæði þjóðríkja.
Í ræðu sinni gagnrýndi Marine Le Pen (48 ára) Evrópusambandið og NATO harðlega og taldi rangt að ráðamenn Vesturlanda skiptu sér af innri málum ríkja eins og Íraks, Sýrlands, Líbíu, Rússlands og Tyrklands. Þessi afskipti hefðu dregið úr stöðugleika, falið í sér brot á tvíhliða samningum og valdið íbúum þessara landa vonbrigðum.
„Ég ætla ekki að halda frönsku eða vestrænu kerfi á loft. Ég ætla ekki að boða eitthvert allsherjar kerfi. Þvert á móti vil ég leggja rækt við og virða þjóðir og menningu þeirra,“ sagði Le Pen.
Hún lýsti Frakklandi undir forsæti sínu sem málsvara „kúgaðs fólks“ stjórn sín mundi styðja málstað þeirra sem mættu sín lítils einkennast af því sem er „voldugt og mikilfenglegt“.
Hún lét hjá líða að svara spurningum fundarmanna og hélt ræðu sinni rólega áfram eftir að berbrjósta feministi reyndi að trufla hana. Konan var borin hrópandi út úr glæsilegum fundarsalnum í hjarta Parísar.

Niðurstöður tveggja skoðanakannana sem birtust fimmtudaginn 23. febrúar sýndu að Le Pen heldur forystu sinni meðal forsetaframbjóðendanna. Hún hefur ekki glatað forystunni þótt lögreglurannsókn fari nú fram til að sannreyna hvort hún hafi misfarið með opinbert starfskostnaðarfé sitt sem ESB-þingmaður. Henni er spáð sigri í fyrri umferð forsetakosninganna 23. apríl en ósigri í seinni umferðinni 7. maí.
Marine Le Pen hefur notað þessa viku til að styrkja stöðu sína í alþjóðamálum. Fyrr í vikunni fór hún til Líbanon og ræddi við forseta landsins og forsætisráðherra. Hún komst einnig rækilega í fréttir með því að aflýsa fundi með trúarleiðtoga múslíma í Líbanon eftir að þess var krafist að hún setti á sig höfuðslæðu áður en hún gengi fyrir hann.
Stjórnmálaskýrendur segja að með för sinni til Líbanon hafi Le Pen áréttað að hún gæti komið fram sem forseti gagnvart öðrum þjóðarleiðt0gum. Líbanon er fyrrverandi frönsk nýlenda og þar býr öflugur hópur kristinna manna en samstaða með þeim höfðar sterkt til kjósenda Þjóðfylkingarinnar. Le Pen kom í ferðinni fram sem föðurlandsvinur og kristinnar trúar.
Þegar Le Pen ræddi varnarmál ítrekaði hún óvild sína í garð NATO. Hún mundi fara að fordæmi Charles de Gaulles frá 1966 og hætta aðild Frakka að sameiginlegri herstjórn NATO sem Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti innleiddi að nýju árið 2007. Hún sagði varnir Frakklands mundu taka mið af frönskum hagsmunum og hún ætlaði ekki að miða útgjöld til varnarmála við 2% af vergri landsframleiðslu heldur mundu þau nema 3% þegar fimm ára kjörtímabili hennar lyki.
Hún hvatti enn á ný til betri samskipta við Rússa og sagði að bæði ESB og Bandaríkjamenn hefðu „farið illa“ með þá. Þar mætti til dæmis benda sérstaklega á ákvörðun Frakka frá 2014 um að rifta sölusamningi á tveimur Mistral-herskipum til Rússa vegna innlimunar þeirra á Krímskaga.
Le Pen var í hópi fyrstu erlendra stjórnmálamanna til að fagna sigri Donalds Trumps í forsetakosningunum í nóvember 2016, beið hún ekki einu sinni eftir úrslitum kosninganna áður en hún sendi heillaóskir sínar. Hún gagnrýndi forvera Trumps, Barack Obama, fyrir að hafa fylgt misheppnaðri stefnu í Mið-Austurlöndum og annars staðar. Hún spáði því að Trump og menn hans mundu „næstum skipta um forrit“ og það yrði ekki aðeins jákvætt fyrir heiminn heldur einnig fyrir Bandaríkin.
Þegar Le Pen gagnrýndi ESB beindi hún ekki síst spjótum sínum að Angelu Merkel Þýskalandskanslara. Það væri óskiljanlegt á hvern hátt Merkel hefði stuðlað að hnignun ESB. Næði hún kjöri mundi hún leita eftir nýjum samningi um aðildarkjör Frakka að ESB. Tækist ekki viðunandi samkomulag mundi hún boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB-aðildina. Hún kynnti einnig hugmynd um að innan Frakklands yrði tekinn upp franki að nýju sem lögeyrir en fyrirtæki gætu notað evrur í viðskiptum sínum innan og utan Frakklands.