
Her Úkraínu veitir enn mótspyrnu á austur vígstöðvunum í landinu að sögn herstjórnarinnar 30. mars. Hefur herinn hrundið tugum árása í bænum Bakhmut og í nágrenni hans. Bærinn hefur í meira en sjö mánuði verið helsta skotmark hers Rússa sem leggur ofurkapp á að ná honum á sitt vald.
Mark Milley hershöfðingi, herráðsformaður Bandaríkjanna, sagði bandarískum þingmönnum 29. mars að rússneskum ráðamönnum hefði mistekist að bæta stöðu sína í Bakhmut undanfarnar vikur en mannfall í liði Rússa ykist stöðugt.
Í daglegri tilkynningu sinni sagði herstjórn Úkraínu 30. mars að Rússar beindu sókn sinni eins og áður einkum að Bakhmut og nokkrum öðrum stöðum í Donetsk-héraði. Undanfarinn sólarhring hefðu Rússar gert alls 60 árásir á þessa staði. Í Bakhmut bæ einum hefðu Úkraínumenn hrundið 28 óvinaárásum.
Þá sagði herstjórnin að Rússar héldu áfram að gera loftárásir á almenna borgara og orkumannvirki í Úkraínu.
Milley hershöfðingi sagði hermálanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings að Rússum hefði „alls ekki miðað neitt“ við Bakhmut undanfarnar vikur og að Wagner-málaliðarnir hefðu orðið fyrir „gífurlegu mannfalli“ á svæðinu.
Hann sagði að Bakhmut hefði breyst í „slátrunarhátíð Rússa“.
Sjálfur Jevgeníj Prigosjín, eigandi Wagner-málaliðahersins, viðurkenndi 29. mars að orrustan um Bakhmut hefði valdið her sínum miklu tjóni fyrir utan að skaða Úkraínumenn.
„Miðað við daginn í dag hefur orrustan um Bakhmut í raun eyðilagt her Úkraínu og því miður hefur hún einnig illilega skaðað Wagner-einkaherfyrirtækið,“ sagði Prigosjín í hljóðskilaboðum.