Home / Fréttir / Mannréttindasamtök gagnrýna ofsóknir Rússa gegn Krím-Töturum

Mannréttindasamtök gagnrýna ofsóknir Rússa gegn Krím-Töturum

 

Tatara-kona á Krím.
Tatara-kona á Krím.

Rússnesk yfirvöld á Krímskaga hafa hert ofsóknir gegn Krím-Töturum sem búa þar. Beitt hefur verið alls kyns tylliástæðum í því augljósa skyni að kæfa allt andóf á skaganum, segir í skýrslu mannréttindasamtakanna Human Rights Watch, HRW, sem birt var þriðjudaginn 14. nóvember. Krím-Tatarar eru múslímskur minnihlutahópur sem á heimkynni á Krímskaga. Margir þeirra mótmæltu hernámi og innlimun Rússa opinberlega strax á árinu 2014.

Við útgáfu skýrslunnar sagði Hugh Williamson, sem fer með málefni Evrópu og Mið-Asíu á vegum HRW: „Rússnesk yfirvöld á Krím hafa beitt Krím-Tatara stöðugum ofsóknum vegna háværrar andstöðu þeirra við hernám Rússa frá því að það hófst árið 2014. Þau hafa lýst Krím-Töturum sem láta sig stjórnmál varða sem öfga- og hryðjuverkamönnum, neytt marga til útlegðar og tryggt að þeir sem kjósa að vera kyrrir óttist alltaf að segja hug sinn allan.“

Frá upphafi rússneska hernámsins hafa fulltrúar rússneskra stjórnvalda og staðgenglar þeirra beitt Krím-Tatara og stuðningsmenn þeirra, þar á meðal blaðamenn, bloggara, aðgerðasinna og aðra harðræði, ofríki, hótunum, yfirþyrmandi og ólöglegri húsleit, líkamlegu ofbeldi og neytt þá til að láta sig hverfa. Sé kvartað til yfirvalda vegna þessa aðhafast þau ekkert eða framkvæma sýndar-rannsóknir. Rússar hafa lagt bann við starfsemi fjölmiðla og félagasamtaka í þágu Krím-Tatara sem gagnrýna aðgerðir Rússa á Krím auk þess að leysa upp og bannfæra Mejlis, æðstu stofnunina á Krím sem fór með málefni Tatara á skaganum.

Rannsóknarmenn á vegum HRW voru í október 2017 á Krím og skráðu ákærur í sakamálum á hendur Krím-Töturum fyrir að gagnrýna aðgerðir Rússa á Krím auk þess sem þeir sáu einnig tilhæfulausar ákærur á hendur þeim fyrir hryðjuverk. Þá sáu rannsakendurnir einnig að Krím-Tatarar sem gripu til friðsamlegra einstaklings mótmæla vegna handtöku og fangelsunar annarra Tatara voru sektaðir. Í rússneskum lögum eru ákvæði sem segja að einstaklingi sé heimilt að mótmæla einn án þess að leita leyfis yfirvalda.

Rússneska ríkið er að alþjóðalögum hernámsríki á Krím þar sem það fer þar með alla stjórn mála án samþykkis ríkisstjórnar Úkraínu, yfirráð á Krímskaga hafa aldrei verið færð Rússum á lögmætan hátt.

Eftirlitsnefnd Sameinuðu þjóðanna í Úkraínu, United Nations Human Rights Monitoring Mission in Ukraine, sendi 25. september 2017 frá sér fyrstu skýrslu sína um stöðu mannréttindamála á Krím. Þar kom fram að mannréttindum hefði „hrakað umtalsvert undir hernámi Rússa“.

Þar segir einnig að rússnesk yfirvöld og staðgenglar þeirra eigi tafarlaust að hætta ofsóknum í garð Krím-Tatara svo sem undir því yfirskini að um baráttu gegn hryðjuverka- og öfgamönnum sé að ræða. Þá skuli einnig hætt öllum ólögmætum aðgerðum gegn félaga- og fundafrelsi á Krím og tafarlaust hafin óhlutdræg rannsókn á ásökunum um að lögregla hafi beitt ofríki gegn Krím-Töturum. Yfirvöld í Rússlandi og Úkraínu eigi að tryggja að mannréttinda- og hjálparsamtök eigi greiðan aðgang að Krím.

 

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …