Home / Fréttir / Makedónía: Rússar reyna að spilla þjóðaratkvæðagreiðslu

Makedónía: Rússar reyna að spilla þjóðaratkvæðagreiðslu

 

Kosningaspjöld til stuðnings já í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
Kosningaspjöld til stuðnings já í þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Rússar standa fyrir laumulegri áróðursherferð til að spilla fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu í Makedóníu sunnudaginn 30. september sem kann að opna þjóðinni leið inn í NATO og ESB. Atkvæðagreiðslan er um nýtt nafn á landinu og þar með lausn á 27 ára deilu við Grikki.

Allt frá því að Makedónía kom til sögunnar sem sjálfstætt ríki á Balkanskaga eftir upplausn Júgóslavíu hafa Grikkir mótmælt því að landið bæri sama nafn og hérað í Grikklandi.

Rússar berjast hart gegn stækkun NATO á Balkanskaga. Þeir telja skagann á áhrifasvæði sínu. Þeir eru sakaðir um að hafa nýtt sér samfélagsmiðla í Makedónía til að hvetja fólk til að sitja heima á sunnudaginn í stað þess að greiða atkvæði.

Stofnaðir hafa verið þúsundir falsaðra Twitter- og Facebook-reikninga með myllumerkinu #Bojkotiram sem þýðir „sniðgangið“ á makedónísku.

Markmiðið virðist vera að minnka þátttöku í atkvæðagreiðslunni og ná henni undir 50% atkvæðisbærra manna og þar með gera hana óskuldbindandi.

Kannanir sýna að litlu muni til að þessu marki sé náð. Nýleg tala er að 57% ætli að fara á kjörstað. Vestrænir blaðamenn segja að margir sem þeir hitta á götum höfuðborgarinnar, Skopje, hafi ekki enn gert upp hug sinn um hvort þeir ætli á kjörstað.

Í sumum fölsuðu færslunum er reynt að koma illu af stað milli slavneska meirihlutans í Makedóníu og albanska minnihlutans, hann er 25% íbúa landsins.

Þeir sem mynda albanska minnhlutann styðja að miklum meirhluta samninginn við Grikki um að nafn Makedóníu verði Lýðveldið Norður-Makedónía. Þjóðernissinnaðir Slavar leggjast gegn því að nafni landsins verði breytt á þennan veg að kröfu Grikkja.

Heather Conley, forstjóri Evrópuverkefna hjá hugveitunni Centre for Strategic and International Studies í Washington, segir að Rússar geri allt sem þeir geti til að hindra fleiri þjóðir í að ganga í hóp með vestrænum þjónum.

„Í Makedóníu felst það meðal annars í því að nýta sér til framdráttar innri veikleika eins og spennuna milli Slava og Albana. Þarna má sjá sambland upplýsingafölsunar og beitingu fjármuna til að styðja þjóðernissinnuð samtök og stjórnmálamenn,“ sagði hún við The Telegraph.

„Markmiðið er að skapa aðstæður fyrir algjört uppnám og draga þá mynd að Vesturlönd séu úrkynjuð og ráðalaus.“

Í ágúst birtist falsfrétt um að bandarískir hermenn á æfingu í Makedóníu notuðu skotfæri sem hefðu að geyma úrelt úraníum. Flaug hún hátt og hratt í netheimum.

Radmila Sekerinska varnarmálaráðherra sagði fréttina uppspuna og hún væri reist á „tilhæfulausum lygum“. Hún sagði að með þessari „falsfrétt“ væri ætlunin að grafa undan trausti á NATO og undan þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Gríska ríkisstjórnin rak tvo rússneska stjórnarerindreka úr landi í júlí og sakaði þá um að reyna að ýta undir andstöðu í Grikklandi við tímamótasamninginn við Makedóníu.

Grískir embættismenn sögðu að þeir hefðu „óhrekjanlegar sannanir“ fyrir tilraunum Rússa til afskipta.

Zoran Zaev, forsætisráðherra Makedóníu, sakaði rússneskan auðmann sem býr í Grikklandi um að fjármagna þjóðernishópa og fótboltabullur í Makedóníu í því skyni að stuðla að ofbeldisfullum mótmælum gegn samningnum við Grikki.

Jim Mattis, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, var í fyrri viku í Skopje og sagði að enginn vafi væri á því að Rússar hefðu „lagt fram fé og stunduðu að auki víðtækari áróðursherferðir“.

Árið 2016 voru Rússar sakaðir um samsæri í því skyni að fella ríkisstjórn Svartfjallalands og spilla áformum um aðild landsins að NATO með því að drepa forsætisráðherrann, Milo Djukanovic. Samsærið misheppnaðist og Svartfjalland er nú 29. aðildarland NATO.

Angela Merkel Þýskalandskanslari tók fyrr í þessum mánuði þátt í sameiginlegum blaðamannafundi með Zoran Zaev forsætisráherra og hvatti Makedóníumenn til að fara á kjörstað, þetta sögulega tækifæri gæfist ekki nema einu sinni: „Grípið þetta lýðræðislega tækifæri til að segja hug ykkar um framtíð lands ykkar,“ sagði kanslarinn.

Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, var í Skopje 6. september og staðfesti að varnarmálaráðherra Makedóníu gæti sest við ráðherraborð NATO í febrúar 2019 samþykkti þjóðin samninginn.

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …