Home / Fréttir / Maður að skapi Pútíns næsti utanríkisráðherra Bandaríkjanna

Maður að skapi Pútíns næsti utanríkisráðherra Bandaríkjanna

Rex Tillerson
Rex Tillerson

„Eftir að hafa stundað samningagerð við þeirra í olíuvinnslu er Rex Tillerson þeirra í olíuvinnslu er Rex Tillerson maður að skapi Vladimirs Pútíns,“ þannig hefst fréttaskýring eftir Henry Meyer og Ilja Arkhipov hjá Bloomberg-fréttastofunni í tilefni af ákvöðrun Donalds Trumps að skipa Tillerson (64 ára), forstjóra Exxons, utanríkisráðherra í ríkisstjórn sinni.

Í skýringunni eru færð rök fyrir að Rússar líti þannig á að nú verði langþráð þíða í samskiptum þeirra við Bandaríkjastjórn. Verði skipun Tillersons staðfest af Bandaríkjaþingi bætist enn annar stuðningsmaður meiri samvinnu við Rússa í hóp æðstu manna innan bandaríska stjórnkerfisins sem koma að mótun og framkvæmd utanríkisstefnunnar, hinn sé Michael Flynn, þjóðaröryggisráðgjafi verðandi forsetans. Auk þess telji Rússar að James Mattis hershöfðingi, verðandi varnarmálaráðherra Trumps, sé raunsærri í skoðunum en forverar hans.

Fréttamenn Bloombergs ræddu við Sergei Markov, ráðgjafa Pútíns, í síma sunnudaginn 11. desember þegar nafn Tillersons sem utanríkisráðherra bar hátt. Markov sagði: „Þetta er frábært teymi. Rússum fellur vel að ræða við þetta fólk.“

Í fréttaskýringunni segir að Rússar hvetji verðandi stjórn Trumps til að auðvelda sér að losna úr alþjóðlegri einangrun sinni og binda enda á lengsta efnahagslega samdráttarskeið sitt í tvo áratugi.

Bent er á að enginn viti í raun hver sé afstaða Tillersons til alþjóðastjórnmála. Hann hafi þó gagnrýnt ákvörðunina um viðskiptaþvinganir gegn Rússum árið 2014 og sagt að þær yrðu gagnslausar.

Michael Flynn var árið 2015 greitt fyrir að tala á fundi í Moskvu sem Pútín sat en ríkissjónvarpið RT skipulagði. Flynn telur að Bandaríkjunum stafi mest hætta af öfgahyggju íslamista og vill að Rússar og Bandaríkjamenn taki höndum saman gegn slíkum öfgamönnum. James Mattis hershöfðingi hefur meiri fyrirvara en Flynn gagnvart Rússum en hann hefur einnig gagnrýnt Barack Obama fyrir að afla sér ekki fleiri bandamanna í átökunum við hryðjuverkahópa í Mið-Austurlöndum.

Fréttaskýrendurnir segja að vinsældir Tillersons í Moskvu mælist ekki alls staðar vel fyrir meðal þingmanna í Washington. Vitnað er í það sem repúblíkaninn Marco Rubio, öldungadeildarþingmaður frá Flórída, sagði á Twitter: „Að „vera vinur Vladimirs“ er ekki einkunn að mínum vonum.“ Rubio er í utanríkismálanefndinni sem ræðir tilnefningu Tillersons.

 

Rex Tillerson hitti Vladimir Pútín, þáv. forsætisráðherra, fyrst árið 1999 á Sakhalin-eyju í Austurlöndum fjær þar sem Exxon stundar mikla vinnslu. Árið 2011 stjórnaði Pútín athöfninni þegar ritað var undir samning milli Exxons og rússneska ríkisolíufyrirtækisins Rosnefts sem veitti Exxon aðgang að Norður-Íshafi þar sem ef til vill má vinna milljarða tunna af olíu. Tveimur árum síðar sæmdi Pútín forstjóra Exxon Vináttuorðunni, einu æðsta rússneska heiðursmerki sem veitt er útlendingum.

Haft er eftir Alexei Pushkov, þingmanni sem situr í varnar- og öryggismálanefnd efri deildar rússneska þingsins, að tilnefning Tillersons sé „stórviðburður“. Konstantin Von Eggert, fyrrverandi yfirmaður Exxon í Rússlandi, segir að bæði Pútín og Igor Setsjín, forstjóri Rosnefts, sem hafa unnið saman síðan á tíunda áratugnum líti á Tillerson sem „frábæran, jarðbundinn Texasbúa með mjög markvissa afstöðu“.

Fréttaskýrendur Bloombergs segja að Pútín hafi opinberlega hrósað og borið lof á Tillerson sem hann geri sjaldan. Þeir vísa í útskrift frá fundi þeirra í Kreml árið 2012 þar sem Pútín segir í upphafi: „Hr. Tillerson það gleður mig mjög að hitta yður. Hér er um annan fund okkar á skömmum tíma að ræða og á því er góð skýring: unnið er að því að skapa enn nánari tengsl milli fyrirtækis yðar og þátttakenda á Rússlandsmarkaði.“

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …