Home / Fréttir / Macron ýjar að evrópskum kjarnorkuvörnum gegn Rússum

Macron ýjar að evrópskum kjarnorkuvörnum gegn Rússum

Emmanuel Macron flytur ræðu í Sorbonne-háskóla 24. apríl 2024.

Emmanuel Macron Frakklamdsforseti sagði laugardaginn 27. apríl í samtali við frönsku Ebra-héraðsblaðakeðjuna að hann vildi að rætt yrði um evrópskt varnarsamstarf sem næði til kjarnavopna auk þess sem treyst yrði á langdrægar gagneldflaugar.

Franskir stjórnarandstæðingar brugðust harkalega gegn ummælum forsetans sunnudaginn 28. apríl.

„Franskur þjóðhöfðingi á ekki að tala á þennan veg,“ segir François-Xavier Bellamy, efsti maður á lista Lýðveldissinna, Les Républicains (LR), í kosningunum til ESB-þingsins sem verða 9. júní.  „Yfirlýsingin vegur sérstaklega þungt vegna þess að hún snertir sjálfan kjarna fullveldis Frakklands.“

Flokkarnir til hægri, Rassemblement national (RN), flokkur Marine Le Pen, og vinstri, France insoumise (LFI), flokkur Jean-Lucs Mélenchons, gagnrýna forsetann einnig harðlega.

Emmanuel Macron ræddi við fulltrúa ungra Evrópubúa föstudaginn 25. apríl og birtist frásögn af samtalinu í Ebra-héraðsblöðunum í Est-Bourgogne-Rhône-Alpes. Macron ræðir þar enn og aftur um öryggi Evrópu en allt sem um það er sagt snertir viðkvæman streng í Frakklandi og annars staðar í álfunni.

„Ég er tilbúinn til að opna umræður um eldflaugavarnir, beitingu langdrægra flauga, kjarnavopn fyrir þá sem eiga þau eða hafa heimilað Bandaríkjamönnum að setja þau niður í löndum sínum. Leggjum allt á borðið og skoðum það sem verndar okkur í raun á trúverðugan hátt,“ sagði Frakklandsforseti. Hann bætti við að Frakkar myndu gæta sérstöðu sinnar en væru tilbúnir til að leggja sitt af mörkum til að verja Evrópu.

Frá því að Bretar yfirgáfu Evrópusambandið ráða Frakkar einir yfir kjarnavopnum innan þess. Viðræður standa þó yfir við bresk stjórnvöld um öryggismál einkum innan ramma Evrópska stjórnmálavettvangsins , Communauté politique européenne (CPE). Macron átti frumkvæði að stofnun hans.

Í ræðu sem Emmanuel Macron flutti í Sorbonne-háskóla í París fimmtudaginn 24. apríl hvatti hann til „öflugrar Evrópu“ og að til yrðu „trúverðugar“ varnir Evrópu við hlið NATO og andspænis Rússlandi sem hefði orðið meira ógvekjandi en áður eftir innrás rússneska herins í Úkraínu snemma árs 2022.

„Í þessu kann að felast uppsetning á eldflaugaskildi en hann verður sð tryggja varnir gegn öllum flaugum og fæla frá notkun kjarnavopna,“ sagði Emmanuel Macron við fulltrúa Ebra-keðjunnar. „Það verður enginn trúverðugur án þess að eiga einnig langdrægasr flaugar sem halda Rússum í skefjum. Að því er varðar kjarnavopn er það stefna Frakka að þeim megi beita þegar lífshagsmunum okkar er ógnað. Ég hef þegar sagt að þessir lífshagsmunir hafi evrópska vídd,“ áréttaði forsetinn.

Macron vék einnig að kjarnorkuherafla Frakka í ræðu sinni í Sorbonne: „Fælingarmáttur kjarnavopna er í raun þungamiðjan í vörnum Frakklands. Hann er þess vegna óhjákvæmilegur liður í vörnum meginlands Evrópu.“

Frakkar hafa áratugum saman haft áhuga á að stofna til varnarsamstarfs Evrópuríkja. Þeir hafa löngum talað fyrir daufum eyrum þeirra sem telja að með því yrði vegið að samstarfinu innan NATO. Nú kunna hugmyndir Frakklandsforseta að hafa annan og betri hlómgrunn vegna innrásar Rússa í Úkraínu og hugsanlegrar endurkomu Donalds Trumps í embætti Bandaríkjaforseta.

Heimild: Le Figaro

 

 

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …