Home / Fréttir / Macron vill sterka og sjálfstæða ESB-rödd á alþjóðavettvangi

Macron vill sterka og sjálfstæða ESB-rödd á alþjóðavettvangi

Emmanuel Macron

Emmanuel Macron Frakklandsforseti efndi til blaðamannafundar fimmtudaginn 9. desember og hvatti til þess að Evrópusambandið breyttist úr „samstarfsvettvangi um innri málefni Evrópu í öfluga, virka Evrópu á alþjóðavettvangi, fullvalda, frjálshuga við ákvarðanir sínar og sinnar eigin gæfu smiður“.

Macron efnir sjaldan til blaðamannafunda en tilefnið að þessu sinni var að kynna stefnu stjórnar sinnar í forsæti leiðtoga- og ráðherraráðs ESB fyrstu sex mánuði næsta árs, 2022. Hann sagði að kjörorð ESB undir forsæti Frakka yrði „endurnýjun, vald og hlutdeild“.

Fundur forsetans með blaðamönnunum stóð í meira en tvær klukkustundir. Fyrri helmingur hans snerist um ræðu Macrons og vilja hans til að knýja fram „evrópskt fullveldi“ sem einu leiðina til að Evrópa gæti látið að sér kveða milli valdboðsstjórnenda Kína og ráðamanna Bandaríkjanna sem beindu athygli sinni sífellt meira að öðru en Evrópu.

Roger Cohen, fréttamaður The New York Times, á fundi Macrons segir að mörgum Evrópumönnum finnist þeir ekki geta treyst Bandaríkjamönnum sem bandamanni eða verndara auk þess sem efnahagsleg og hugmyndafræðileg ógn stafi af Kínverjum. Af þessum sökum verði Evrópa að auka sjálfstæði sitt. Stóra spurningin sé hvort aðrar þjóðir, einkum Þjóðverjar, séu sammála Macron.

Þjóðverjum sem sé sumum skapi næst að fara með veggjum kunni að þykja Macron einum og kokhraustur.

Nú eru 13 ár frá því að Frakkar fóru síðast með pólitíska forystu innan ESB. Á forystutíma þeirra nú verður efnt til forsetakosninga í Frakklandi, í apríl 2022. Macron (43 ára) hefur ekki enn skýrt opinberlega frá framboði sínu til endurkjörs. Talið er að hann staðfesti ekki fyrr en á fyrstu vikum næsta árs að hann sé reiðubúinn að sitja fimm ár til viðbótar í forsetaembættinu, fái hann til þess stuðning.

Macron hefur orð á sér fyrir að tala loðið um erfið málefni og er þess vegna stundum kallaðar „á-hinn-bóginn forsetinn“ segir Cohen en minnir á að Macron hafi aldrei hvikað frá stuðningi sinum við samstarfið á vettvangi ESB og þróun þess hvað sem líði háværri gagnrýni hægrisinnaðra franskra þjóðernissinna. Hann hefur lengi talað fyrir „strategísku sjálfræði“ Evrópu, það er að álfan eigi minna undir varnarsamstarfi við Bandaríkjamenn.

Cohen segir að hugsanlega höfði það til mið-hægri kjósenda að Frakkar láti meira að sér kveða sem forysturíki í Evrópu. Brotthvarf Angelu Merkel úr þýska kanslaraembættinu auku svigrúm Macrons til að láta meira til sín taka innan ESB.

Það sem Macron boðaði á blaðamannafundinum sýni að hann ætli ekki að sitja auðum höndum á forsetastóli inann ESB. Hann ætli að boða til leiðtogafundar ESB með Afríkuþjóðum í febrúar til að „endurreisa“ samstarf við þær með tilboði um efnahagsaðstoð. Í mars verði ESB-leiðtogaráðsfundur um öryggismál til að samhæfa heræfingar og vopnaframleiðslu. Lagður verður grunnur að „stafrænu veldi“ Evrópu. Stofnað verði til sex mánaða námskeiða fyrir Evrópubúa undir 25 ára aldri til að þjálfa þá í „evrópskri samfélagsþjónustu“. Gæsla ytri landamæra ESB verði hert til að hefta straum farenda til Evrópu.

„Ég er stoltur Evrópubúi,“ sagði Macron þegar hann lýsti samstöðunni sem myndast hefði innan ESB gegn farsóttinni. „Evrópa er falleg. Taki maður að sér að verja Evrópu verður að verja hana fullkomlega. Það verður að bregðast við göllum hennar, skrifræðisflækjunum, því sem fer úrskeiðis.“

Macron talaði kaldhæðnislega um Breta sem hafa átt í ýmsum útistöðum við Frakka síðan þeir fóru úr ESB, um fiskveiðar, ólöglegar ferðir farenda yfir Ermarsund og önnur mál.

Hann sakaði Breta um að starfrækja hagkerfi sem væri „reist á ólöglegum störfum útlendinga“. Hann gaf til kynna að ekki væri unnt að treysta í „góðri trú“ á Boris Johnson forsætisráðherra. Hann sagðist ekki geta gleymt því hvaða leik Bretar léku þegar þeir og Bandaríkjamenn seldu kjarnorkuknúna kafbáta til Ástrala og útilokuðu þannig Frakka frá því að selja þeim dísilknúna kafbáta.

Með þessum kafbátasamningi hefði vísvitandi verið grafið undan „stefnu Frakka á Indlands-Kyrrahafssvæðinu“ og í honum fælist ekki vinarbragð svo að vægt væri til orða tekið.

 

Heimild: The New York Tmes.

 

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …