Home / Fréttir / Macron vill rannsókn á ákærumeðferð gegn helsta andstæðingi sínum

Macron vill rannsókn á ákærumeðferð gegn helsta andstæðingi sínum

François Fillon
François Fillon

 

Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur mælst til rannsóknar á fullyrðingu saksóknara um að beitt hafi verið þrýstingi um hraða afgreiðslu á fjársvikakæru gegn François Fillon, fyrrv. forsætisráðherra, og helsta keppinaut Macrons í forsetakosningunum vorið 2017.

Margir töldu Fillon öruggan sigurvegara kosninganna þar til blað birti frásögn þar sem fullyrt var að hann hefði til málamynda ráðið eiginkonu sína í starf aðstoðarmanns síns sem þingmanns og þar með tryggt henni hundruð þúsunda evra í greiðslur úr ríkissjóði.

Dóms í máli á hendur Fillon vegna kærunnar er vænst 29. júní en undanfarið hefur Fillon staðfastlega neitað allri sök í réttarsalnum og sagt að hann sé fórnarlamb pólitískra undirmála.

Nýr flötur opnaðist á málinu fyrir fáeinum dögum þegar fyrrverandi yfirmaður ákærusviðs frönsku efnahagsbrotadeildarinnar sagði að hún hefði verið beitt „þrýstingi“ og mátt sæta „mjög strangri umsjón“ til að birta sem fyrst formlega kæru á hendur Fillon.

Stuðningsmenn Fillons gripu ummælin á lofti og sögðu þau til marks um að yfirmenn saksóknarans hefðu, hugsanlega hvattir af embættismönnum dómsmálaráðuneytisins, vegið að sjálfstæði ákæru- og dómsvaldsins til að flýta fyrir falli Fillons.

Hann sætti kæru sex vikum eftir að fullyrðingarnar um fjársvik birtust í vikublaðinu Le Canard Enchaîné. Þótti ákæruvaldið hraða málinu einstaklega mikið miðað við að venjulega eru mál mánuðum saman að velkjast í franska kerfinu.

Yfirmaður allra saksóknara í París segist ekki hafa beitt neinum þrýstingi í málinu og föstudaginn 19. júní reyndi fyrrverandi saksóknari efnahagsbrotadeildarinnar, Eliane Houlette, að draga í land og sagðist „harma“ að orð hennar hefðu verið „afflutt eða misskilin“.

Hvellurinn sem varð vegna þessa leiddi hins vegar til þess að síðla dags föstudaginn 19. júní tilkynnti forsetaskrifstofan að Macron hefði beðið æðsta eftirlitsráð réttarvörslunnar að kanna réttmæti orða Houlette.

„Þessar fullyrðingar sem vakið hafa hávær mótmæli eru túlkuð á þann veg að þrýstingi kunni að hafa verið beitt á réttarvörsluna á viðkvæmu stigi í lýðræðislegu ferli okkar. Það er þess vegna óhjákvæmilegt að eyða öllum efasemdum um sjálfstæði og hlutleysi réttarvörslunnar í þessu máli,“ sagði í yfirlýsingu frá forsetahöllinni.

Í málinu krefst ákæruvaldið þess að Fillon (66 ára) verði dæmdur í fimm ára fangelsi, þar af þrjú ár skilorðsbundið. Þá verði Penelope, kona hans, dæmd í þriggja ára skilorðsbundið fangelsi.

Fillon er sakaður um að hafa greitt konu sinni 613.000 evrur (tæplega 85 m. kr. ísl. kr.) á 15 árum fyrir gervistarf. Hjónin hefðu ekki lagt fram neinar haldbærar sannanir um að hún hefði unnið eitthvað sem máli skipti.

Skoða einnig

Úkraína hefur aldrei staðið nær NATO

Tveggja daga fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna lauk í Brussel miðvikudaginn 29. nóvember. Þar var fjallað um …