
Emmanuel Macron Frakklandsforseti var í vikunni í austurhluta Evrópu í því skyni að hvetja til þess að íbúar þar leiti frekar að vinnu heima hjá sér en sæki til vesturhluta álfunnar.
Þegar Macron hitti Christian Kern, kanslara Austurríkis, í Salzburg miðvikudaginn 23. ágúst urðu þeir fljótt sammála um að gera yrði ráðstafanir til að sporna við komu „ódýrs vinnuafls“ til landa Vestur-Evópu. Slóvakar og Tékkar studdu þessa afstöðu einnig á fjögurra ríkja fundi í Salzburg.
Robert Fico, forsætisráðherra Slóvakíu, vakti þó máls á því að ekki yrði unnt að gera neitt samkomulag um þetta innan ESB nema Ungverjar og einkum Pólverjar yrðu aðilar að því. Fico taldi að Beata Szydlo, forsætisráðherra Póllands, mundi enn á ný hafna öllu sem hún teldi brjóta gegn hagsmunum Pólverja en mikill fjöldi þeirra starfar á Vesturlöndum. Sömu sögu er að segja um Ungverja.
Szydlo áréttaði andstöðu stjórnar sinnar á blaðamannafundi fimmtudaginn 24. ágúst, sama dag og Macron hitti Klaus Iohannis, forseta Rúmeníu, í Búkarest. Á fundinum með rúmenska forsetanum naut Macron ekki sama skilnings og í Salzburg. Sömu sögu er að segja um það sem gerðist á fundi hans föstudaginn 25. ágúst í Varna í Búlgaríu.
Rúmeninn Iohannis og Rumen Radev, forseti Búlgaríu, viðurkenndu í samtölum við Macron að þeir vildu útrýma „ódýru vinnuafli“ innan ESB. Þeir bentu hins vegar á að innan ESB hefðu fyrirtæki rétt til samkeppni og réttur launþega væri tryggður með gildandi ESB-reglum. Þessar reglur bæri að virða.
Til að vinna stuðning ráðamanna í Rúmeníu og Búlgaríu við breytingu á ESB-reglunum sagðist Macron styðja tilraunir þeirra til að fá aðild að Schengen-svæðinu.
Í skýringu þýsku fréttastofunnar Deutsche Welle (DW) er tekið fram að líta verði á þessa för Macrons og baráttuna gegn „ódýru vinnuafli“ sem hluta af viðleitni hans til að draga athygli að þessari ástæðu fyrir miklu atvinnuleysi í Frakklandi sem rekja megi til langvinns kerfisvanda á frönskum vinnumarkaði. Forsetinn sé í raun að gera minna úr kerfisvandanum á þennan hátt. Þá kjósi Macron markvisst að horfa fram hjá því að franskar risa-verslunarkeðjur eins og Carrefour og Acron hafi ýtt veikburða heimafyrirtækjum næstum alveg út af markaði í austurhluta Evrópu. Þetta séu reglur fjórfrelsisins á evrópska efnahagssvæðinu (EES) sem gagnist frönskum fyrirtækjum vel. Segir í fréttaskýringunni að versta leiðin til „umbóta“ á vinnumarkaðnum innan ESB yrði að grípa til verndaraðgerða.
Það sé skiljanlegt að Macron hafi orðið vandræðalegur í Varna þegar hann frétti af afstöðu pólsku ríkisstjórnarinnar. Vissulega sé rétt hjá honum að Pólverjar „ráði ekki för í Evrópu“ segir DW.
Frakkar einir geti þó ekki mælt fyrir um stefnu ESB. Innan sambandsins verði menn að koma sér saman um leiðir til að draga úr félagslegum ójöfnuði innan sambandsins. Ferð franska forsetans til mið- og austurhluta Evrópu ýti vissulega undir umræður um þennan vanda en langt sé í land og vonlaust fyrir Macron að búast við niðurstöðu fyrir lok þessa árs.