Home / Fréttir / Macron skorar Bardella á hólm til að veikja Marine Le Pen

Macron skorar Bardella á hólm til að veikja Marine Le Pen

Jordan Bardella

Jordan Bardella er formaður frönsku Þjóðarhreyfingarinnar og til hans er litið sem mannsins sem sigraði Emmanuel Macron Frakklandsforseta í ESB-þingkosningunum sunnudaginn 9. júní. Úrslitin í Frakklandi, þar sem Þjóðarhreyfingin fékk 31,36% atkvæða en flokkur Macrons aðeins 14,60%, urðu til þess að Macron rauf þing og boðaði til kosninga. Fyrri umferð þeirra verður 30. júní en sú síðari 7. júlí.

Jordan Bardella er aðeins 28 ára. Hrífandi persónuleiki hans og boðskapur um nýjar lausnir í stað gamalgróinna viðhorfa laða að honum fylgi. Hann varð formaður Þjóðarhreyfingarinnar (Rassemblement National, RN) árið 2022. Eftir að hafa sigrað Macron og miðjubandalag hans nú 9. júní sagði hann:

„Landsmenn okkar hafa látið í ljós ósk um breytingar. Emmanuel Macron er í kvöld máttvana forseti.“

Bardella er sonur ítalskra innflytjenda. Hann fæddist í úthverfi Parísar árið 1995. Stjórnmálaframi hans hefur verið einstaklega hraður. Ofbeldisfull mótmæli í borgum og bæjum Frakklands árið 2005, þegar hann var aðeins 10 ára, höfðu djúp áhrif á hann. Sjö árum síðar gekk hann til liðs við Þjóðarhreyfinguna undir forystu Marine Le Pen.

Hann hætti námi í landafræði 19 ára til að geta helgað sig stjórnmálum. Hann gegndi störfum aðstoðarmanns fyrir héraðsstjórnarmenn flokksins, varð talsmaður flokksins og varaformaður áður en hann varð oddviti hans í ESB-þingkosningunum 2019 aðeins 23 ára.

Í nóvember 2022 var hann kjörinn formaður Þjóðarhreyfingarinnar þegar Marine Le Pen gaf ekki lengur kost á sér í embættið. Ári síðar var hann að nýju tilnefndur sem oddviti flokksins í ESB-kosningum. Bardella er fyrsti leiðtogi Þjóðarhreyfingarinnar sem er ekki í Le Pen-fjölskyldunni en faðir Marine Le Pen, Jean-Marie Le Pen (95 ára), stofnaði flokkinn 1972 og var formaður hans til 2011 þegar dóttir hans, Marine, tók við af honum. Hún rak föður sinn síðan úr flokknum árið 2015 til að hreinsa af honum stimpil öfgafulls hægriflokks. Þá var nafni flokksins einnig breytt í sama skyni úr Front National (Þjóðfylking) í Rassemblement National (Þjóðarhreyfing).

Í tvennum síðustu forsetakosningum hefur Marine Le Pen komist í aðra umferð kosninganna en tapað fyrir Emmanuel Macron. Hún er nú formaður þingflokksins á franska þjóðþinginu og talið er víst að hún reyni að nýju fyrir sér í forsetakosningum árið 2027.

Bardella hefur endurnýjað flokkinn sem var eins konar heimilisiðnaður Le Pen-fjölskyldunnar í smáhöll hennar í dýru hverfi höfuðborgarinnar. Hann lætur verulega að sér kveða í fjölmiðlum og þykir standa sig vel í sjónvarpskappræðum. Þá nýtir hann sér samfélagsmiðla og er með meira en eina milljón fylgjendur á TikTok sem hann segist nota til að ná til ungs fólks sem sé áhugalaust um stjórnmál þar til vakin sé athygli þess á þeim með því að beita tónlist og myndskeiðum.

Í kosningabaráttunni núna lagði Jordan Bardella áherslu á að takmarka ætti ferðir farandfólks um Evrópu með hertri landamæravörslu auk þess sem afturkalla ætti ýmsar ESB-reglur í loftslagsmálum.

Þjóðarhreyfingin hefur sagt skilið við gömul Le Pen-baráttumál eins og andstöðu við ESB og evruna en sett sér það markmið að vinna gegn valdi ESB innan frá í sambandinu. Þegar Bardella var sakaður um það í sjónvarpsumræðum að hann vildi afmá ESB svaraði hann: „Ég er ekki á móti Evrópu [les: ESB], ég er andvígur því hvernig Evrópa vinnur.“

Til að styrkja áhrifastöðu sína á ESB-þinginu að loknum kosningum snerist Bardella gegn þýska AfD-flokknum í kosningabaráttunni og sagðist ekki vilja vinna með honum á ESB-þinginu.

Bardella hefur ekki látið mikið að sér kveða á ESB-þinginu. Hann hefur ekki kynnt nein mál og tekur sjaldan þátt í fundum þingnefndar sinnar þar. Hann er gagnrýndur fyrir að nýta tímann mest til að auglýsa eigið ágæti í stað þess að sökkva sér ofan í flókin og brýn pólitísk úrlausnarefni. Hefur honum verið líkt við „þingvofu“ vegna þess hve lítið hefur sést til hans á ESB-þinginu undanfarin fimm ár.

Svar Macrons

Frakklandsforseti hefur ekki gripið til þess ráðs að rjúfa þing í því skyni að „hreinsa pólitíska andrúmsloftið“ síðan Jacques Chirac gerði það árið 1997. Þingkosningarnar þá leiddu ekki til neinnar óskastöðu fyrir forsetann. Hægrimaðurinn Chirac neyddist til að tilnefna sósíalistann Lionel Jospin forsætisráðherra. Þá ríkti svonefnd cohabitation við stjórn Frakklands, það er sambúð hægrimanns sem forseta og sósíalista sem forsætisráðherra.

Þótt Macron óski þess núna að kosningar 30. júní og 7. júlí verði til að styrkja miðjuna á franska þinginu er alveg eins víst að Þjóðarhreyfingin, sem nú er með 88 þingmenn, eignist stærsta þingflokkinn eftir kosningarnar.

Þá yrði Macron að fela opinberum leiðtoga Þjóðarhreyfingarinnar, Jordan Bardella, umboð til að mynda stjórn og til sögunnar kæmi cohabitation að nýju.

Macron telur að við þær aðstæður neyðist Þjóðarhreyfingin að horfast í augu við staðreyndir og raunveruleg úrlausnarefni sem minnki trú fólks á getu flokksins til stjórnarathafna og dragi jafnframt úr áhuga á að kjósa Marine Le Pen sem forseta árið 2027. Kannanir benda nú til þess að hún yrði kosin forseti.

Macron tapaði hreinum meirihluta á þingi sumarið 2022 eftir að hann var kjörinn forseti öðru sinni. Síðan hefur loft verið lævi blandið í neðri deild franska þingsins og oft legið við upplausn þegar brugðið er fæti fyrir stjórnarfrumvörp. Hugsanlegt er að ástandið á þingi verði enn verra með Jordan Bardella sem forsætisráðherra undir stöðugum árásum róttækra vinstrisinna.

Heimild: Euronews – Spectator

Skoða einnig

Sögulegt samkomulag í stórþinginu um stórauknar varnir Noregs

Norska stórþingið samþykkti einróma þriðjudaginn 4. júní langtímaáætlun í varnarmálum. Þingmenn eru meðal annars sammála …