Home / Fréttir / Macron skipar nýjan forsætisráðherra fyrir þingkosningar

Macron skipar nýjan forsætisráðherra fyrir þingkosningar

Elisabeth Borne, nýr forsætisráðherra Frakklands.

Elisabeth Borne (61 árs) var skipuð forsætisráðherra Frakklands mánudaginn 16. maí. Er hún önnur konan til að gegna embættinu. Edith Cresson var forsætisráðherra 1991 til 1992 þegar sósíalistinn François Mitterrand var forseti.

Borne hvarf úr embætti vinnumálaráðherra í fráfarandi stjórn Jeans Castex forsætisráðherra sem baðst lausnar að morgni 16. maí. Næstu daga velja Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Borne ráðherra í nýja ríkisstjórn sem hefur það meginhlutverk að búa í haginn fyrir flokk Macrons í þingkosningunum sem verða í júní.

Emmanuel Macron lýsti verkefnum ríkisstjórnarinnar með þessum orðum á Twitter:

„Umhverfismál, heilbrigðismál, menntamál, full atvinna. lýðræðisleg endurvakning, Evrópa og öryggi: sameiginlega, með nýju ríkisstjórninni, munum við halda áfram að vinna sleitulaust fyrir frönsku þjóðina.“

Sem vinnumálaráðherra frá árinu 2020 hefur Borne hrundið í framkvæmd breytingum sem gera erfiðara fyrir fólk án starfs að fá bætur og lækka mánaðarlegar greiðslur til sumra atvinnulausra. Fyrir þetta hefur hún sætt gagnrýni verkalýðsfélaga og vinstrisinna.

Þegar hún var samgönguráðherra árið 2018 glímdi Borne við víðtækt verkfall af hálfu SNCF járnbrautarfélagsins sem lagðist gegn áformum um að samkeppni hæfist í járnbrautarrekstri auk þess sem ríkisstjórnin ákvað að skerða rétt nýráðinna starfsmanna SNCF til ýmissa fríðinda og til að halda starfi sínu til æviloka. Borne tókst að fá ákvæði um þetta lögfest að lokum.

Borne hallaðist til vinstri á árum áður og starfaði meðal annars sem hægri hönd sósíalistans Ségolène Royal og var umhverfisráðherra í ríkisstjórn í forsetatíð sósíalistans François Hollande. Borne hefur sjálf aldrei verið í framboði.

Árið 2015 varð hún forstjóri ríkisrekna samgöngufyrirtækisins RATP sem rekur jarðlestakerfið í París.

Hún gekk til liðs við miðjuflokk Macrons árið 2017. Fyrst sem samgönguráðherra og síðan ráðherra umhverfisbreytinga í fyrsta ráðuneyti Macrons.

Jean Catex baðst lausnar mánudaginn 16. maí til að gera Macron kleift að fylkja nýju ráðherraliði til baráttu fyrir þingkosningarnar. Það tíðkast í Frakklandi að fleiri en einn forsætisráðherra sitji á hverju kjörtímabili.

Í þingkosningunum í júní ræðst hver fær meirihluta í þjóðþinginu sem á lokaorð um lagasetningu í Frakklandi.

Macron hefur lofað lagafrumvarpi til að stemma stigu við hækkun almenns verðlags í Frakkland á matvörum og eldsneyti. Nýja ríkisstjórnin undirbýr það og verður frumvarpið lagt fyrir þing strax að loknum kosningum til þess.

Fái flokkur Macrons meirihluta á þingi verður Borne að sjá til þess að loforð hans um breytingar á eftirlaunalögum verði samþykkt, þar á meðal að eftirlaunaaldur verði hækkaður úr 62 árum í 65. Tillagan um það sætir þungri gagnrýni frá verkalýðsfélögum og vinstrisinnuðum kjósendum.

Þá lofaði Macron að nýi forsætisráðherrann færi sjálf með stjórn „grænna áætlana“ sem miða að því að hraða framkvæmd loftslagsáforma í Frakklandi. Hefur Macron lofað að „tvöfalda hraða“ við að hefta útblástur gróðurhúsalofttegunda á öðru kjörtímabili sínu.

Skoða einnig

Rússar við Kharkiv – Úkraínumenn sækja á Krím

Rússar hafa sótt fram á nokkrum stöðum í Úkraínu undanfarna daga en yfirhershöfðingi NATO í …