Home / Fréttir / Macron skensar Trump vegna loftslagsmálanna

Macron skensar Trump vegna loftslagsmálanna

Traust handtak Trumps og Macrons í Brussel.
Traust handtak Trumps og Macrons í Brussel.

Eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti að Bandaríkin yrðu ekki lengur bundin af Parísar-samkomulaginu um loftslagsmál sagði Emmanuel Macron Frakklandsforseti að vonsviknir Bandaríkjamenn gætu komið til Frakklands og fengið störf þar.

Fréttin um þetta varð til þess að í blaðinu The Washington Post birtist grein þar sem sagði að drengjalegi og myndvæni nýi Frakklandsforsetinn Emmanuel Macron væri orðinn eftirlæti og helsti talsmaður hófsamra stjórnmálaáhugamanna um heim allan, eldheitur talsmaður „róttækrar miðjustefnu“, hnattvæðingar og baráttu gegn loftslagsbreytingum.

Minnt er á að  Macron hafi staðið uppi í hárinu á tveimur forsetum Trump og Vladimír Pútín Rússlandsforseta frá því að hann tók við embætti en báðir aðhyllist þeir þröngsýna þjóðernisstefnu sem Macron sigraði í frönsku forsetakosningunum.

Með sex sekúnda handartaki með Trump og gagnrýni á rússneska fjölmiðla á blaðamannafundi við hliðina á Pútín segir blaðið að Macron hafi heillað stuðningsmenn sína heima fyrir og orðið að enn meiri stjörnu á samfélagsmiðlum. Álitsgjafar telji þó að þetta leiði ekki sjálfkrafa til meiri áhrifa hans á alþjóðavettvangi, síst af öllu meðal andstæðinga sinna.

Dominique Moïsi, utanríkismálasérfræðingur við hugveituna Institut Montaigne í París, segir við The Washington Post: „Menn hafa á tilfinningunni að enn einu sinni hafi Macron verið ótrúlega heppinn. Innan lands falla andstæðingar hans einn af öðrum. Utan lands er svo forseti Bandaríkjanna sem gefur honum færi á að sýnast mikill án þess að hann þurfi einu sinni að hafa nokkuð fyrir því.“

Aðrir telja að samskipti Macrons við Trump í Brussel sýni ef til vill veika hlið á fágaðri framkomu forsetans. Eitt sé atvikið þegar þeir heilsuðust Macron og Trump annað að láta ekki fréttaskýrendur og álitsgjafa skýra gildi þess heldur fara sjálfur í viðtal við franska blaðið Journal du Dimanche og lýsa hvað fyrir sér vakti.

„Þetta var stund sannleikans,“ sagði Macron við blaðið. „Við verðum að sýna að við gefum ekkert eftir, ekki einu sinni neitt táknrænt.“

Aðstoðarmenn Trumps sögðu síðar við The Washington Post að ummæli Marcons hefðu farið verulega í taugarnar á forsetanum sem hefði svarað fyrir sig í ræðunni sem hann flutti um að hverfa frá Parísar-samkomulaginu með orðunum að hann hefði verið kosinn til að „koma fram fyrir íbúa Pittsburgh ekki Parísar“.

Sögunni lauk ekki með þessum orðum. Það liðu ekki nema fáeinar klukkustundir frá því að Trump flutti ræðu sína þar til Macron lét aftur til sín heyra og stílfærði kosningaslagorð Trumps með orðunum: „Gerum plánetuna okkar stóra að nýju“ á skýrri ensku áður en hann endurtók boð sitt til bandarískra umhverfisfræðinga. Frakklandsforseti sagði:

„Allir vísindamenn, verkfræðingar, frumkvöðlar, ábyrgir borgarar sem hafið orðið fyrir vonbrigðum með ákvörðun Bandaríkjastjórnar, komið hingað og starfið með okkur að markvissum lausnum í þágu loftslags okkar, umhverfis okkar.“

Bandaríska blaðið segir að í París telji margir að með þessu vilji Macron enn auka vinsældir sínar heima fyrir vegna þingkosninganna 11. júní. Hann verði að fá starfhæfan meirihluta á þingi til samstarfs við sig til að ná fram stefnu sinni.

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …