
Emmanuel Macron Frakklandsforseti var í Kiev þriðjudaginn 8. febrúar og ræddi í þrjár klukkustundir við Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseta um umsátur Rússa um Úkraínu og leið út úr því. Mánudaginn 7. janúar var Macron í Moskvu og ræddi við Vladimir Pútin Rússlandsforseta í fimm klukkustundir. Næst heldur Macron til Berlínar og hittir Olaf Scholz Þýskalandskanslara sem hátti fund með Joe Biden Bandaríkjaforseta í Washington mánudaginn 7. janúar.
Leiðtogar Frakklands og Þýskalands vilja gera Evrópuþjóðir og ESB gildandi í lausn umsátursins um Úkraínu. Á blaðamannafundi í Kiev sagði Macron að hann teldi unnt að halda áfram viðræðum og finna „raunhæfa, framkvæmanlega lausn“.
Á þessum sama blaðamannafundi sagði Zelenskíj að hann byggist við að „mjög bráðlega“ kæmi svonefndur Normandie-hópur saman til fundar en þar sitja fulltrúar Úkraínu, Rússa, Frakka og Þjóðverja.
Í flugvél á leið frá Moskvu fullyrti Macron að sér hefði tekist að tryggja að hættuástandið yrði „hvorki verra né stigmagnaðist“.
Hann sagði að fyrir sér hefði vakað að setja skorður við því að hitnaði frekar í kolunum og ýta undir ný viðhorf. Að sínu mati hefði þetta tekist.
Hann taldi að losa mætti um pattstöðuna þar sem „fjöldi tillagna“ hefðu orðið til í samtali hans við Pútin. Enginn hefði hag af því að „grafa undan stöðugleika í álfunni“. Nú yrði að hafa hraðar hendur til að hindra stigmögnun.
Frá frönsku forsetaskrifstofunni berast upplýsingar um að í tillögum Macrons felist að að báðir aðilar deilunnar skuldbindi sig til að hreyfa ekki frekar við herafla sínum, viðræður hefjist um hernaðarlega getu Rússa ásamt friðarviðræðum vegna deilunnar um Úkraínu og um framtíðarstefnu.
Taldi Macron að í viðræðum sínum við Pútin hefði fundist ákveðinn samhljómur sem ætti að nýta áfram. Hann sagði að Frakkar legðu áherslu á virðingu fyrir gildandi samningum.
Pútin féllst á að ýmsar af tillögum Macrons mætti nota sem grunn undir lausn deilunnar í austurhluta Úkraínu. Fundurinn með Macron hefði verið efnislegur og þeir myndu ræða nánar saman í síma síðar.
Franskur embættismaður sagði blaðamönnum að Macron og Pútin hefðu samið um að Rússar kölluðu her sinn frá Hvíta-Rússlandi þegar æfingum hans þar lyki. Dmitríj Peskov, talsmaður Kremlverja, neitaði hins vegar að nokkurt slíkt samkomulag hefði verið gert, þess væri hins vegar vænst að rússnesku hermennirnir sneru einhvern tíma aftur til Rússlands.
Scholz í Washington
Eftir fund sinn með Joe Biden Bandaríkjaforseta í Washington 7. febrúar sagði Olaf Scholz Þýskalandskanslari að Þjóðverjar og Bandaríkjamenn væru „algjörlega einhuga“ um refsiaðgerðir gegn Rússum.
Scholz gekk þó ekki eins langt og Bandaríkjaforseti sem sagði á sameiginlegum blaðamannafundi þeirra í Hvíta húsinu að „ekkert yrði af Nord Stream 2“ ef Rússar réðust inn í Úkraínu með „skriðdrekum eða hermönnum“.
Þjóðverjar og Bretar hafa ákveðið að senda viðbótar herafla til liðsafla NATO í austurhluta Evrópu. Fjölgað verður í þýska herliðinu í Litháen um 350 hermenn. Þeir starfa þar undir fána NATO.