Home / Fréttir / Macron segir „heiladauða“-ummælin um NATO skila árangri

Macron segir „heiladauða“-ummælin um NATO skila árangri

Jens Stoltenberg og Emmanuel Macron í París 28. nóvember 2019.
Jens Stoltenberg og Emmanuel Macron í París 28. nóvember 2019.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti og Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, hittust í Élysée-höll í París fimmtudaginn 28. nóvember til viðræðna um fyrirhugaðan leiðtogafund NATO miðvikudaginn 4. desember í London. Á fundi með blaðamönnum eftir samtal þeirra sagði Macron að hann stæði við það sem hann sagði í viðtali við The Economist 21. október sl., að NATO glímdi við „heiladauða“.

Frakklandsforseti sagði að orð sín hefðu verið, og hann notaði orðin á ensku, a wake up call, það er að hann hefði vakið samaðila sína innan NATO af værum blundi og hann væri „harla ánægður“ með árangurinn.

„Ég stend að öllu leyti við það sem ég gerði til að taka af öll tvímæli,“ sagði Macron á blaðamannafundinum með Stoltenberg. „Á okkur hvílir sú ábyrgð að láta ekki við það eitt sitja að ræða um fjárhagsleg málefni í ljósi raunverulegra viðfangsefna líðandi stundar.“

Í máli Stoltenbergs á fundinum kom fram að NATO væri „öflugt“ og bandalagsþjóðirnar ynnu meira saman en þær hefðu gert í áratugi. Hann sagði ekki óeðlilegt að ólíkra sjónarmiða gætti meðal 29 aðildarþjóða en við blasti að unnið yrði að því að færa sáttmála bandalagsins í nútímalegra horf.

Frakkalandsforseti lét gagnrýnisorð í garð Bandaríkjanna og NATO falla skömmu eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti kallaði bandaríska hermenn fyrirvaralaust heim frá norðaustur Sýrlandi. Þetta leiddi til þess að her NATO-ríkisins Tyrklands sótti inn í Sýrland gegn Kúrdum. Hvorki Bandaríkjamenn né Tyrkir höfðu samráð við bandamenn sína í NATO vegna þessara ákvarðana sinna.

Macron sagði að Tyrkir gætu ekki vænst þess að bandamenn þeirra í NATO sýndu þeim samstöðu um leið og þeir kynntu innrás í Sýrland sem orðinn hlut. Í fréttum er sagt frá því að Tyrkir segist ekki geta stutt áætlanir NATO til að auka öryggi Eystrasaltsþjóðanna og Póllands nema NATO-ríkin veiti Tyrklandsstjórn meiri pólitískan og hernaðarlegan stuðning í baráttunni við Kúrda í norðurhluta Sýrlands.

Í franska blaðinu Le Figaro segir fimmtudaginn 28. nóvember að líta verði á ummæli Emmanuels Macrons um „heiladauða“ NATO í ljósi hugmynda Frakklandsforseta um „evrópskan her“ sem hann kynnti í ágúst 2018. Hann óttist að Evrópa verði sett til hliðar af Bandaríkjamönnum og Kínverjum sem keppi nú sín á milli. Hann lýsi vonbrigðum með að innan ESB velti menn ekki lengur fyrir sér strategískum viðfangsefnum. ESB eigi að hafa hernaðarlega burði sjálft til að til að verja hagsmuni sína.

Gagnrýnendur Macrons segja að hann sendi skot í allar áttir í ræðum sínum. Það sé því ekki auðvelt að átta sig á hvað fyrir honum vaki. Hann er sakaður um að tala áður en hann hugsi mál til enda og það komi of mikið í hlut annarra að tína saman brotin sem eftir hann liggja.

Bent er á að með því að tala niðrandi um NATO veki hann andúð þjóðanna í austurhluta Evrópu sem líti á bandalagið og aðild sína að því sem lífsnauðsynlega öryggistryggingu gegn Rússum. Leiðtogar þessara landa sitji einnig við ESB-leiðtogaborðið og þeir geti þar sett fótinn fyrir Macron sé því að skipta. Hann stuðli þannig að sundrung innan ESB um leið og hann láti eins og fyrir sér vaki að ESB myndi sameinað, samhuga afl á alþjóðavettvangi.

 

 

 

 

Skoða einnig

Ísraelar hvattir til stillingar – þeir segjast taka eigin ákvarðanir

David Cameron, utanríkisráðherra Bretlands, sagði 17. apríl að loknum fundum með forsætisráðherra og utanríkisráðherra Ísraels …