
Emmanuel Macron Frakklandsforseti flutti ræðu föstudaginn 7. febrúar þar sem hann kynnti kjarnorkuvopnastefnu Frakka eftir að Bretar hverfa úr ESB. Frakkland er nú eina kjarnorkuveldið innan Evrópusambandsins. Forsetinn hvatti ESB-ríkin til að leggja meira af mörkum til að stöðva kjarnorkuvopnakapphlaupið, þau gætu ekki „áfram verið áhorfendur“ andspænis ógninni sem steðjaði að sameiginlegu öryggi þeirra.
Vegna skorts á samningsbundnum ramma kynnu ESB-ríkin skyndilega að standa frammi fyrir vígbúnaðarkapphlaupi á sviði venjulegra vopna og jafnvel einnig kjarnorkuvopna á eigin landsvæði. Ástandið kynni að taka á sig verstu mynd sem menn hefðu séð frá lokum sjöunda áratugarins.
„Lífsahagsmunir Frakka hafa nú evrópska vídd,“ sagði Macron. Evrópuríki ættu einnig að krefjast þess að koma að undirritun sérhvers nýs samnings sem sneri að takmörkun nýrra meðaldrægra vopna.
Macron sagði að nú þegar hefðu Frakkar fækkað kjarnaoddum sínum undir 300. Það veitti þeim lögmætan rétt til að krefjast þess af öðrum kjarnorkuveldum að þau stigu trúverðug skref í átt til afvopnunar og skrefin mætti sannreyna með eftirliti.
Macron bauð samstarfsþjóðum Frakka að taka þátt í „stefnumótandi skoðanaskiptum“ um fælingarhlutverk franska kjarnorkuheraflans nú þegar ráðist verður í kostnaðarsama endurnýjun hans.
Hann sagði að sjálfstæði Frakka til ákvarðana um beitingu herafla síns væri í fullu samræmi við óbifanlega samstöðu þeirra með evrópskum samstarfsþjóðum sínum.
Þá hvatti Macron til þess að Evrópuríki ykju svigrúm sitt til sjálfstæðra aðgerða en það krefðist aukinna útgjalda til hermála. Hann velti fyrir sér hvers vegna þjóðir vildu ekki forgangsraða í þágu varnarmála í fjárlögum sínum og færa nauðsynlegar fórnir, jafnvel á tímum vaxandi áhættu.
Frakkar hafa skapað sér nokkra sérstöðu meðal ESB-ríkja með því að ræða við Rússa og Vladimir Pútín Rússlandsforseta þrátt fyrir Úkraníu-þvinganirnar gegn Rússum af hálfu ESB-ríkja. Rússar ráða yfir mesta kjarnorkuherfla í heimi.
Frakklandsforseti sagði að ekki væri unnt að vinna að neinu raunhæfu verkefni í þágu öryggis og varna íbúa Evrópu án pólitískrar sýnar sem miðaði að því að skapa tarust gagnvart Rússum. Það væri ekki unnt að sætta sig við núverandi ástand þar sem ágreiningur ykist og samtölum fækkaði á sama tíma og öryggismálum sem yrði að ræða við rússnesk stjórnvöld fjölgaði.
Hann minnti á að frá árinu 1995 hefðu Frakkar og Bretar hvað eftir annað lýst yfir að ekkert ástand gæti skapast sem væri þess eðlis að ógn gegn lífshagsmunum annarrar þjóðarinnar ógnaði ekki jafnframt hinni. Þetta hefði alls ekki breyst við brexit, úrsögn Breta úr ESB.