
Emmanuel Macron Frakklandsforseti flutti sjónvarpsávarp að kvöldi mánudags 10. desember og lofaði 100 evru hækkun á lágmarkslaunum og ýmsum skattalækkunum fyrir eftirlaunaþega og annað láglaunafólk. Með þessu vildi hann slá á mótmælin sem sett hafa svip á franskt þjóðlíf síðan 17. nóvember.
„Við munum bregðast við efnahagslegri og félagslegri neyð með öflugum aðgerðum, með því að hraða skattalækkunum, með aðhaldi í útgjöldum okkar en ekki með U-beygju,“ sagði Macron.
Svonefndir gulvestungar hafa nú skapað stórvandræði víða um Frakkland fjórar helgar í röð með mótmælaaðgerðum sínum. Macron sagði að ekki væri á neinn hátt unnt að afsaka árásir á lögreglu eða opinberar byggingar. „Það verður að ríkja röð og regla,“ sagði forsetinn.
Hann sýndi á sér sáttahlið þegar hann sagði: „Ég skil að ég hafi sært einhver ykkar með yfirlýsingum mínum.“
Fyrr þennan sama mánudag hitti Macron þingmenn, fulltrúa launþega og atvinnurekenda til að ræða ólguna í þjóðlífinu. Hann sagðist ætla að hitta borgar- og bæjarstjóra og fá ábendingar um hvað betur mætti fara. Hann sagði að mótmælin ættu rætur í „deyfð í 40 ár“.
Fréttskýrendur benda á að viðleitni Macrons til að koma til móts við mótmælendur gæti orðið til þess að hallinn á ríkissjóði Frakklands yrði meiri en 3% af vergri landsframleiðslu (VLF) og bryti þannig gegn fjárlagareglum ESB. Franska stjórnin telur að hallinn verði 2,8% árið 2019.
Macron sagðist ekki mundu innleiða auðlegðarskattinn að nýju sem hann afnam í fyrra. François Mitterrand, fyrsti sósíalíski forseti Frakklands, innleiddi skattinn fyrir 30 árum. Macron breytti skattkerfinu á þann veg að það hvetti fólk til að festa fé sitt í hlutabréfum og skuldabréfum og efla þannig frönsk fyrirtæki.
Franskir sjónvarpsmenn fóru víða um land að loknu ávarpi forsetans til að kynnast viðhorfum gulvestunga og töldu margir þeirra ekki nóg að gert af hálfu forsetans. Gulvestungar hafa ekki valið sér neina sveit forystumanna heldur tengjast þeir innbyrðis á samfélagssíðum, utan hefðbundinna verkalýðsfélaga og stjórnmálaflokka.
Þróun mótmælahreyfingarinnar þykir minna nokkuð á leið Macrons sjálfs til valda en hann stofnaði eigin hóp í kringum forsetaframboð sitt snemma árs 2017 og síðan vegna kosninga til þings sumarið 2017. Hann hafnaði þá hefðbundinni flokkaskipan og kosningabaráttu en efndi til borgarafunda og lagði áherslu á að hann vildi hlusta á kröfur fólksins og hrinda þeim í framkvæmd.