
Bandaríkjamenn fara „eins fljótt og unnt er“ frá Sýrlandi segja embættismenn Bandaríkjaforseta. Þeir létu þessi orð falla aðeins nokkrum klukkustundum eftir að Emmanuel Macron Frakklandsforseti sagði í löngu sjónvarpssamtali að kvöldi sunnudags 15. apríl að hann hefði sannfært Donald Trump að halda bandaríska hernum áfram í Sýrlandi.
Macron skýrði ummæli sín mánudaginn 16. apríl á þann veg að það væri „rétt“ varðandi Bandaríkjamenn að segja að herleiðangur þeirra og Frakka til Sýrlands væri gegn Daesh (Ríki íslams) og honum lyki með ósigri hryðjuverkasamtakanna.
Grimmilegt borgarastríð hefur verið háð í Sýrlandi frá árinu 2011 þegar Bashar al-Assad Sýrlandsforseti missti stjórn á stórum hluta landsins í hendur fjölbreytts hóps byltingarsamtaka. Í áranna rás hafa erlend ríki dregist inn í átökin og fjöldi almennra borgara hefur fallið í þeim eða mátt þola miklar þjáningar.
Að kvöldi sunnudags 15. apríl efndi Sarah Sanders, blaðafulltrúi Trumps, til blaðamannafundar í Hvíta húsinu og sagði meðal annars:
„Verkefni bandaríska hersins hafa ekki breyst, forsetinn vill að hermennirnir snúi heim eins fljótt og unnt er. Við erum staðráðin í að gjörsigra Ríki íslams og skapa aðstæður sem gera þeim ókleift að snúa til baka. Auk þess væntum við þess að bandamenn okkar á svæðinu og samstarfsaðilar axli meiri ábyrgð bæði hernaðarlega og fjárhagslega til að skapa öryggi á svæðinu.“
Emmanuel Macron sat fyrir svörum í sjónvarpi að kvöldi sunnudags 15. apríl til að minnast þess að eitt ár var liðið frá því að hann varð forseti. Í samtalinu sagði hann: „Ég fullvissa ykkur, við höfum sannfært hann [Trump] um að vera til langframa“ í Sýrlandi.
Forsetinn sagðist hafa lagt áherslu á það við Bandaríkjmenn að loftárásirnar í Sýrlandi yrðu takmarkaðar við efnavopna stöðvar.
Mánudaginn 16. apríl skýrði Macron ummæli sín á þennan veg: „Ég
hef rétt fyrir mér þegar ég segi vegna þess að Bandaríkjamenn ákváðu að framkvæma árás hafi þeir áttað sig á að ábyrgð okkar nær lengra en til baráttunnar gegn Daesh og það séu einnig mannúðarverkefni í landinu og langtíma ábyrgð á að treysta frið í sessi.“
Innan Hvíta hússins hafi menn rétt til að minna á að hernaðaraðgerðirnar séu gegn Daesh og þeim ljúki sama dag og átökunum við Daesh ljúki. Þetta sé einnig afstaða Frakka. Sagðist Macron ekki hafa gefið neitt til kynna um breytingu í sjónvarpsviðtalinu.
Bandaríkjastjórn heldur úti um 2.000 sérsveitarmönnum í norðaustur Sýrlandi og starfa þeir með Sýrlenska lýðræðishernum (SDF), sem er blandaðar sveitir Kúrda og araba sem berjast gegn Daesh og reyna að ná stjórn á málum á svæðum sem hann stjórnar. Óþekktur fjöldi franskra sérsveitarmanna eru SDF til ráðgjafar við hlið Bandaríkjamanna. Á vegum Bandaríkjamanna og Frakka er haldið úti flugvélum til eftirlits og árása á Daesh. Þá er einnig litið svo á að viðvera Bandaríkjamanna og Frakka haldi aftur af Tyrkjum, Sýrlendingum og bandamönnum þeirra sem íhugi þeir að ráðast á SDF-svæði.
Emmanuel Macron fer í opinbera heimsókn til Washington þriðjudaginn 24. apríl. Macron verður fyrsti gesturinn sem Donald Trump tekur á móti með öllu því sem fylgir opinberri heimsókn.