Home / Fréttir / Macron missir gamlan stuðningsmann úr ríkisstjórn

Macron missir gamlan stuðningsmann úr ríkisstjórn

 

Gérard Collomb og Emmnanuel Macron.
Gérard Collomb og Emmnanuel Macron.

Emmanuel Macron, forseta Frakklands, tókst ekki að fá Gérard Collomb innanríkisráðherra til að sitja áfram í ríkisstjórninni. Hann sagði af sér miðvikudaginn 3. október og til að taka að nýju við embætti borgarstjóra í Lyon.

Í forsetakosningabaráttunni í ársbyrjun 2017 var Collomb (71 árs) meðal öflugustu stuðningsmanna Macron (40 ára) og talaði máli hans í fjölmiðlum og á fundum. Collomb felldi tár þegar Macron var settur í embætti og var sambandi þeirra líkt við samband föður og sonar.

Collomb er þriðji ráðherrann sem biðst lausnar á aðeins sex vikum. Í fyrri viku sýndu kannanir að aðeins 29% kjósenda bera traust til Macrons. Hefur stuðningur við hann aldrei verið minni.

Það er ásetningur Collombs að bjóða sig fram til endurkjörs í heimaborg sinni Lyon árið 2020 en embættinu hafði hann gegnt í 16 ár þegar hann varð ráðherra árið 2017.

Þrátt fyrir þessi áform var talið að Collomb gæti setið sem ráðherra fram yfir ESB-þingkosningarnar í maí 2019. Stóð hugur hans til þess en þá kom fram hörð gagnrýni þess efnis að öllum væri ljóst að hann mundi ekki leggja næga rækt við skyldur sínar sem ráðherra með hugann við borgarmálin í Lyon.

Í fjölmiðlum segir að samband Macrons og Collombs hafi versnað undanfarnar vikur. Collomb hafi gagnrýnt Macron fyrir að sýna „skort á auðmýkt“ í háu embætti sínu og stjórnarathöfnum. Collomb sagði einnig að þegar Macron talaði um Frakkland sem „start-up nation“ væri það til marks um að hann væri ekki lengur í tengslum við almenning.

Collomb varð fyrstur úr forystusveit franskra sósíalista til að lýsa yfir stuðningi við Macron fyrir forsetakosningarnar í apríl 2017 en þá hlaut Macron stuðning 66% kjósenda.

Macron hefur mistekist að blása nýju lífi í franska hagkerfið. Nú er aðeins spáð 1,6% hagvexti.

 

 

Skoða einnig

Koch-bræður styðja Nikki Haley gegn Trump

Í forkosningunum innan Repúblikanaflokksins í Bandaríkjunum um forsetaframbjóðanda 2024 gerðust þau stórtíðindi þriðjudaginn 28. nóvember …