Home / Fréttir / Macron „hélt andlitinu“ í síðari umferð þingkosninganna

Macron „hélt andlitinu“ í síðari umferð þingkosninganna

Emmanuel Macron á kjörstaðm 7. júlí 2024.

Útgönguspár að lokinni annarri umferð þingkosninganna í Frakklandi sýna að spár um að Þjóðarhreyfing Marine Le Pen fengi oddastöðu í frönskum stjórnmálum reynast rangar

Af 577 þingmönnum þarf 289 þingmenn til að fá hreinan meirihluta. Nú er Nýrri lýðfylkingu vinstri flokkanna (NFP) spáð flestum þingmönnum (188 til 199), miðjumönnum Macrons forseta næstflestum (164 til 169) og Þjóðarhreyfingu Le Pen þriðja sæti (135-143).

Emmanuel Macron Frakklandsforseti rauf þing eftir að flokkur hans galt afhroð fyrir Þjóðarhreyfingunni í ESB-kosningunum 9. júní.

Franska blaðið Le Figaro segir að Macron og flokkur hans „haldi andlitinu“ að lokinni annarri umferð þingkosninganna. Stjórnmálaskýrendur töldu kannanir og úrslit fyrri umferðar þingkosninganna 30. júní benda til þess að miðjan væri í lífshættu í seinni umferðinni 7. júlí. Útreiðin yrði svipuð og sósíalistar fengu í mars 1993 eftir tólf ára forsetatíð François Mitterrands.

Emmanuel Macron var gagnrýndur fyrir að sýna fljótræði og fífldirfsku með því að rjúka til og rjúfa þing 9. júní. Nú telja stjórnmálaskýrendur að honum hafi að nokkru tekist að skapa uppnám sér í hag með þingrofinu.

Þjóðarhreyfingin hafi fengið á baukinn og vegna innbyrðis sundurlyndis vinstri manna verði erfitt fyrir þá að koma sér saman um forsætisráðherraefni. Macron kunni að takast að kljúfa fylkingu þeirra. Rifjað er upp að hann hafi verið efnahagsráðherra með sósíalistum undir forystu François Hollandes sem forseta.

Hollande bauð sig fram til þings undir merkjum NFP núna og náði kjöri á þing. Hann sagði að úrslitin sýndu að tekist hefði að skapa jafnvægi meðal vinstrisinna en ekki væri komið að því að velja forsætisráðherraefni þeirra.

Macron hefur ekki haft meirihluta á þingi frá þingkosningum sumarið 2022 og orðið að semja til hægri. Nú er talið að hann semji til vinstri.

Gabriel Attal forsætisráðherra Frakklands segist biðjast lausnar mánudaginn 8. júlí en hann muni starfa sem forsætisráðherra eins lengi og þörf krefjist.

Skoða einnig

ESB-þingmenn hafna tillögum Orbáns um Úkraínu

Nýkjörið 720 manna ESB-þing kom saman til fyrsta fundar í Strassborg þriðjudaginn 16. júlí og …