Home / Fréttir / Macron heitir á Þjóðverja að endurnýja ESB

Macron heitir á Þjóðverja að endurnýja ESB

Emmanuel Macron í þýska þinginu.
Emmanuel Macron í þýska þinginu.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti var í Berlín sunnudaginn 18. nóvember til að að minnast loka fyrri heimsstyrjaldarinnar. Hann futti ræðu í þýska þinginu og hvatti til þess að Frakkar og Þjóðverjar endurnýjuðu náin tengsl sín til að styrkja lýðræðislega Evrópu til framtíðarverkefna.

Um leið og forsetinn vottaði látnum hermönnum virðingu sína sagði hann að Þjóðverjar og Frakkar yrðu að víkja sögu 200 ára „miskunnarlausra stríða“ til hliðar til að skapa „varanlegan frið“ og skapa „traustan grunn undir samvinnu á öllum sviðum“.

Forsetinn viðurkenndi að flókin verkefni, frá loftslagsbreytingum til útlendingamála, biðu úrlausnar í Evrópu en aðeins samstaða þessara tveggja nágrannaþjóða gæti minnkað líkur á upplausn í veröldinni enda ykist þá samstaða innan Evrópu og fullveldi álfunnar.

„Á Evrópu, og innan hennar fransk-þýska bandalaginu, hvílir sú skylda að boða leiðina til friðar,“ sagði forsetinn.

Hann hvatti til þess að Evrópuríki tækju á sig auknar skyldur í varnar- og öryggismálum og sagði að álfan mætti ekki „verða leiksoppur stórvelda … og ekki sætta sig við undirgefni í heimsstjórnmálum“.

Að lokinni þátttöku í minningarviðburðum í Berlín ræddi Macron við Angelu Merkel Þýskalandskanslara um umbætur á Evrópusambandinu.

Föstudaginn 16. nóvember samþykktu Frakkar og Þjóðverjar tillögu um sameiginleg fjárlög evru-ríkja innan heldarfjárlaga ESB. Með þessu er stefnt að því að tryggja varnir evru-svæðisins gegn fjármála- og efnahagssveiflum.

Þá voru leiddar líkur að því að Merkel og Macron ræddu áætlanir um evrópskan herafla þegar fram liðu stundir. Macron hreyfði þessari hugmynd og reitti Donald Trump Bandaríkjaforseta til reiði. Þjóðverjar vilja ekki skilja Frakka eina eftir en Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands, sagði föstudagnn 16. nóvember að Frakkar og Þjóðverjar færu fram úr sér í málinu, aðeins NATO gæti tryggt öryggi Evrópu á viðunandi hátt.

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …