Home / Fréttir / Macron Frakklandsforseti segir NATO glíma við „heiladauða“

Macron Frakklandsforseti segir NATO glíma við „heiladauða“

Emmanuel Macron á heræfingu.
Emmanuel Macron á heræfingu.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti segir í samtali við vikuritið The Economist fimmtudaginn 7. nóvember að Evrópuríki geti ekki lengur treyst því að Bandaríkjamenn komi bandamönnum sínum innan NATO til varnar. ESB sé þess vegna á „barmi hengiflugs“.

„Við stöndum núna frammi fyrir heiladauða NATO,“ segir Macron í samtalinu.

Þegar hann er spurður hvort hann treysti á 5. grein Atlantshafssáttmálans um „sameiginlegar varnir“ svarar Macron: „Ég veit það ekki en hvað mun fimmta greinin þýða á morgun?.“ Hann bætir við:

„(NATO) virkar aðeins sé ábyrgðaraðilinn til þrautavara hlutverki sínu vaxinn. Mín skoðun er að við ættum að endurmeta fyrir hvað NATO stendur í raun í ljósi skuldbindinga Bandaríkjamanna.“

Macron segir að í fyrsta sinn eigi ESB samskipti við forseta Bandaríkjanna sem sé ekki á sama máli og forystumenn ESB um „Evrópuverkefnið“, það er frekari og stöðuga samlögun Evrópuþjóða. Þetta gerist þegar þjóðir Evrópu standi frammi fyrir útþenslu Kína og eflingu valdboðsstjórna í Rússlandi og Tyrklandi. Innan dyra takist ESB á við brexit og pólitískan óstöðugleika.

Fyrir fimm árum hefði þessi eitraða blanda þótt „óhugsandi“ fullyrðir Macron. ESB sé á „brún hengiflugs“

„Vöknum við ekki […] er verulega hætta á að þegar fram líða stundir hverfum við frá geópólitískum sjónarhóli eða að minnsta kosti ráðum við ekki lengur eigin örlögum. Það er mjög djúpstæð skoðun mín.“

Í samtalinu heldur Macron uppi vörn fyrir umdeilda ákvörðun Frakka um að stöðva einhliða stækkun ESB til Vestur-Balkanskaga. Hann telur „fráleitt“ að opna dyr ESB fyrir nýjum aðildarríkjum án þess að endurnýja ekki aðildarskilmálana fyrst. Hann bætti við að yrði kröfum hans um það mætt væri hann fús til að endurskoða afstöðu sína.

Í október brugðu Frakkar fæti fyrir áform um að hefja ESB-aðildarviðræður við stjórnir Albaníu og Norður-Makedóníu. Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði að „alvarleg söguleg mistök“ hefðu verið gerð með því að loka á ríkin á þennan hátt.

Macron segir að innan ESB sé nú tímabært að huga að strategísku valdi sambandsins í stað þess að velta fyrir sért stækkun sameiginlega markaðarins.

Þetta ætti að gera með því að endurheimta „hernaðarlegt fullveldi“ og hefja að nýju viðræður við Rússa þrátt fyrir fálæti og grunsemdir Pólverja og annarra þjóða sem lutu á sínum tíma sovésku valdi. Að láta þetta undir höfuð leggjast Macron væri „stór mistök“.

Frakkar hafa árum saman barist fyrir frekara varnarsamstarfi ESB-ríkja við litla hrifningu Breta og annarra sem segja að Bandaríkjamenn gegni lykilhlutverki í vörnum Vesturlanda, einkum andspænis sókndjarfari Rússum.

Macron gagnrýnir skyndiákvörðun Donalds Trumps Bandaríkjaforseta í október um að kalla herlið sitt tafarlaust frá norðurhluta Sýrlands án þess að hafa samráð við bandamenn sína. Hún sé til marks um að Bandaríkjastjórn „snúi við okkur baki,“ segir forsetinn.

Ákvörðunin kom forysturíkjum Evrópu – Frökkum, Bretum og Þjóðverjum – í opna skjöldu og gerði Tyrkjum, einnig NATO-þjóð, fært að ráðast inn yfir landamæri Sýrlands og gegn hersveitum Kúrda í Sýrlandi.

Macron átaldi þá getuleysi NATO til að bregðast við sókn Tyrkja og sagði að tími væri til þess kominn að Evrópuþjóðir hættu að haga sér eins og hliðsettir bandamenn Bandaríkjamanna við lausn mála í Mið-Austurlöndum.

Samtal The Economist var tekið 21. október í Elysée-höllinni í París.

 

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Rússar ráðast á barnaspítala í Kyiv

Rússar gerðu flugskeytaárás á helsta barnaspítalann í Kyiv mánudaginn 8. júlí. Að minnsta kosti 22 …