
Emmanuel Macron Frakklandsforseti sætir gagnrýni meðal evrópskra ráðamanna fyrir þau ummæli sín á blaðamananfundi eftir Kínaferð í liðinni viku að Evrópuþjóðir ættu að varast að blanda sér í hættuástand sem snerti þær ekki, eins og deilurnar um Tævan. Þá ættu Evrópuþjóðirnar ekki að láta við það sitja að fylgja „stefnu Bandaríkjanna eins og um ósjálfráð hættuviðbrögð sé að ræða“. Er þetta í anda þeirrar stefnu sem Macron hefur jafnan fylgt um „þriðju leiðina“ í Austur-Asíu en við boðskap hans vakna efasemdir um afstöðu Frakka kæmi til hernaðarátaka vegna Tævans.
Í franska blaðinu Le Figaro segir að viðbrögðin við þessum ummælum forsetans minni á reiðina sem braust fram þegar hann sagði árið 2019 að NATO væri „heiladautt“.
„Spurningin sem við Evrópbúar stöndum frammi fyrir er eftirfarandi: Er okkur hagstætt að mál magnist vegna Tævan-málsins? Nei. Það versta sem hægt er að hugsa sér að gerðist er að við, Evrópubúar, yrðum dregnir inn í þetta mál og löguðum okkur að takti Bandaríkjamanna gegn yfirdrifnum viðbrögðum Kínverja, “ sagði Frakklandsforseti og hvatti til þess að Evrópuríkin ættu minna undir sambandi sínum við Bandaríkin.
Antoine Bondaz, sérfæðingur við Fondation pour la recherche stratégique (FRS), segir við Le Figaro: „Emmanuel Macron dregur taum Kínastjórnar þegar hann lætur í það skína að Frakkar ætli að verða hlutlausir þegar kemur að uppgjöri á Tævansundi.“
Le Figaro segir að ummæli Macrons hafi kallað fram hávær mótmæli á Vesturlöndum. Margir gagnrýnendur forsetans minni á að hefðu Bandaríkjamenn ekki látið að sér kveða í Evrópu til varnar Úkraínu hefði Vladimir Pútin unnið stríðið þar. Í Frakklandi sætir Macron einnig gagnrýni þar sem hann geti ekki látið eins og Frakkar eigi engra hagsmuna að gæta í nágrenni Tævans. Marco Rubio, öldungadeildarþingmaður repúblikana í Bandaríkjunum, segir að Bandaríkjamenn eigi að draga lærdóm af þessum orðum Frakklandsforseta, þeir eigi því að einbeita sér aðhótunum Kínverja vegna Tævans og láta Evrópumönnum eftir að leysa mál Úkraínu.
Skáksnillingurinn, andstæðingur Rússa, Garry Kasparov, minnir á að það sé einmitt stríð í Evrópu um þessar mundir vegna þess að Evrópuríkin hafi látið undir höfuð leggjast að sýna Vladimir Pútin í tvo heimana efir að hann innlimaði Krímskaga árið 2014.
Vandi Úkraínumanna líkist vanda Tævana. Kínverjar vilja eins og Rússar eyðileggja alþjóðakerfið, reka fleyg á milli Evrópu og Bandaríkjanna, ráðast á nágranna sína, festa bandalag valdboðsríkja í sessi gegn lýðræðisríkjunum. Stjórnir landanna tveggja sameinast í fyrirlitningu sinni á Bandaríkjunum og eina sem þær skilja er hervald.
Emmanuel Macron segir Bandaríkjamenn eina bera ábyrgð á spennunni en ekki Kínverja sem ætla þó að sölsa Tævan undir sig. Macron reynir nú að beita sömu aðferð gagnvart Xi Jinping Kínaforseta og hann gerði árangurslaust gagnvart Vladimir Pútin Rússlandsforseta áður en hann gaf fyrirmælin um innrásina í Úkraínu 24. febrúar 2022. Síðan reyndi Macron árangurslaust að koma vitinu fyrir Pútin og nú telur hann sér trú um að geta dregið úr stuðningi Kínverja við Rússa. Hann ýtir undir þá fyrirætlun Kínaforseta að móta „leið til friðar í Úkraínu“, þótt augljóst sé að áætlun Kínverja hefur að höfuðmarkmiði að grafa undan Bandaríkjunum og splundra samstöðu Atlantshafsríkjanna.
„Emmanuel Macron lætur eins og Banadaríkjamenn einir beri ábyrgð á spennunni en ekki Kínverjar sem hafa þó að markmiði að leggja Tævan undir sig, breyta núverandi ástandi. Þetta er algjört rangmat á stöðunni,“ segir Antoine Bondaz, sérfræðingur í málefnum Kína og Rússlands hjá Fondation pour la recherche stratégique.
Forseta Frakklands tókst ekki að hagga við Xi Jinping varðandi Úkraínu. Kínaferð hans varð hins vegar til að mynda sár í samskiptum við bandamenn Frakka í Evrópu og á Indó-Kyrrahafssvæðinu, segir Antoine Bondaz við Le Figaro.
Heimild: Le Figaro