Home / Fréttir / Macron boðar hertar aðgerðir gegn gyðingahatri

Macron boðar hertar aðgerðir gegn gyðingahatri

Grafreitur gyðinga í Alsace var svívirtur.
Grafreitur gyðinga í Alsace var svívirtur.

Gyðingahatur virðist nú hafa náð hæstu hæðum frá því í síðari heimsstyrjöldinni. Þennan boðskap flutti Emmanuel Macron Frakklandsforseti í ræðu sem hann flutti í árlegum kvöldverði leiðtoga franskra gyðinga miðvikudaginn 20. febrúar. Daginn áður höfðu þúsundir manna mótmælt hatursglæpum víða um Frakkland.

Samfélag gyðinga í Frakklandi er fjölmennast slíkra samfélaga í Evrópu og þar hefur vaxandi ótti gripið um sig undanfarin ár vegna hótana og árása á gyðinga sem komist hafa í heimsfréttir.

Macron boðaði hertar aðgerðir til að sporna við hatursorðræðu á netinu. Þær yrðu kynnar í maí með tillögum um lagabreytingar.

Forsetinn sagðist hafa mælst til þess við innanríkisráðherrann að stigin yrðu skref til banna hópa rasista eða gyðingahatara. Benti hann á þrjá öfgahópa sem hann sagði „kynda undir hatri, vinna að mismunun og hvetja til ofbeldisverka“.

Hann hét því einnig að Frakkar mundu viðurkenna and-síonisma sem eina tegund gyðingahaturs. Hreyfing síonista stóð að baki kröfunni um að Ísraelsríki yrði stofnað fyrir 70 árum.

Þriðjudaginn 19. febrúar fór Macron til Alsace, skammt frá þýsku landamærunum, og heimsótti grafreit þar sem unnin höfðu verið skemmdarverk á 96 grafsteinum gyðinga og málaður á þá hakakross. Þar sagði Macron: „Við grípum til aðgerða, við samþykkjum lög, við refsum.“

Sama þriðjudag komu þúsundir manna saman á útifundi í París og báru sumir spjöld með orðunum: Nú er nóg komið. Gyðingahatur var fordæmt á fundinum og á um 70 öðrum fundum víða um Frakkland.

Macron tengir þessi óhæfuverk gegn gyðingum við mótmælaaðgerðir gulvestunga sem gerðu laugardaginn 16. febrúar aðsúg að heimspekingnum og rithöfundinum Alain Finkielkraut á götu úti í París. Atvikið vakti mikla reiði innan og utan Frakklands. Yoac Gallant, innflytjendaráðherra Ísraels, hvatti gyðinga í Frakklandi til að „koma heim“ til Ísraels til að njóta öryggis.

Reuven Rivlin, forseti Ísraels, lýsti stuðningi við Macron og Finkielkraut og sagði óvildina gegn gyðingum „atlögu“ gegn Frakklandi. Ræddi Rivlin við Finkielkreut í síma og lýsti samstöðu með honum. Forsetinn skrifaði til Macrons og þakkaði honum fyrir að heimsækja grafreit gyðinganna.

Saga gyðingahaturs er löng í Frakklandi. Frakkar skiptust til dæmis í fylkingar undir lok 19. aldar vegna deilunnar um gyðinginn Alfred Dreyfus herforingja sem var ranglega dæmdur fyrir landráð.

Á tímum síðari heimsstyrjaldarinnar vann Vichy-ríkisstjórnin í Frakklandi með nasistum meðal annars við flutning gyðinga til útrýmingarbúða.

Í Frakklandi býr nú fjölmennasti hópur múslima í Evrópu. Nú sjást merki um gyðingahatur í blokkahverfum þar sem múslimar búa. Veggjakort gegn gyðingum sést æ víðar. Orðið Juden hefur verið málað á glugga verslana í París og einnig hakakrossinn.

 

 

Skoða einnig

Bardagareyndur hershöfðingi settur yfir rússnesku herstjórnina í norðvestri

Þriggja stjörnu hershöfðinginn Aleksandr Lapin var 15. maí skipaður yfirmaður Leningrad-herstjórnarsvæðisins í Rússlandi. Svæðið er …