Home / Fréttir / Macron boðar gulvestungum auka hörku

Macron boðar gulvestungum auka hörku

 

Brennt bilhræ á götum Parísar eftir átök lögreglu og grænvestunga laugardaginn 1. desember.
Brennt bílhræ á götum Parísar eftir átök lögreglu og grænvestunga laugardaginn 1. desember.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti var ekki fyrr kominn heim af leiðtogafundi G20-ríkjanna í Argentínu sunnudaginn 2. desember en hann fór með helstu samstarfsmönnum sínum og ráðherrum að Sigurboganum í hjarta Parísar til að kynna sér ummerki eftir mótmæli gulvestunga þar laugardaginn 1. desember.

Óeirðir hafa ekki orðið meiri í París í hálfa öld eða frá stúdentauppreisninni á árinu 1968. Lögreglan handtók 412 í París 1. desember  og 133 urðu fyrir meiðslum, þar af 23 lögreglumenn.

Ríkisstjórnin útilokar ekki að lýsa yfir neyðarástandi til að koma í veg fyrir frekari uppþot og ofbeldisfull mótmæli gegn hækkun á eldsneytisverði.

Benjamin Griveaux, talsmaður ríkisstjórnarinnar, sagði við Europe 1 útvarpsstöðina að innan ríkisstjórnarinnar væru „allir kostir til að viðhalda almannaöryggi“ til skoðunar.

Lögreglan telur að svartklæddir stjórnleysingjar og öfgamenn hafi laumast inn í raðir gulvestunga. Þeir hafi gengið berserksgang á götum Parísar, brotið allt og bramlað. Hundruð mótmælenda báru eld að bifreiðum og byggingum, brutust inn í verslanir og réðust á lögreglumenn. Loka varð ýmsum götum og jarðlestarstöðvum, meðal annars breiðgötunni Champs-Elysée. Þar og í nágrenninu voru bílhræ og alls kyns drasl eftir aðgerðirnar.

Lögregla beitti táragasi við Sigurbogann auk þess sem ekið var um með vatnsbyssur sem beint var að mótmælendum þegar þeir reyndu að brjótast í gegnum varnarlínu lögreglunnar.

Mótmæli utan Parísar voru að mestu leyti friðsöm laugardaginn 1. desember.

Hreyfing gulvestunga var sjálfsprottin laugardaginn 17. nóvember og jókst stuðningur við hana hratt á samfélagsmiðlum. Mótmælendur komu saman á gatnamótum, við aðkeyrslur að verslunarmiðstöðvum, verksmiðjum og nokkrum bensínsölum.

Í fyrstu snerust mótmælin gegn hækkun eldsneytisverðs en þau hafa breyst í víðtækari andstöðu við Emmanuel Macron og stjórn hans.

 

 

 

 

 

Skoða einnig

Drónaárás gerð á Moskvu

Ráðist var með drónum á Moskvu, höfuðborg Rússlands, að morgni þriðjudags 30. maí. Svo virðist …