Home / Fréttir / Macron boðar Finnum gagnkvæmt varnarsamstarf

Macron boðar Finnum gagnkvæmt varnarsamstarf

 

Emmanuel Macron og Sauli Niinistö.
Emmanuel Macron og Sauli Niinistö.

Emmanuel Macron Frakklandsforseti ræddi við Sauli Niinistö, forseta Finnlands, í Helsinki fimmtudaginn 30. ágúst. Viðræðurnar snerust að verulegu leyti um varnarmál. Finnskir fjölmiðlar túlka orð Macrons um aukið varnarsamstarf innan ESB á þann veg að hann vilji að Finnum verði „næstum sjálfkrafa“ veitt aðstoð verði að þeim vegið.

Á blaðamannafundi sagði Macron að koma yrði þeirri skipan á varnarsamstarf Evrópuþjóða að um „næstum sjálfvirk viðbrögð“ yrði að ræða hjá þeim öllum yrði ráðist á eina þeirra.

„Vilji okkar stendur skýrt til þess að Evrópuríki búi við strategíska sjálfsstjórn og styrki samstarf sitt á sviði varnarmála,“ sagði Frakklandsforseti á blaðamannafundinum.

Í þessu sambandi talaði hann um aukið „næstum sjálfvirkt samstarf“ sem leiddi til þess að milli þátttökuríkjanna í því yrði um raunverulega samstöðu að ræða yrði ráðist á eitt þátttökuríkjanna.

Til þess að þetta gerðist yrði að „endurorða“ grein 47.2 í Lissabon-sáttmálanum þar sem rætt er um gagnkvæma aðstoð ríkja. Frakkar vísuðu til hennar í fyrsta sinn eftir hryðjuverkin í París 13. september 2015.

Með breytingu í þessa veru byggju ESB-ríkin við „herta 5. greinar-skuldbindingu“ og vísaði forsetinn þar til 5. gr. Atlantshafssáttmálans, stofnsáttmála NATO, um að árás á eitt ríki sé árás á þau öll. Þar með komi önnur bandalagsríki viðkomandi ríki til aðstoðar.

Emmanuel Macron sagði að þetta skref væri ekki í andstöðu við NATO sem héldi gildi sínu sem „mikilvægt og strategískt“ bandalag. Hann taldi á hinn bóginn að Evrópuríkin yrðu að „styrkja samstöðu sína“.

Sauli Niinistö Finnlandsforseti fagnaði auknu varnarmálasamstarfi innan ESB og frumkvæði Frakka að því með átta samstarfsríkjum að koma á fót viðbragðsliði sem kalla megi til aðgerða með skömmum fyrirvara til hernaðar, til brottflutnings á fólki eða til aðsoðar í hamförum. Sagði Niinistö að Macron nyti fulls stuðnings Finna í viðleitni sinni til að styrkja og efla öryggi Evrópu,

Emmanuel Macron sagði að sýn Frakka og Finna á geopólitískar hættur væri hin sama. Macron sagði:

„Við viljum mynda strategíu sem nær til allrar Evrópu og ég vona að Svíar og Norðmenn sláist í hópinn þar sem stöndum öll framm fyrir sömu áskorunum og hættum. Við skulum sækja fram í anda evrópskrar samstöðu,“ sagði Macron.

Franskur forseti heimsótti Finnland síðast árið 1999 þegar Jacques Chirac fór þangað í opinbera heimsókn.

 

 

Skoða einnig

Ekki lengur í fyrsta sæti eftir 99 ár – hægri sveifla í Noregi

Í fyrsta sinn frá árinu 1924 er gengið til kosninga í Noregi án þess að …