Home / Fréttir / Macron áréttar sjálfstæða evrópska varnarstefnu í München

Macron áréttar sjálfstæða evrópska varnarstefnu í München

Emmaneul Macron skýrir mál sitt í München.
Emmaneul Macron skýrir mál sitt í München.

Öryggisráðstefnunni í München lauk sunnudaginn 16. febrúar. Þýska fréttastofan DW beinir sérstakri athygli að ræðu sem Emmanuel Macron Frakklandsforseti flutti laugardaginn 15. febrúar þar sem hann ræddi um hernaðarlegt vald Evrópu. Frakkar eru nú eina þjóðin með ráð yfir kjarnavopnum innan ESB. Telur forsetinn að evrópskt fullveldi aukist.

„Við getum ekki alltaf farið í gegnum Bandaríkin, nei, við verðum jafnframt að hugsa eftir evrópskum leiðum,“ sagði Macron í umræðum á ráðstefnunni þegar hann færði rök fyrir stefnu sinni um að Evrópuríki ættu sem fullvalda aðili að láta að sér kveða á alþjóðavettvangi.

Hann vísaði í því efni sérstaklega til evrópskra kjarnorkuvopna og sagði að sá grundvallarmunur væri á stöðunni nú og í kalda stríðinu að þá hefði Evrópa einkum treyst á kjarnorkuskjöld Bandaríkjanna. „Nú verðum við að geta sagt skýrt að viljum við fullvalda Evrópu, viljum við vernda borgara okkar, verðum við að líta til þessa þáttar, einnig með tilliti til Þýskalands,“ sagði Frakklandsforseti. Til að fylgja orðum sínum eftir hefur Macron þegar boðið Þjóðverjum að taka þátt í stefnumótandi viðræðum um kjarnorkuvopnastefnu Frakka.

Wolfgang Ischinger, stjórnandi ráðstefnunnar í München, var fundarstjóri þegar Macron svaraði í 60 mínútur spurningum ráðstefnugesta. Forsetinn sagðist sannfærður um að stórefla þyrfti Evrópu í varnarmálum en tók jafnframt skýrt fram að það væri til að styrkja fullveldi en ekki til að grafa undan NATO eða koma í stað NATO. „Ég hef sagt það áður: Sameiginlegt öryggi í Evrópu er reist á tveimur stoðum, önnur þeirra er NATO en hin er evrópskar varnir,“ sagði Macron.

Forsetinn sagði að samhliða því sem Evrópa yrði að geta gripið til sjálfstæðra aðgerða yrði að fara með kjarnorkuvopn í samvinnu við NATO. Í þessu skyni væru Frakkar tilbúnir til þátttöku í sameiginlegum æfingum.

Forsetinn sagði að Evrópubúar og Bandaríkjamenn ættu vissulega mörg sameiginleg gildi en hagsmunir þeirra væru ekki alltaf þeir sömu.

„Við þurfum athafnafrelsi í Evrópu. Við verðum að þróa okkar eigin hernaðarlegu stefnu. Landfræðilegar aðstæður okkar eru aðrar [en Bandaríkjamanna] og skoðanir okkar um félagslegt jafnræði falla ekki saman, um félagslega velferð.  Við verðum að verja hugsjónir. Miðjarðarhafsstefnan, hún er evrópsk ekki hluti Atlantshafssamstarfsins, sama á við um Rússa – við þurfum evrópska stefnu ekki aðeins stefnu um Atlantshafssamstarfið.“

Annegret Kramp-Karrenbauer, varnarmálaráðherra Þýskalands og fráfarandi formaður kristilegra demókrata (CDU), sagði í ræðu í München laugardaginn 15. febrúar að hún væri „alveg sammála“ Macron.

„Við ráðum yfir sameiginlegum verkfærum og hagsmunir okkar eru sameiginlegir, nú skulum loksins skapa sameiginlegan pólitískan vilja!“ sagði hún í ræðu á ráðstefnunni. „Ég vil að áhrif þýskrar og evrópskrar stefnu í öryggis- og varnarmálum verði meiri, aðgerðir okkar betur samræmdar á alþjóðavettvangi og mun sýnilegri.“

Hún nefndi meira að segja leið til að hrinda þessu í framkvæmd, að ESB mótaði sér sameiginlega hernaðarlega stefnu varðandi Hormuz-sund, sem hefði annað markmið en stefna Bandaríkjamanna um að beita Írani „ítrasta þrýstingi“.

Eftir að Macron hafði setið fyrir svörum á ráðstefnunni sagði Heiko Maas, utanríkisráðherra Þýskalands, við fréttamann DW að vaxandi spenna í samskiptum Bandaríkjamanna og Kínverja hvetti enn til þess að ESB „talaði einni röddu“. „Við viljum styrkja evrópsku stoðina innan NATO,“ sagði ráðherrann.

 

 

 

 

Skoða einnig

Úkraínuher fær F-16-þotur að lokinni þjálfun flugmanna

Bandaríkjastjórn hefur heimilað stjórnvöldum bandalagsríkja sinna að gefa Úkraínumönnum F-16-orrustuþotur. Þar með aukast líkur á …